Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Stuðnings-Kría: Umsóknarfrestur lengdur til 10. september.

Opnað var fimmtudaginn 16. júlí 2020 fyrir umsóknir um mótframlagslán Stuðnings-Kríu og hefur lánanefnd ákveðið að framlengja umsóknarfrest til 10. september 2020.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til efnilegra sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa að sækja sér aukna fjármögnun. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að lánin verði greidd út í haust.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með umsýslu og framkvæmd verkefnisins samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra. Stuðnings-Kría mun úthluta allt að 755 milljónum króna í formi lána til fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa til allt að þriggja ára og innifela breytirétt í hlutafé. Ákvarðanir um veitingu lána mótframlagslána eru teknar af sjálfstæðri lánanefnd sem skipuð er af ráðherra. Meginforsenda mótframlagslána er að umsækjandi hafi tryggt sér fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Stuðnings-Kría mun þá veita sambærilegt lán á sömu kjörum og á sama lánstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Á vef Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins www.nyskopun.is má finna frekari upplýsingar um mótframlagslánin, skilyrðin sem fyrirtæki þurfa að uppfylla svo og umsóknarferlið.

Opnað fyrir umsóknir í Stuðnings-Kríu fimmtudaginn 16. júlí 2020

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með mótframlagslánum til nýsköpunarfyrirtækja.

Opnað verður fimmtudaginn 16. júlí 2020 fyrir umsóknir um mótframlagslán Stuðnings-Kríu og er umsóknafresturinn til 13. ágúst 2020.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til efnilegra sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa að sækja sér aukna fjármögnun. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að lánin verði greidd út í haust.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með umsýslu og framkvæmd verkefnisins samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra. Stuðnings-Kría mun úthluta allt að 755 milljónum króna í formi lána til fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa með breytirétti í hlutafé. Ákvarðanir um veitingu lána mótframlagslána eru teknar af nefnd sem skipuð er af ráðherra. Meginforsenda mótframlagslána er að umsækjandi hafi tryggt sér fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Stuðnings-Kría mun þá veita sambærilegt lán á sömu kjörum og á sama lánstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Á vef Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins www.nyskopun.is má finna frekari upplýsingar um mótframlagslánin, skilyrðin sem fyrirtæki þurfa að uppfylla og umsóknarferlið.

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Tyme Wear

Tyme Wear þróar mælibúnað sem mælir þrekþröskulda íþróttafólks og bætir þjálfun þeirra.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir rúmlega 200 milljóna króna hlutafjáraukningu íslenskra og bandarískra aðila í sprotafyrirtækinu Tyme Wear. Hlutafjáraukningin mun nýtast Tyme Wear við framþróun og markaðssetningu á vöru sinni á árinu.

Tyme Wear þróar búnað fyrir íþróttafólk sem mælir árangur af æfingum. Lausnin byggir á snjallfatnaði sem íþróttafólk klæðist og mælir þrekþröskulda líkamans út frá öndun viðkomandi. Mjúkir nemar eru felldir inn í snjallfatnað, algrím greina gögnin sem í framhaldinu eru gerð aðgengileg í gegnum notendaviðmót í síma eða tölvu. 

Tyme Wear hefur sannreynt nákvæmni tækninnar á afreksrannsóknarstofu Harvard háskóla í Bandaríkjunum og með aðstoð frá alþjóðlegu afreksíþróttafólki á heimsmælikvarða. Meðal þeirra eru liðsmenn Team USA í þríþraut, landslið Kanada í frjálsum íþróttum og íslenskt afreksíþróttafólk, svo sem hlaupararnir Aníta Hinriksdóttir og Arnar Pétursson, þríþrautarmaðurinn Sigurður Ragnarsson, meistaraflokkur KR í fótbolta og frjálsíþróttalið ÍR. 

Aukinn fjöldi íþróttamanna miðar þjálfun sína að því að finna leiðir til að stýra álaginu á æfingum til að ná auknum framförum og forðast á sama tíma meiðsli eða ofþjálfun. Um 60% þeirra sem styðjast við lausnir sem byggja á hjartsláttarmælingum ná litlum sem engum framförum. Ástæðan er að viðmiðin eru of almenn þannig að ekki næst að stilla æfingaálagið rétt miðað við raunverulega líkamlega getu. Lausn Tyme Wear snýst um að mæla líkamlegt atgervi til að auðvelda einstaklingsmiðaðar ráðleggingar um æfingar og æfingaálag. Þá veitir kerfið sjálfvirka endurgjöf sem auðveldar notandanum að greina æfingarnar sínar og bera framfarir saman við sett markmið. 

Framundan er að ljúka við þróun vörunnar. Prófanir halda áfram í sumar og hún kynnt nánar í haust. Markaðssetning og sala á áskriftarmarkað í Evrópu hefst á næsta ári og verður stýrt frá Íslandi. 

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs: 

„Tyme Wear er spennandi fyrirtæki sem við höfum trú á. Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit nýtt til að bæta þjálfun og frammistöðu íþróttamanna í heimi þar sem framfarir og tækninýjungar skipta æ meira máli í þeirri þróun. Það er gaman að sjá nýja tækniþekkingu þróast með þessum hætti og ljóst að tæknin býður upp á mörg tækifæri tengd fjarþjálfun sem á klárlega eftir að vaxa mikið.“ 

Arnar Lárusson, stofnandi og framkvæmdastjóri Tyme Wear: 

„Þessi fjárfesting gefur okkur færi á að klára að þróa lausnina, koma henni á markað og hjálpa íþróttafólki við rétta nálgun á æfingar. Helstu hættur við ranga æfingaáætlun eru annað hvort meiðsli vegna of mikils álags eða litlar raunverulegar framfarir vegna of lítils álags og lítils hvata. Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að fá Nýsköpunarsjóð að fjármögnun félagins og aðkoma sjóðsins hefur stuðlað að því að því að við gátum dregið fleiri sterka aðila að félaginu.“ 

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfestir í PayAnalytics

Frá undirritun samninga milli Nýsköpunarsjóðs og PayAnalytics.  Frá vinstri Guðrún Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar PayAnalytics, Sigurjón Pálsson framkvæmdastjóri PayAnalytics, Örn Viðar Skúlason fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs og Margrét Vilborg Bjarnadóttir stjórnarformaður PayAnalytics

Hugbúnaðarlausn PayAnalytics, sem keyrð er í skýi og mælir launamun, hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Lausnin er nú þegar notuð af rúmlega 50 fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem samanlagt eru með yfir 30.000 starfsmenn, eða um 14% af íslenskum vinnumarkaði.

Það sem gerir lausn PayAnalytics frábrugðna öðrum lausnum er að eftir að búið er að mæla launabilið gerir hugbúnaðurinn tillögu að launabreytingum niður á einstaka starfsmenn til þess að loka launabilinu. Sömuleiðis sýnir hugbúnaðurinn áhrif launaákvarðana á launabilið áður en þær eru teknar. Markmið PayAnalytics er að koma öflugu launagreiningartóli í hendurnar á stjórnendum, mannauðsstjórum og ráðgjöfum svo taka megi upplýstar og gagnadrifnar ákvarðanir um laun. Þannig er ekki bara hægt að loka launabilum hvar sem þau finnast heldur einnig halda þeim lokuðum. Hugbúnaðurinn vinnur vel með hvaða launa- og mannauðskerfi sem er.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs:

„Ísland hefur tekið forystu í jafnréttismálum. PayAnalytics sprettur upp úr sterku jafnréttisumhverfi og hefur þróað lausn sem skarar fram úr á heimsvísu. Fyrir utan að vera góð fjárfesting styður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með fjárfestingu sinni við útflutning á íslenskri þekkingu og þau jafnréttisgildi sem hér hafa verið byggð upp og hlotið hafa alþjóðlegar viðurkenningar. Við erum því mjög spennt fyrir samstarfinu við PayAnalytics teymið og teljum að öflugt tengslanet okkar og þekking muni gagnast við áframhaldandi uppbyggingu og vöxt félagsins.“

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics:

„Jafnlaunalausn okkar er notuð af flestum öflugustu fyrirtækjum landsins. Á sama tíma er lagaumhverfið að breytast hratt út um allan heim. Í Bretlandi þurfa fyrirtæki nú að mæla og birta launamun kynjanna á hverju ári, í Frakklandi verður bráðum farið að sekta fyrirtæki sem ekki vinna í að minnka launamuninn, og dæmin eru fleiri. Á sama tíma hefur orðið hröð viðmótsbreyting sem enn hefur ýtt undir þörfina fyrir lausnina okkar. Við höfum notið öflugs stuðnings Tækniþróunarsjóðs sem hefur komið okkur þangað sem við erum í dag og með fjárfestingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins getum við haldið tæknilegu forskoti okkar og hraðað uppbyggingu okkar á markaðssvæðum erlendis.“

PayAnalytics vann árið 2016 Gulleggið, sem er frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups. PayAnalytics var árið 2018 valið Best Social Impact Startup og Best Newcomer á Íslandi í Nordic Startup Awards. Félagið var árið 2019 valið besta sprotafyrirtækið á Wharton People Analytics Conference, sem er ein virtasta ráðstefna sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Margrét V. Bjarnadóttir var valin háskólakona ársins á Íslandi árið 2019, m.a. vegna samfélagslegra áhrifa rannsókna hennar á jafnlaunamálum. Margrét vann sömuleiðis Global Women Inventor and Innovator Network Award fyrir PayAnalytics árið 2019. Ítarlegri upplýsingar má finna á www.payanalytics.is.

Jólakveðja

Nýsköpunarsjóður sendir öllum frumkvöðlum og öðrum velunnurum nýsköpunar okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári. Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.

Florealis sækir aukið fjármagn

Sókn Florealis á í Skandinavíumarkað er í fullum gangi. Vörur félagsins eru fáanlegar í um 600 apótekum á Íslandi og í Svíþjóð og hefur fjöldi sölustaða sjöfaldast frá því í maí 2019. Markmið fjármögnunarinnar er að styðja við þennan mikla vöxt í Svíþjóð og sækja enn frekar á erlenda markaði með vörur Florealis. Nýsköpunarsjóður kom fyrst að fjármögnun Florealis í byrjun árs 2018.

https://www.vb.is/frettir/florealis-saekir-aukid-fjarmagn/158738/

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins 3. desember segir m.a.
Íslenska lyfjafyrirtækið Florealis hefur hafið hlutafjárfjármögnun í samstarfi við fjármögnunarfyrirtækið Funderbeam, sem er nokkurs konar markaðstorg fyrir fjárfestingar í sprota- og vaxtafyrirtækjum. Félagið hefur á undanförnum vikum staðið fyrir fjárfestakynningum víða um Evrópu í samstarfi við Funderbeam.
Florealis leggur áherslu á að brúa bilið á milli hefðbundinna lyfja og fæðubótaefna með þróun og markaðssetningu á jurtalyfjum. Á síðustu tveimur árum hefur félagið komið með níu vörur á markað sem allar hafa farið í gegnum skráningu hjá lyfjaeftirlitinu og byggja á klíniskum rannsóknum.
Meðal þeirra lyfja sem Florealis hefur sett á markað er Harpatinum, sem er eina viðurkennda jurtalyfið við lið- og gigtarverkjum, Sefitude sem er jurtalyf sem er notað til að bæta gæði svefns og til að draga úr kvíða, Glitinum, til að fyrirbyggir mígreni og Lyngonia sem er valkostur án sýklalyfja við þvagfærasýkingu. Hægt er að kaupa öll jurtalyfin frá Florealis í apótekum á Íslandi án lyfsseðils.
Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi Florealis segir fólk er í dag vera meðvitað um heilbrigði og því að viðhalda góðri heilsu. „Samhliða þeirri þróun hafa jurtalyf notið aukinna vinsælda og margir sem kjósa þau frekar en sýklalyf, ávanabindandi svefnlyf og önnur lyf með fleiri aukaverkanir,“ segir Kolbrún.
„Við leitum aftur til upprunans þar sem náttúran var notuð til lækninga en notum um leið nútíma þekkingu og tækni. Þar skiptir miklu máli mikil og góð reynsla af lyfjaþróun. Í dag eru einu viðurkenndu jurtalyfin sem fáanleg eru á Íslandi frá Florealis. Í kjölfar hlutafjárútboðsins stefnum við á enn frekari vöxt erlendis.“
Hlutafjárskráningin fer fram á heimasíðu Florealis og Funderbeam, en í dag eru stærstu eigendur Florealis Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og fjárfestahópurinn Einvala fjárfesting.

Kara Connect

Kara Connect ehf. hefur lokið 160 milljóna króna fjármögnun með aðkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og tveggja sænskra einkafjárfesta. Kara Connect er örugg stafræn vinnustöð sem gerir sérfræðingum í heilbrigðis,- velferðar- og menntageiranum kleift að veita skjólstæðingum þjónustu og straumlínulaga rekstur sinn.

Um er að ræða aðra fjármögnun félagsins. Fyrir ári síðan fjárfesti Crowberry Capital í Kara Connect sem  gerði teyminu kleift að einbeita sér að þróun hugbúnaðarins með öryggismál að leiðarljósi. Kara er eini íslenski hugbúnaðurinn fyrir sérfræðinga sem er samþykktur af Landlæknisembættinu þegar litið er til gagnavistunar og fjarfundasamskipta við skjólstæðinga.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kemur nú inn sem nýr fjárfestir og eignast 10% hlut í félaginu. Allir fyrrum fjárfestar taka einnig þátt og auk þess bætast við nýir sænskir fjárfestar, félögin Poleved Industrial Performance AB og Skogsliden Finance AB.

„Fjármögnun með aðkomu þessara sterku fjárfesta skiptir miklu máli fyrir félagið og gefur frábæru teymi tækifæri til að stækka, sérstaklega í sölu- og markaðsmálum, samhliða vexti í Danmörku. Íslenski markaðurinn hefur tekið hratt við sér og mörg spennandi og framsýn verkefni grundvölluð á kerfi Köru verða brátt sýnileg,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Kara Connect.

Hátt í 700 sérfræðingar nýta sér Köru fyrir bakvinnslu, greiðslur og öryggismál, og samtímis stóreykur Kara aðgengi skjólstæðinga að sérþekkingu þeirra. Sérfræðingar nýta Köru til að skrá og byggja yfirlit um hefðbundna fundi, fjarfundi og spjallfundi. Tugþúsundir fjarfunda hafa farið fram nú þegar og hefur heildarfjöldi notenda meira en tvöfaldast frá áramótum og telur nú yfir 4.300.

„Það hefur verið spennandi að fylgjast með þróun og vexti Köru Connect og við höfum trú á að fyrirtækið eigi eftir að vaxa enn frekar á markaði sem þarfnast þeirra tæknilausna sem félagið býður upp á. Starfsemi, vörur og hugvit Köru Connect eru dæmi um vel heppnaða nýsköpun og með auknu hlutafé fær félagið tækifæri til að sækja fram á nýjum mörkuðum. Við hlökkum til að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sem tekur sæti í stjórn félagsins ásamt Patrick de Muynck fyrir hönd sænsku fjárfestanna.

Patrick telur markaðinn vaxandi: „Um leið og Kara styður við og eykur framlegð sérfræðinga, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, eykur hugbúnaðurinn aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu í öruggu umhverfi á þeirra forsendum, auk þess sem ferðalög milli staða minnka talsvert eða hverfa almennt.“ Aðrir í stjórn félagsins eru Halldór Bjarkar Lúðvígsson framkvæmdastjóri SMB Solutions sem er jafnframt formaður stjórnar, Jenný Hrafnsdóttir, meðstofnandi Crowberry Capital, og Ari Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Nýsköpunarþing 2019

Nýsköpunarþing Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarsjóðs verður haldið mánudaginn 21. október 2019, kl. 15.00-17.00 á Grand Hótel Reykjavík. Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019 verða afhent á þinginu.

Þema þingsins í ár er Sjálfbærni til framtíðar.

Nýsköpunarþing er haldið árlega í samstarfi Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Umfjöllunarefni Nýsköpunarþings hverju sinni tengist rannsóknum, þróun og markaðsmálum en yfirskrift þingsins í ár er Sjálfbærni til framtíðar. Á þinginu verður rætt um sjálfbærni útfrá nýsköpun og hönnun.

Aðalfyrirlesari þingsins er Dr. Leyla Acaroglu sem er heimsþekkt fyrir hugmyndir sínar um hönnun og sjálfbærni. Acaroglu er vinsæll fyrirlesari og hefur fyrirlestur hennar á TED meðal annars fengið yfir milljón áhorf. Hún er leiðandi í kynningum um allan heim í að virkja jákvæða félagslega og umhverfislega breytingu í gegnum skapandi inngrip. Leyla er stofnandi The Unschool of Disruptive Design, Disruptive Design og The CO Project Farm í Portúgal.

Jafnframt munu margir frumkvöðlar segja frá reynslu sinni og hugmyndum um sjálfbærni, hönnun og nýsköpun en meðal fyrirlesara eru Rakel Garðarsdóttir, Jón Ágúst Þorsteinsson og Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Nýsköpunarþing er öllum opið og aðgangur ókeypis.

Hægt er að skrá sig á þingið á heimsíðunni:

https://www.nmi.is/is/um-nyskopunarmidstod/skraning-a-nyskopunarthing-2019

Dagskrá

Formleg dagskrá hefst kl. 15.00 og lýkur kl. 17.00 

Ávarp

       Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra

Viðtöl við frumkvöðla og fólk í nýsköpun:

       Skilaboð um framtíðina,  Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, aðgerðasinni og nemandi

Aðalfyrirlesari, erindi

      Dr. Leyla Acaroglu, frumkvöðull, hönnuður og stofnandi UnSchool of Disruptive Design, Disrupt Design og CO Project Farm.

Viðtöl við frumkvöðla og fólk í nýsköpun:

        Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, aðstoðarforstjóri Carbon Recycling International

 Upplýsingatækni í þágu umhverfisins

        Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Klappa

 Sjávarútvegur og nýsköpun

        Guðrún Anna Finnbogadóttir, verkefnastjóri Vestfjarðastofu

Viðtöl við frumkvöðla og fólk í nýsköpun:

       Kristinn Jón Ólafsson, verkefnastjóri Snjallborgar hjá Reykjavík

       Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans og fyrrum stjórnarformaður IcelandSIF, félags um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Spennum beltin – ókyrrð framundan

       Rakel Garðarsdóttir, frumkvöðull, framkvæmdastjóri og stofnandi Verandi og Vakandi

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019

      Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra afhendir verðlaunin

Fundarstjóri: Huld Magnúsdóttir, forstöðumaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Í lok Nýsköpunarþings er boðið uppá léttar veitingar.

Leyla Acaroglu á Nýsköpunarþingi

Nýsköpunarþing Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verður haldið mánudaginn 21. október kl. 15 – 17 á Grand Hótel Reykjavík.

Yfirskrift þingsins er Sjálfbærni til framtíðar

Aðalfyrirlesari verður Leyla Acaroglu sem er heimsþekkt fyrir hugmyndir sínar um hönnun og sjálfbærni.

Skráning hér!

https://www.nmi.is/is/um-nyskopunarmidstod/skraning-a-nyskopunarthing-2019

SÍA III kaupir Men&Mice

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur selt allt hlutafé sitt í Men&Mice til framtakssjóðs í rekstri Stefnis.

Framtakssjóðurinn SÍA III hefur fest kaup á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice. Seljendur félagsins eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ásamt öðrum fjárfestum.

Men&Mice þróar og selur hugbúnaðarlausnir til stjórnunar á innviðum netkerfa stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Meðal viðskiptavina félagsins eru Microsoft, Intel, FedEx, Nestlé og Harvard Business School. Stærsti hluti tekna félagsins kemur erlendis frá en meginþorrinn af starfsemi þess fer fram hér á landi. Hjá Men&Mice starfa 35 manns á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Evrópu. Forstjóri félagsins er Magnús Eðvald Björnsson.

Men&Mice var stofnað árið 1990 af Pétri Péturssyni og Jóni Georg Aðalsteinssyni. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kom að félaginu árið 2001 og aðrir erlendir fjárfestar síðar.

SÍA III slhf. er framtakssjóður í rekstri Stefnis. SÍA sjóðirnir hafa verið starfræktir frá 2011 og hafa á undanförnum árum fjárfest í á annan tug fyrirtækja í fjölbreyttri atvinnustarfsemi.

Arnar Ragnarsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni:

„Við höfum mikla trú á rekstri Men&Mice. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og aðrir hluthafar hafa ásamt starfsfólki félagsins byggt upp fyrirtæki sem hefur þróað góða vöru, er með sterkan viðskiptamannagrunn og mikla vaxtarmöguleika. Við sjáum fram á að efla félagið og starfsemi þess enn frekar og sækja fram á við á þeim sterka grunni sem það byggir á.“

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Men&Mice hefur á liðnum árum byggt upp öfluga alþjóðlega starfsemi og er gott dæmi um það hvernig íslenskt hugvit nýtist í hugbúnaðarlausnum út um allan heim. Það hefur verið ánægjulegt að taka þátt í vexti félagsins á liðnum árum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skilur stoltur við félagið og óskar nýjum eigendum velfarnaðar við frekari uppbyggingu og vöxt þess.

Magnús Eðvald Björnsson, forstjóri Men&Mice,

„Framundan eru spennandi tímar hjá Men&Mice. Umhverfi félagsins tekur stöðugum breytingum og fyrirtækið stendur frammi fyrir nýjum sóknarfærum á tímum hraðra tæknibreytinga. Varan okkar er einstök á alþjóðavísu og byggð á traustum grunni. Teymið okkar innanhús er sterkt og fagnar þessum tímamótum með okkur, sem gefur okkur byr undir báðar vængi til að sækja fram með þeim hætti sem við ætlum okkur. Kaupin eru því mikilvægur áfangi í þroska fyrirtækisins.“

Nýsköpunarsjóður kemur að fjármögnun Hefring

Ný­sköp­un­ar­sjóður at­vinnu­lífs­ins og Hefr­ing ehf. hafa gengið frá sam­komu­lagi um fjár­mögn­un og mun sjóður­inn eign­ast tæp­lega fjórðungs­hlut í fé­lag­inu.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu, en Hefr­ing ehf. þróar lausn­ir sem eiga að auka ör­yggi sjófar­enda og veita báta­eig­end­um betri yf­ir­sýn yfir meðferð báta.

Fyrsta vara fé­lags­ins, Hefr­ing Mar­ine, miðar að því að auka ör­yggi og fækka slys­um um borð í hraðbát­um, en hún veit­ir skip­stjórn­ar­mönn­um leiðbein­andi upp­lýs­ing­ar á meðan sigl­ingu stend­ur og rekstr­araðilum báta inn­sýn og grein­ingu á gögn­um um hegðun og viðbrögð á sigl­ingu.

Hóf starf­semi í fyrra

Í til­kynn­ing­unni seg­ir að búnaðinum megi líkja við öku­rita í bif­reiðum. Hefr­ing stefn­ir jafn­framt á að búa til nýj­ar lausn­ir sem byggja á gögn­um frá bát­um, greina sigl­ingu og aðra þætti sem nota má til að bæta rekst­ur báta.

Hefr­ing hóf starf­semi á síðasta ári. Að fyr­ir­tæk­inu standa þeir Karl Birg­ir Björns­son, Björn Jóns­son og Magnús Þór Jóns­son. Fé­lagið tók þátt í TINC hraðlin­um á veg­um Nordic Innovati­on Hou­se í Palo Alto í Kali­forn­íu í nóv­em­ber 2018 og var einnig valið sem full­trúi Íslands í alþjóðlegri sam­keppni sprota­fyr­ir­tækja, Creati­ve Bus­iness Cup Nati­onal Com­pe­titi­on í Kaup­manna­höfn. Þá hef­ur Hefr­ing verið kynnt við góðar und­ir­tekt­ir fyr­ir fjölda aðila sem starfa á báta­markaði á alþjóðleg­um vett­vangi.

Fyr­ir­tækið sér tæki­færi fyr­ir búnaðinn hjá fjöl­mörg­um not­end­um báta, svo sem hjá rekstr­araðilum ferðaþjón­ustu­báta, skemmti­báta og vinnu­báta, en einnig hjá strand­gæsl­um, björg­un­ar­sveit­um og lög­reglu­yf­ir­völd­um, og kynn­ir á þessu ári fyrstu út­gáfu lausn­ar­inn­ar fyr­ir fyrstu viðskipta­vin­um á Íslandi og í Nor­egi.

Skýr alþjóðleg skír­skot­un

Huld Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Ný­sköp­un­ar­sjóðs at­vinnu­lífs­ins, seg­ir sjóðinn telja Hefr­ing vera áhuga­vert tæknifyr­ir­tæki sem falli vel að stefnu og áhersl­um sjóðsins.

„Fyr­ir­tækið hef­ur skýra alþjóðlega skír­skot­un, veit­ir betri upp­lýs­ing­ar um sigl­ing­ar og rekst­ur báta og stuðlar þannig að fækk­un slysa sem er mik­il­vægt þar sem sí­fellt eru gerðar aukn­ari kröf­ur um ör­ygg­is­mál.“ 

Karl Birg­ir Björns­son, fram­kvæmda­stjóri Hefr­ing, seg­ist ánægður með aðkomu sjóðsins og að aðstand­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins sjái fram á gott sam­starf með því öfl­uga teymi sem þar starfi.

„Aðkom­an styður við áfram­hald­andi þróun og markaðsetn­ingu á Hefr­ing Mar­ine-lausn­inni sem við stefn­um á að koma á markað í sinni fyrstu út­gáfu á næstu mánuðum.“

KLAPPIR OG STIKI SAMEINAST

Hugbúnaðarfélögin Klappir grænar lausnir hf. og Stiki ehf. hafa undirritað samkomulag um samruna félaganna. Félögin hafa átt farsælt samstarf og sjá margvíslegan ávinning af nánara samstarfi. Við samrunann munu Klappir yfirtaka rekstur Stika og fá eigendur Stika afhent hlutabréf í Klöppum. Starfsmenn sameinaðs félags verða um 30 talsins.
Markmiðið er að efla nýsköpun í upplýsingatækni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þá treystir samruninn betur forsendur alþjóðlegrar dreifingar á hugbúnaði fyrirtækjanna en hugbúnaðalausnir þeirra vinna allar að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.

Klappir bjóða hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem eru meðal allra fremstu upplýsingakerfa sinnar tegundar í heiminum. Stiki, sem er öryggisvottað fyrirtæki, hefur um árabil unnið að hugbúnaðargerð á sviði áhættustjórnunnar, upplýsingaöryggis, heilsumats og þjónustu við heilbrigðisgeirann. Hugbúnaðarlausnir Stika munu að loknum samruna bætast við lausnaframboð Klappa. Þannig verða RAI heilsumatskerfi Stika og Risk Management Studio færð yfir í lausnagrunn Klappa.

Stiki hefur verið í eigu Svönu Helenar Björnsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda Stika, Bjarna Þórs Björnssonar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Rekstrartekjur Stika á árinu 2018 voru 75 m.kr. Klappir eru skráðar á First North hlutabréfamarkað Kauphallar Íslands.

Í þessum viðskiptum er Stiki metið á 122,5 milljónir króna og gengi bréfa í Klöppum er 15. Eigendur Stika fá greitt með hlutabréfum í B-flokki í Klöppum sem gefin verða út að loknu samrunaferlinu, samtals 7.891.378 hlutir. Þá er gerð upp skuld Stika við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með útgáfu á hlutafé í sama flokki, samtals 288.622 hlutir. Vegna samrunans munu Klappir gefa út samtals 8.180.000 hluti og verður heildarfjöldi hluta í félaginu þá 133.680.000. Fyrrum eigendur Stika skuldbinda sig til að eiga bréfin í Klöppum í amk. þrjú ár.

Góð staða hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn, 9. maí 2019. Rekstur ársins 2018 gekk vel, staða sjóðsins góð og góður árangur náðist á árinu í sölu eigna.

Á árinu 2018 tók sjóðurinn þátt í tveimur mikilvægum fjárfestingum, sem voru fyrstu fjárfestingar sjóðsins í nokkur ár. Um er að ræða fjárfestingar í lyfjafyrirtækinu Florealis og í fyrirtækinu Ankeri Solutions sem starfar á alþjóðlegum skipamarkaði. Þá hélt sjóðurinn áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í hlutafjáraukningu fyrirtækjanna Aktheliu, AGR, Dohop og 3Z.

Sjóðurinn náði jafnframt góðum árangri í sölu eigna á árinu. Þannig má nefna sölu á hlutum í hátæknifyrirtækinu Völku og allt hlutafé í Gagnavörslunni ehf., Admit ehf. og Auris ehf. Í lok árs 2018 voru hlutir í 24 fyrirtækjum í eignasafni Nýsköpunarsjóðs og ásamt eignarhlutum í þremur sjóðum.

Hagnaður af rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins nam á árinu tæpum 39 milljónum króna, samanborið við tap upp á 595 milljónir króna árið áður sem skýrðist af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingarverkefna. Rekstrargjöld lækkuðu úr 149 milljónum króna í 107 milljónir, eða um 28% milli ára og munar þar mestu um minnkandi launakostnað vegna færri stöðugilda og minna af aðkeyptri þjónustu við fjárfestingarverkefni. Eigið fé sjóðsins nam í árs lok um 4,1 milljarði króna sem er sambærilegt við fyrra ár. Fjármunatekjur voru jákvæðar að fjárhæð 146 milljóna króna á árinu, samanborið við 447 milljóna króna tap á árinu 2017. Lánveitingar sjóðsins námu 159 milljónum króna og á árinu var fjárfest í eignarhlutum í félögum fyrir samtals 339 milljónir króna. Þá námu seldir eignarhlutir 405 milljónum króna.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, lagði í ávarpi sínu á aðalfundinum áherslu á mikilvægi sjóðsins í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Þannig hefði sjóðurinn á liðnu ári tekið þátt í fjölmörgum verkefnum, bæði hér og eins erlendis í þeim tilgangi að opna aðgang að tækifærum og reynslu fyrir stofnendur sprotafyrirtækja. Auk þess eigi sjóðurinn í samstarfi við aðra í þeim tilgangi að undirbúa skráningu nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn.  

„Þetta fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Skráning í norrænar kauphallir opnar glugga til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti,“ sagði Huld í ávarpi sínu. Þá sagði Huld, að með skýrri áherslu á sölu eigna  væri opnað enn frekar á getu sjóðsins  til að taka þátt í fleiri nýjum verkefnum á komandi misserum.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum. Sigurður Hannesson, formaður stjórnar, ávarpaði einnig fundinn og tók fram að nýsköpun væri ein fjögurra stoða samkeppnishæfni ásamt menntun eða mannauð, efnislegum innviðum og starfsumhverfi fyrirtækja.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs er óbreytt á milli ára. Hana skipa þau Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson , Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.

Nýsköpunarsjóður tók þátt í hub.berlin

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tók þátt í evrópsku viðskiptaráðstefnunni hub.berlin dagana 10. og 11. apríl síðastliðinn. Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, var þáttakandi í pallborðsumræðum að beiðni Bitkom sem er skipulagsaðili hub.berlin.

Umræðuefnið var aðkoma hins opinbera að nýsköpun. Aðrir þátttakendur voru Pål T. Næss, framkvæmdastjóri hjá Innovation Norway, Charles Ng, aðstoðar framkvæmdastjóri Invest Hong Kong og Nikki Dean sem stjórnaði umræðum.

Skemmtilegar og fjörugar umræður urðu um nýsköpunarumhverfið almennt, skipulagningu þess, möguleika í fjármögnun nýrra fyrirtækja, hvernig megi laða hæft fólk til starfa hjá sprotafyrirtækjum og hvaða leiðir hið opinbera getur farið til að styrkja sprotaumhverfið og nýsköpun. Einnig var rætt um samstarfi milli landa. Samstarf norðurlandana var sérstaklega nefnt í því samhengi og þá með tilvísun til Hong Kong en Nordic Innovation opnaði nýlega nýsköpunarmiðstöð (e. Innovation House) í Hong Kong.

Aðkoma Nýsköpunarsjóðs á hub.berlin var fyrir milligöngu íslenska sendiráðsins í Berlín. Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, og Ruth Bobrich viðskiptafulltrúi voru meðal gesta á ráðstefnunni.

Hér er hægt að sjá stutt myndband um hub.berlin :

https://www.hub.berlin/news/look-back-hubberlin-2019

Nánar um hub.berlin:

hub.berlin er gagnvirk evrópsk viðskiptaráðstefna fyrir þá sem starfa við hönnun og framleiðslu í stafrænum iðnaði. Ráðstefnan samanstendur af fyrirlestrum og umræðu, gagnvirkum námskeiðum og lifandi tækni. hub.berlin 2019 var haldin af þýsku samtökunum Bitkom, sem er samstarfsvettvangur stafrænna fyrirtækja í Þýskalandi. Yfir 2.500 fyrirtæki eiga aðild að Bitkom. Yfir 5.000 gestir víðs vegar að úr heiminum tóku þátt í ráðstefnunni í ár.

Lauf Forks eykur hlutafé um 300 milljónir

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf Forks hf. hefur tryggt sér ríflega 300 milljónir króna í nýtt hlutafé. Hlutafjáraukningin er leidd af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og er ætlað að standa undir áframhaldandi uppbyggingu félagsins á Bandaríkjamarkaði.

Lauf Forks var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Reiðhjól Lauf Forks eru nú þegar seld í ríflega 70 verslunum vestanhafs en einnig með milligöngu dreifingaraðila um heim allan. Þá bjóða aðrir hjólaframleiðendur upp á demparagaffla frá Lauf Forks á reiðhjólum sínum.

Lauf Forks var upphaflega stofnað utan um uppfinningu léttasta demparagaffals í heimi, sem býr yfir svokallaðri blaðfjöðrun, og nýtur nú einkaleyfis á öllum helstu framleiðslu- og sölumörkuðum. Gaffallinn hefur rutt brautina fyrir reiðhjól undir vörumerki Lauf, sem nú eru til sölu af tveimur tegundum sem hvora um sig má fá í mismunandi útfærslum. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit, sem helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa undanfarið ausið lofi. Hins vegar Lauf Anywhere, sem er alhliða reiðhjól, sem var nýlega kynnt til sögunnar og hefur þegar hlotið mjög jákvæðar viðtökur. Það skartar nýju stýri sem gefur létta fjöðrun og er önnur tveggja uppfinninga félagsins sem eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. Umboðsaðili Lauf forks á Íslandi er hjólaverslunin Kría.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:
„Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróun og vexti Lauf Forks á undanförnum árum og við höfum trú á því að fyrirtækið eigi eftir að vaxa enn frekar. Reiðhjól þeirra seljast vel í út um allan heim og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Starfsemi Lauf Forks er dæmi um vel heppnaða nýsköpun og með auknu hlutafé fær félagið tækifæri til að sækja fram á nýjum mörkuðum.“

Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Forks:
„Reiðhjól Lauf Forks hafa fengið góðar viðtökur í Bandaríkjunum og því ákjósanlegt að leggja áherslu á frekar vöxt þar að sinni. Markaðurinn vestanhafs er risavaxinn og malarhjólreiðar njóta þar sívaxandi vinsælda á kostnað hefðbundinna götuhjólreiða. Þróunin á Evrópumarkaði er skemmra á veg komin en félagið vinnur að samstarfssamningi við öflugan dreifingaraðila um markaðssetningu og sölu reiðhjólanna þar á næstu misserum.“

Kynntu sér skráningu sprotafyrirtækja í Svíþjóð

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stóð nýlega fyrir heimsókn fjölda aðila til Stokkhólms. Tilgangur ferðarinnar var að kynna fyrir aðilum nýsköpunarumhverfi Svíþjóðar og skráningu sprotafyrirtækja í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Góð þátttaka var í ferðinni en í hana fóru rúmlega 30 manns. Ferðin tengdist verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs, Nasdaq á Íslandi, KPMG, Íslandsbanka og Logos um undirbúning sprotafyrirtækja að skráningu á First North á Íslandi. Þátttakendur í ferðinni komu víða að og sendu 13 fyrirtæki fulltrúa sína auk aðila frá stuðningsumhverfinu s.s. Nýsköpunarmiðstöð og Icelandic Startups.

Þátttakendur hittu fjölda aðila sem kynntu nýsköpunarumhverfið í Svíþjóð. Þátttakendur sóttu fyrirlestra og fengu kynningar meðal annars hjá Epicenter, Vinnova og Industrifonden auk þess að heimsækja Nasdaq kauphöllina í Stokkhólmi. Það var samdóma álit þátttakenda að mikið væri hægt að læra af Svíum og stuðningsumhverfi nýsköpunar mjög til fyrirmyndar í Svíþjóð. Epicenter og Vinnova fræddu gesti um stuðning við sprotafyrirtæki og skölun og var að heyra á gestum að þjónusta beggja aðila væri mjög áhugaverð og gagnleg. Einnig kom fram mikill áhugi á Nordic Scalers verkefninu sem hefur verið unnið af Epicenter fyrir Nordic Innovation.

Mikilvægur hluti ferðarinnar var heimsókn til Nasdaq í Stokkhólmi en þar fengu gestir kynningar og fyrirlestra um skráningu á First North í Svíþjóð. Fram kom í máli þeirra sem fluttu erindi að mikil hreyfing er á sænska markaðnum og telja menn það megi að hluta rekja til þess að almenningur í Svíþjóð fjárfestir töluvert í skráðum félögum. Það skýrist meðal annars af því að almenningur nýtur skattaafsláttar í formi fyrirkomulags sem sett hefur verið upp meðal annars af bönkum í Svíþjóð til að auðvelda almenningi að fjárfesta.

Margfeldiskosning í hlutafélögum

Margfeldiskosning í hlutafélögum tryggir rétt minnihlutans. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af þessari réttarbót þar sem engum öðrum Norðurlandaþjóðum hefur auðnast að fylgja okkur svo vitað sé. Áhugaverð grein eftir Friðrik Friðriksson fjármálastjóra Nýsköpunarsjóðs í Fréttablaðinu í dag.