Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Hlutafjáraukning hjá Spectaflow

Nýsköpunarsjóður tók þátt í hlutafjáraukningu hjá Spectaflow. Fyrirtækið, sem þróar hugbúnaðarlausnir fyrir hótel- og gistimarkaðinn, hefur tryggt sér 260 milljóna króna fjármögnun. Vísisjóðurinn Frumtak Venture leiddi fjármögnunina sem nýtt verður til vaxtar erlendis. Nýsköpunarsjóður kom fyrst að fjármögnun Spectaflow árið 2020.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/spectaflow-faer-fjarmagn-fra-frumtaki-til-vaxtar/

Hlutafjáraukning í Ankeri

Nýsköpunarsjóður tók þátt í hlutafjáraukningu hjá Ankeri Solutions ehf. nýlega ásamt fleiri fjárfestum þ.á.m. Frumtaki 3. Nýsköpunarsjóður fjárfesti upphaflega í Ankeri árið 2018 sem kjölfestufjárfestir.

Ankeri hyggst nýta fjármögnunina nú til að efla vöruþróun og sölustarf en áætlað er að tekjur félagsins tífaldist á næstu tveimur árum. Einnig mun starfsmannafjöldi í vöruþróun og sölustarfi aukast hratt á næstu tólf mánuðum gangi áætlanir félagsins eftir.

Lausnir Ankeri gera viðskiptavinum sínum kleift að nálgast mikilvægar rekstrarupplýsingar á auðveldan hátt með það að leiðarljósi að taka hagkvæmar og sjálfbærar ákvarðanir varðandi rekstur skipaflutninga. Félagið hefur þróað skýjalausn sem tvinnar saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig leggur Ankeri sitt af mörkum í grænni þróun og orkuskiptum heimsflotans.  Ankeri stefnir á að ná 20-30 prósentum gámaskipa inn í kerfi sitt á næstu tveimur til þremur árum og hefur þegar stór erlend skipafélög meðal viðskiptavina.

Félagið var stofnað árið 2016 af Kristni Aspelund og Leifi Kristjánssyni sem hvor um sig hafa yfir fimmtán ára reynslu í skipaiðnaðinum. Félagið hefur áður verið styrkt af Tækniþróunarsjóði og meðal hluthafa eru einnig Hermann Kristjánsson fjárfestir.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs:

„Við hjá Nýsköpunarsjóði fögnum því að félag sem við höfum þegar fjárfest í og getum þróast áfram með svo jákvæðum hætti.  Bæði rekstrarlega en ekki síður að fjármögnun þess er áfram tryggð til að taka næstu skref í þróun félagsins og að félaginu er kominn annar öflugur sjóður.  Ankeri er dæmi um fjármögnun sprotafélags þar sem hver hlekkur er mikilvægur og staðfestir meðal annars hversu mikilvægur Nýsköpunarsjóður getur verið  í upphafi vegferðar sprotafélags.

Nánari upplýsingar um félagið er að finna https://www.ankeri.net/

Stjórnendur Ankeri: Óskar Sigþórsson, Leifur Kristjánsson, Kristinn Aspelund, Nanna Einarsdóttir og Helgi Benediktsson

450 milljóna króna fjárfesting í þróun og markaðssókn PayAnalytics

PayAnalytics mun tvöfalda þróunarteymi sitt og byggja upp alþjóðlegt sölu- og markaðsteymi til að mæta mikilli alþjóðlegri eftirspurn. Stækkunin kemur í kjölfar 450 milljóna króna fjárfestingar frá Eyri Vexti og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Hugbúnaðarlausn PayAnalytics er eftirsótt á heimsvísu þar sem hún auðveldar fyrirtækjum og stofnunum að draga úr eða útrýma launabili. Mannauðsstjórar, eða ráðgjafar þeirra, hlaða gögnum vinnustaðarins inn í lausnina, sjá hvar vandamálin liggja og fá tillögur um hvernig loka má launabilinu á sanngjarnan hátt. Hugbúnaðurinn styður í framhaldinu við góða ákvarðanatöku til að halda launabili lokuðu.

PayAnalytics er nú þegar notað í 43 löndum í 6 heimsálfum. Fyrirtæki sem nota hugbúnaðinn eru í öllum atvinnugreinum og með starfsmannafjölda allt frá 30 manns upp í vel yfir 100 þúsund manns.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi PayAnalytics:

„Fram undan eru spennandi tímar. PayAnalytics er með leiðandi lausn á okkar markaði og við ætlum að halda þeirri stöðu. Á næstu mánuðum ráðum við fólk í hugbúnaðarþróun, hönnun, sölu og markaðsstarf. Við höfum undirbúið okkur vel fyrir þennan tímapunkt þar sem fyrirtækið mun margfaldast á stuttum tíma. Þróunarumhverfið okkar byggir á nýjustu tækni og skjölun og ferlar hjálpa nýju starfsfólki að komast hratt inn í málin. Höfuðstöðvar PayAnalytics eru í Grósku, en starfsmenn eru hér, á Spáni, í Svíþjóð, Þýskalandi og í Bandaríkjunum. Teymi viðskipta- og hugbúnaðarþróunar vinna náið saman, sem skýrir stóran hluta þess árangurs sem við höfum náð. Tækniþróunarsjóður hjálpaði okkur af stað og á þessum tímapunkti getum við ekki hugsað okkur betri fjárfesta en Eyri og Nýsköpunarsjóð.“

Ábyrgar fjárfestingar

Eyrir Vöxtur er ESG sjóður í stýringu hjá Eyrir Venture Management. Eyrir Vöxtur fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og horfa til þess að vaxa hratt alþjóðlega. Stefna sjóðsins er að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi. Hann vinnur því eftir skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar:

„Við erum afar stolt af því að geta fjárfest í fyrirtæki eins og PayAnalytics og teljum mikil tækifæri felast í aukinni áherslu á sjálfbærni og jafnrétti. Mörg fyrirtæki eru í umbótaverkefnum sem snúa að jafnrétti og PayAnalytics býður upp á lausnir sem gera fyrirtækjum kleift að taka nauðsynleg skref í átt að jafnrétti. Mikill vöxtur er fram undan og við spennt að taka þátt í þeirri vegferð.“

Útflutningur á jafnrétti

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Í eignasafni sjóðsins eru nú 25 fyrirtæki og hefur sjóðurinn fjárfest í yfir 160 fyrirtækjum á síðustu 20 árum.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í PayAnalytics í janúar 2020 var lausnin vinsæl hér en var enn ekki notuð utan Íslands. Mat okkar þá var að PayAnalytics hefði þróað lausn sem skaraði fram úr á heimsvísu og það reyndist rétt. Með þessari fjárfestingu styðjum við áfram við frekari vöxt PayAnalytics og þar með við útflutning á íslenskri þekkingu og þeim jafnréttisgildum sem hér hafa verið byggð upp við góðan orðstír.“

Sigurjón Pálsson, Guðrún Þorgeirsdóttir og Margrét Vilborg Bjarnadóttir, þrír af stofnendum PayAnalytics, og Stefanía G. Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, Huld Magnúsdóttir og Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfestir í Evolytes

 

Frá vinstri, Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, Guðbjörg Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri námsefnisgerðar hjá Evolytes, Sigurður Gunnar Magnússon leikjahönnuður hjá Evolytes, Íris Eva Gísladóttir, verkefnastjóri vöruþróunar Evolytes, Mathieu Grettir Skúlason, framkvæmdastjóri Evolytes, Adrien Eiríkur Skúlason, viðskiptaþróunarstjóri Evolytes, og Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs.

Menntasprotafélagið Evolytes hefur lokið 70 milljóna króna hlutafjáraukningu, sem leidd var af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.  Evolytes hefur þróað heildstætt námskerfi sem kennir stærðfræði á árangursríkan og skemmtilegan máta í gegnum námsleik fyrir spjaldtölvur, námsbækur og upplýsingakerfi fyrir kennara og foreldra. Vörurnar vinna saman sem ein heild í gegnum gagnadrifin hugbúnað sem les og greinir getu barna í rauntíma og aðlagar námsefnið að getustigi þeirra til að hámarka námsárangur. Hlutafjáraukningin nýtist félaginu við markaðssetningu á Evolytes námskerfinu á erlendum mörkuðum og hraðar þróun kerfisins.

Námskerfi Evolytes er þróað til að bæta árangur barna í stærðfræði. Á Íslandi er staðan sú að 26% barna geta ekki sýnt fram á hæfilega stærðfræðikunnáttu við lok grunnskólagöngu og UNESCO Institute of Statistics áætlar að 617 milljón nemendur á heimsvísu nái ekki lágmarkshæfni í stærðfræði, eða 6 af hverjum 10 börnum í heiminum. Að baki kerfinu liggja áralangar þverfaglegar rannsóknir sem sýna að börn geta með þessum hætti lært hraðar og með árangursríkari hætti en með hefðbundnum kennsluaðferðum. Rannsóknirnar sem námskerfið byggir á eru einstakar, en Evolytes hefur innleitt sex sálfræðikenningar til að tryggja hámörkun námsárangurs barna. Evolytes námsleikurinn er frábrugðinn öðrum námsleikjum þar sem hann stenst samanburð við það skemmtiefni sem börn sækjast í. Þessi blanda af rannsóknar- og skemmtanadrifinni nálgun er ein helsta sérstaða Evolytes námskerfisins.

Námskerfið hefur fengið jákvæð viðbrögð síðan það kom út fyrir einu og hálfu ári síðan. Notendum á einstaklingsmarkaði hefur fjölgað jafnt og þétt auk þess sem skólar hafa sýnt mikinn áhuga. Rúmlega 40 skólar og 2.500 nemendur víðs vegar um Ísland nota nú Evolytes.  Fram undan er markaðssókn í Evrópu og örari þróun á námskerfinu til að styðja við breiðari aldurshóp, fjölbreyttara tækjaúrval og bæta við nýjum skemmtilegum ævintýrum í Evolytes námsleikinn. 

 Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

 „Nýsköpunarsjóður fagnar þátttöku í að byggja upp gagnlegar lausnir sem stuðla að betri menntun barna til framtíðar, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Evolytes tengir saman nám og leik með börnum og kennurum en mikil þörf er á lausnum á þessu sviði. Við teljum að kerfið muni nýtast vel og hlökkum til samstarfsins með öflugu teymi Evolytes.“ 

 Mathieu Grettir Skúlason, stofnandi og framkvæmdastjóri Evolytes:

 „Þessi fjármögnun gefur okkur tækifæri til að umbylta stærðfræðinámi barna og tryggja að þau fái tækifæri til að hámarka árangur sinn í stærðfræði. Með því að gera stærðfræðinám skemmtilegt, gagnadrifið og einstaklingsmiðað höfum við aukið námsárangur og bætt viðhorf nemenda til muna. Á sama tíma veitum við kennurum og foreldrum valdeflandi tæki þar sem þeir eru með rauntímayfirsýn á námsframvindu nemenda. Við höfum notið stuðnings frá Tækniþróunarsjóði til að gera þetta verðuga verkefni að veruleika og það er jafnframt mikil viðurkenning að fá Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að fjármögnun félagsins. Með þessari fjármögnun getum við náð tæknilegu forskoti og hraðað markaðssókn í Evrópu.“ 

 

 

 

 

Sæmundur ráðinn sjóðstjóri Kríu

Sæmundur K. Finnbogason hefur verið ráðinn til Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Hann mun starfa sem
sjóðstjóri Kríu, sem er nýr sprota- og nýsköpunarsjóður sem hefur það að markmiði að stuðla að
uppbyggingu fjármögnunarumhverfis sprota-, tækni-, og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi.

Sæmundur hefur undanfarin sjö ár starfað sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og almannatengsla hjá
Sendiráði Kanada á Íslandi. Áður starfaði hann við verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf hjá Virðingu
Verðbréfum hf. og sem sérfræðingur hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann hefur lokið B.Sc. gráðu í
viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti og fjármál frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í
auðlindastjórnun og stefnumótun fyrirtækja frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hlutverk sjóðsins er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture
capital funds), sem síðan fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Sjóðnum er ætlað að efla fjárfestingarumhverfi
sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar
og í samræmi við Nýsköpunarstefnu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með rekstri og
umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, formaður stjórnar Kríu:
„Það er ánægjulegt að fá Sæmund til starfa hjá Kríu. Reynsla hans og þekking mun nýtast í því
mikilvæga hlutverki sem Kría gegnir í stuðningi við nýsköpunarumhverfið. Með sjóðnum er
Nýsköpunarstefnu stjórnvalda fylgt eftir í verki með öflugri aðgerð sem mun hafa mikil jákvæð áhrif.“

Sæmundur K. Finnbogason, sjóðstjóri Kríu:
„Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta nýja og krefjandi starf og hlakka til að vinna með stjórn
Kríu að uppbyggingu og markmiðum sjóðsins. Við höfum tækifæri til að efla nýsköpunarumhverfið á
Íslandi til muna og fyrir okkur liggja mörg tækifæri til að koma íslenskri þekkingu og hugviti á
framfæri, bæði hér á landi og erlendis.“

Heimasíða Kríu: – Kría (kriaventures.is)

Framtakssjóður á vegum VEX kaup­ir um 40 prós­ent hlut í AGR Dyn­a­mics

,,Framtakssjóður á vegum VEX hefur eignast um 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics sem velti um milljarði króna í fyrra. Sjóðurinn tók þátt í 650 milljóna króna hlutafjáraukningu eins og aðrir stórir hluthafar og aðilar þeim tengdum og keypti hluti Frumtaks og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins en það gerðu aðrir hluthafar AGR Dynamics einnig. Þetta segir Haukur Þór Hannesson, framkvæmdastjóri AGR Dynamics, í samtali við Markaðinn. „

Frábærar fréttir fyrir AGR og er mikil viðurkenning fyrir félagið. Nýsköpunarsjóður kom fyrst að fjármögnun AGR árið 2000. Þetta hefur verið frábær vegferð og við óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.

Sjóð­ur VEX kaup­ir um 40 prós­ent í AGR Dyn­a­mics (frettabladid.is)

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands

Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs.

Þetta var í 23. sinn sem Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt. Metfjöldi tillagna barst í samkeppnina að þessu sinni eða 50 tillögur. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. Auk þess var sigurvegari keppninnar valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum.

Við mat á umsóknum skoðaði dómnefndin einkum nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagsleg áhrif, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið styddi stefnu og starf Háskólans.

Nýtt lyfjaform gegn malaríu sigraði í samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ | Háskóli Íslands (hi.is)

Nordic Scalers 2.0

Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið lögð á hvernig hægt er að styðja við og hlúa að sprotafyrirtækjum á Norðurlöndunum. Þetta hefur gert Norðurlöndin meðal þeirra bestu í heiminum þegar kemur að því að stofna og þróa ný fyrirtæki. En þó að Norðurlöndin séu yfir meðaltali meðal OECD ríkja í stofnun nýrra fyrirtækja er áskorunin sú að mörg fyrirtækin ná ekki flugi.

Nordic Scalers vilja breyta þessu!

Nordic Scalers 2.0 (2021-2023) er samvinnuverkefni Nordic Innovation og stofnana á Norðurlöndunum sem eru Business Finland, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Innovation Norway, Danish Business Authority og Vinnova í Svíþjóð. Nýja verkefnið Nordic Scalers 2.0 byggir á grunni frá Nordic Scalers pilot (2017-2019).

Verkefnin eru 3 með mismunandi áherslur.

Upplýsingar er að finna í meðfylgjandi gögnum:

Viðburðarríkt ár að baki

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram 6. maí 2021

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram í fimmtudaginn 6. maí. Líkt og á síðasta ári var fundinum streymt í gegnum vefstreymi.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, rakti starfsemi sjóðsins á árinu 2020. Sjóðurinn fjárfesti á árinu í tveimur nýjum félögum, Pay Analytics og Tyme Wear og seldi að fullu hluti sína í fyrirtækjunum Sólfar (Mainframe) og Atmo Select. Í lok árs 2020 voru hlutir í 22 fyrirtækjum í eignasafni sjóðsins auk þess sem sjóðurinn á eignahluti í þremur öðrum sjóðum. Þá hélt Nýsköpunarsjóður áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í fjármögnun, meðal annars hlutafjáraukningu og lánveitingum, til fyrirtækjanna Lauf Forks, Kaptio, Florealis, Dohop, Ankeri og Cooori.

Hagnaður ársins 2020 nam 30 m.kr. samanborið við 41 m.kr. á árinu 2019. Á árinu var tekjufærð áður færð varúðarniðurfærsla að fjárhæð 300 m.kr. Rekstrargjöld sjóðsins breytast lítið á milli ára og námu 132 m.kr. árið 2020 samanborið við 129 m.kr. árið 2019.

Umsjón með Stuðnings-Kríu var umsvifamikið verkefni hjá Nýsköpunarsjóði á árinu, en í kjölfar Covid-19 faraldursins var gerður samningur á milli sjóðsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um mótframlagslán. Tilgangur mótframlagslána var að styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem Covid-19 faraldurinn hefur ollið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti opnunarávarp og  þakkaði starfsmönnum og stjórn Nýsköpunarsjóðs  fyrir farsælt samstarf á árinu.

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún sjóðurinn geti gegnt stærra hlutverki í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi en hann hefur gert til þessa. Hún sagði að stuðningsumhverfi nýsköpunar þyrfti að breytast í samræmi við fjölbreytt atvinnulíf og að fjármögnun fyrirtækja geti farið fram með mismunandi hætti. Þá sagði hún að einkafjárfestar væru tilbúnari nú en áður til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og að stjórnvöld þyrftu að huga að því hvernig best væri að styðja við að umhverfi.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sagði í ávarpi sínu að minnast megi ársins 2020 sem árs nýsköpunar – árs hugverkaiðnaðar á Íslandi. Hann sagði að umbætur stjórnvalda undanfarinn áratug í þágu nýsköpunar, þar sem stærstu skrefin voru stigin árið 2020, sem og hugmyndaauðgi og drifkraftur frumkvöðla, hafi gert það að verkum að hugverkaiðnaður er nú ein af útflutningsstoðum íslensks hagkerfis. Hann sagði jafnframt að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn væri sá eini sem er sígrænn og leitar því alltaf fjárfestingarkosta. Hann hafi þannig stutt við nýsköpunarsprota sem margir hafa orðið að myndarlegum fyrirtækjum, með fjölda starfsmanna og útflutningstekjur.

Á fundinum vék Kristján Þórður Snæbjarnarson úr stjórn sjóðsins en í hans stað kemur Róbert Eric Farestveit. Aðrir í stjórn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Sigurður Hannesson.

Controlant hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2020

Á myndinni eru Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Controlant, Erlingur Brynjúlfsson, stofnandi og tæknistjóri Controlant, Guðmundur Arnarson, fjármálastjóri Controlant og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Íslenska fyrirtækið Controlant hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2020 sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti verðlaunin sem veitt hafa verið framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum frá 1994.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Hug- og vélbúnaður Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi og dregur úr sóun á lyfjum og matvælum. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla mikilvægar rauntímaupplýsingar um hitastig og raka sem fást með nettengdum gagnaritum. Áralöng fjárfesting í tækniþróunarstarfi er að skila sér um þessar mundir í hröðum vexti tekna og er starfsemin komin til rúmlega 100 landa. 

Á meðal viðskiptavina félagsins eru mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Lausnir félagsins verða mikilvægur hlekkur í dreifingu bóluefna við COVID-19 sem er eitt erfiðasta heilbrigðisvandamál sem heimsbyggðin er að fást við.

Það er mat dómnefndar að Controlant  sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2020 og framundan séu spennandi tímar vaxtar og sóknar á mörkuðum.”

„Það er okkur mikill heiður að fá þessi nýsköpunarverðlaun og við erum þakklát nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi fyrir þessa viðurkenningu. Við erum afskaplega stolt af þeirri frábæru vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið til að gera Controlant lausnina mikilvæga fyrir viðskiptavini okkar,” segir Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Controlant.

„Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum.”

Controlant hefur vaxið hratt undanfarið en félagið hefur nýlega lokið við hlutafjárútboð þar sem söfnuðust tveir milljarðar króna. Alls hefur félagið því safnað sam­tals 3,5 millj­örðum í gegn­um hluta­fjárút­boð og breyti­leg skulda­bréf á ár­inu. Nýlegir samningar sem Controlant hefur gert munu tífalda veltu fyrirtækisins í um 4-5 milljarða á næstu tveimur árum.

Controlant leggur áherslu á áframhaldandi þróunarstarf og hefur starfsmönnum félagsins fjölgað mjög og er fyrirséð að félagið mun stækka áfram til að mæta aukinni eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins en starfsmenn eru um 100 um þessar mundir.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um er að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.