Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Sæmundur ráðinn sjóðstjóri Kríu

Sæmundur K. Finnbogason hefur verið ráðinn til Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Hann mun starfa sem
sjóðstjóri Kríu, sem er nýr sprota- og nýsköpunarsjóður sem hefur það að markmiði að stuðla að
uppbyggingu fjármögnunarumhverfis sprota-, tækni-, og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi.

Sæmundur hefur undanfarin sjö ár starfað sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og almannatengsla hjá
Sendiráði Kanada á Íslandi. Áður starfaði hann við verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf hjá Virðingu
Verðbréfum hf. og sem sérfræðingur hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann hefur lokið B.Sc. gráðu í
viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti og fjármál frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í
auðlindastjórnun og stefnumótun fyrirtækja frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Hlutverk sjóðsins er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture
capital funds), sem síðan fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Sjóðnum er ætlað að efla fjárfestingarumhverfi
sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og er liður í stefnumótun stjórnvalda í málefnum nýsköpunar
og í samræmi við Nýsköpunarstefnu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með rekstri og
umsýslu Kríu samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, formaður stjórnar Kríu:
„Það er ánægjulegt að fá Sæmund til starfa hjá Kríu. Reynsla hans og þekking mun nýtast í því
mikilvæga hlutverki sem Kría gegnir í stuðningi við nýsköpunarumhverfið. Með sjóðnum er
Nýsköpunarstefnu stjórnvalda fylgt eftir í verki með öflugri aðgerð sem mun hafa mikil jákvæð áhrif.“

Sæmundur K. Finnbogason, sjóðstjóri Kríu:
„Ég er spenntur fyrir því að takast á við þetta nýja og krefjandi starf og hlakka til að vinna með stjórn
Kríu að uppbyggingu og markmiðum sjóðsins. Við höfum tækifæri til að efla nýsköpunarumhverfið á
Íslandi til muna og fyrir okkur liggja mörg tækifæri til að koma íslenskri þekkingu og hugviti á
framfæri, bæði hér á landi og erlendis.“

Heimasíða Kríu: – Kría (kriaventures.is)

Framtakssjóður á vegum VEX kaup­ir um 40 prós­ent hlut í AGR Dyn­a­mics

,,Framtakssjóður á vegum VEX hefur eignast um 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics sem velti um milljarði króna í fyrra. Sjóðurinn tók þátt í 650 milljóna króna hlutafjáraukningu eins og aðrir stórir hluthafar og aðilar þeim tengdum og keypti hluti Frumtaks og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins en það gerðu aðrir hluthafar AGR Dynamics einnig. Þetta segir Haukur Þór Hannesson, framkvæmdastjóri AGR Dynamics, í samtali við Markaðinn. „

Frábærar fréttir fyrir AGR og er mikil viðurkenning fyrir félagið. Nýsköpunarsjóður kom fyrst að fjármögnun AGR árið 2000. Þetta hefur verið frábær vegferð og við óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.

Sjóð­ur VEX kaup­ir um 40 prós­ent í AGR Dyn­a­mics (frettabladid.is)

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands

Samkeppnin um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs.

Þetta var í 23. sinn sem Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt. Metfjöldi tillagna barst í samkeppnina að þessu sinni eða 50 tillögur. Veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. Auk þess var sigurvegari keppninnar valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum.

Við mat á umsóknum skoðaði dómnefndin einkum nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagsleg áhrif, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið styddi stefnu og starf Háskólans.

Nýtt lyfjaform gegn malaríu sigraði í samkeppni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ | Háskóli Íslands (hi.is)

Nordic Scalers 2.0

Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið lögð á hvernig hægt er að styðja við og hlúa að sprotafyrirtækjum á Norðurlöndunum. Þetta hefur gert Norðurlöndin meðal þeirra bestu í heiminum þegar kemur að því að stofna og þróa ný fyrirtæki. En þó að Norðurlöndin séu yfir meðaltali meðal OECD ríkja í stofnun nýrra fyrirtækja er áskorunin sú að mörg fyrirtækin ná ekki flugi.

Nordic Scalers vilja breyta þessu!

Nordic Scalers 2.0 (2021-2023) er samvinnuverkefni Nordic Innovation og stofnana á Norðurlöndunum sem eru Business Finland, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Innovation Norway, Danish Business Authority og Vinnova í Svíþjóð. Nýja verkefnið Nordic Scalers 2.0 byggir á grunni frá Nordic Scalers pilot (2017-2019).

Verkefnin eru 3 með mismunandi áherslur.

Upplýsingar er að finna í meðfylgjandi gögnum:

Viðburðarríkt ár að baki

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram 6. maí 2021

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fór fram í fimmtudaginn 6. maí. Líkt og á síðasta ári var fundinum streymt í gegnum vefstreymi.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, rakti starfsemi sjóðsins á árinu 2020. Sjóðurinn fjárfesti á árinu í tveimur nýjum félögum, Pay Analytics og Tyme Wear og seldi að fullu hluti sína í fyrirtækjunum Sólfar (Mainframe) og Atmo Select. Í lok árs 2020 voru hlutir í 22 fyrirtækjum í eignasafni sjóðsins auk þess sem sjóðurinn á eignahluti í þremur öðrum sjóðum. Þá hélt Nýsköpunarsjóður áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í fjármögnun, meðal annars hlutafjáraukningu og lánveitingum, til fyrirtækjanna Lauf Forks, Kaptio, Florealis, Dohop, Ankeri og Cooori.

Hagnaður ársins 2020 nam 30 m.kr. samanborið við 41 m.kr. á árinu 2019. Á árinu var tekjufærð áður færð varúðarniðurfærsla að fjárhæð 300 m.kr. Rekstrargjöld sjóðsins breytast lítið á milli ára og námu 132 m.kr. árið 2020 samanborið við 129 m.kr. árið 2019.

Umsjón með Stuðnings-Kríu var umsvifamikið verkefni hjá Nýsköpunarsjóði á árinu, en í kjölfar Covid-19 faraldursins var gerður samningur á milli sjóðsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um mótframlagslán. Tilgangur mótframlagslána var að styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem Covid-19 faraldurinn hefur ollið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti opnunarávarp og  þakkaði starfsmönnum og stjórn Nýsköpunarsjóðs  fyrir farsælt samstarf á árinu.

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún sjóðurinn geti gegnt stærra hlutverki í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi en hann hefur gert til þessa. Hún sagði að stuðningsumhverfi nýsköpunar þyrfti að breytast í samræmi við fjölbreytt atvinnulíf og að fjármögnun fyrirtækja geti farið fram með mismunandi hætti. Þá sagði hún að einkafjárfestar væru tilbúnari nú en áður til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og að stjórnvöld þyrftu að huga að því hvernig best væri að styðja við að umhverfi.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sagði í ávarpi sínu að minnast megi ársins 2020 sem árs nýsköpunar – árs hugverkaiðnaðar á Íslandi. Hann sagði að umbætur stjórnvalda undanfarinn áratug í þágu nýsköpunar, þar sem stærstu skrefin voru stigin árið 2020, sem og hugmyndaauðgi og drifkraftur frumkvöðla, hafi gert það að verkum að hugverkaiðnaður er nú ein af útflutningsstoðum íslensks hagkerfis. Hann sagði jafnframt að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn væri sá eini sem er sígrænn og leitar því alltaf fjárfestingarkosta. Hann hafi þannig stutt við nýsköpunarsprota sem margir hafa orðið að myndarlegum fyrirtækjum, með fjölda starfsmanna og útflutningstekjur.

Á fundinum vék Kristján Þórður Snæbjarnarson úr stjórn sjóðsins en í hans stað kemur Róbert Eric Farestveit. Aðrir í stjórn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Sigurður Hannesson.

Controlant hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2020

Á myndinni eru Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Controlant, Erlingur Brynjúlfsson, stofnandi og tæknistjóri Controlant, Guðmundur Arnarson, fjármálastjóri Controlant og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Íslenska fyrirtækið Controlant hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2020 sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti verðlaunin sem veitt hafa verið framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum frá 1994.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Hug- og vélbúnaður Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi og dregur úr sóun á lyfjum og matvælum. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla mikilvægar rauntímaupplýsingar um hitastig og raka sem fást með nettengdum gagnaritum. Áralöng fjárfesting í tækniþróunarstarfi er að skila sér um þessar mundir í hröðum vexti tekna og er starfsemin komin til rúmlega 100 landa. 

Á meðal viðskiptavina félagsins eru mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Lausnir félagsins verða mikilvægur hlekkur í dreifingu bóluefna við COVID-19 sem er eitt erfiðasta heilbrigðisvandamál sem heimsbyggðin er að fást við.

Það er mat dómnefndar að Controlant  sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2020 og framundan séu spennandi tímar vaxtar og sóknar á mörkuðum.”

„Það er okkur mikill heiður að fá þessi nýsköpunarverðlaun og við erum þakklát nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi fyrir þessa viðurkenningu. Við erum afskaplega stolt af þeirri frábæru vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið til að gera Controlant lausnina mikilvæga fyrir viðskiptavini okkar,” segir Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Controlant.

„Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum.”

Controlant hefur vaxið hratt undanfarið en félagið hefur nýlega lokið við hlutafjárútboð þar sem söfnuðust tveir milljarðar króna. Alls hefur félagið því safnað sam­tals 3,5 millj­örðum í gegn­um hluta­fjárút­boð og breyti­leg skulda­bréf á ár­inu. Nýlegir samningar sem Controlant hefur gert munu tífalda veltu fyrirtækisins í um 4-5 milljarða á næstu tveimur árum.

Controlant leggur áherslu á áframhaldandi þróunarstarf og hefur starfsmönnum félagsins fjölgað mjög og er fyrirséð að félagið mun stækka áfram til að mæta aukinni eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins en starfsmenn eru um 100 um þessar mundir.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um er að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

Stuðnings-Kría: Umsóknarfrestur lengdur til 10. september.

Opnað var fimmtudaginn 16. júlí 2020 fyrir umsóknir um mótframlagslán Stuðnings-Kríu og hefur lánanefnd ákveðið að framlengja umsóknarfrest til 10. september 2020.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til efnilegra sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa að sækja sér aukna fjármögnun. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að lánin verði greidd út í haust.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með umsýslu og framkvæmd verkefnisins samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra. Stuðnings-Kría mun úthluta allt að 755 milljónum króna í formi lána til fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa til allt að þriggja ára og innifela breytirétt í hlutafé. Ákvarðanir um veitingu lána mótframlagslána eru teknar af sjálfstæðri lánanefnd sem skipuð er af ráðherra. Meginforsenda mótframlagslána er að umsækjandi hafi tryggt sér fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Stuðnings-Kría mun þá veita sambærilegt lán á sömu kjörum og á sama lánstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Á vef Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins www.nyskopun.is má finna frekari upplýsingar um mótframlagslánin, skilyrðin sem fyrirtæki þurfa að uppfylla svo og umsóknarferlið.

Opnað fyrir umsóknir í Stuðnings-Kríu fimmtudaginn 16. júlí 2020

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur umsjón með mótframlagslánum til nýsköpunarfyrirtækja.

Opnað verður fimmtudaginn 16. júlí 2020 fyrir umsóknir um mótframlagslán Stuðnings-Kríu og er umsóknafresturinn til 13. ágúst 2020.

Stuðnings-Kría er tímabundið stuðningsúrræði stjórnvalda til efnilegra sprotafyrirtækja sem vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 faraldursins þurfa að sækja sér aukna fjármögnun. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að lánin verði greidd út í haust.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með umsýslu og framkvæmd verkefnisins samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra. Stuðnings-Kría mun úthluta allt að 755 milljónum króna í formi lána til fyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa með breytirétti í hlutafé. Ákvarðanir um veitingu lána mótframlagslána eru teknar af nefnd sem skipuð er af ráðherra. Meginforsenda mótframlagslána er að umsækjandi hafi tryggt sér fjármögnun einkafjárfesta í formi hlutafjár eða lánveitingar. Stuðnings-Kría mun þá veita sambærilegt lán á sömu kjörum og á sama lánstíma að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Á vef Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins www.nyskopun.is má finna frekari upplýsingar um mótframlagslánin, skilyrðin sem fyrirtæki þurfa að uppfylla og umsóknarferlið.

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Tyme Wear

Tyme Wear þróar mælibúnað sem mælir þrekþröskulda íþróttafólks og bætir þjálfun þeirra.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir rúmlega 200 milljóna króna hlutafjáraukningu íslenskra og bandarískra aðila í sprotafyrirtækinu Tyme Wear. Hlutafjáraukningin mun nýtast Tyme Wear við framþróun og markaðssetningu á vöru sinni á árinu.

Tyme Wear þróar búnað fyrir íþróttafólk sem mælir árangur af æfingum. Lausnin byggir á snjallfatnaði sem íþróttafólk klæðist og mælir þrekþröskulda líkamans út frá öndun viðkomandi. Mjúkir nemar eru felldir inn í snjallfatnað, algrím greina gögnin sem í framhaldinu eru gerð aðgengileg í gegnum notendaviðmót í síma eða tölvu. 

Tyme Wear hefur sannreynt nákvæmni tækninnar á afreksrannsóknarstofu Harvard háskóla í Bandaríkjunum og með aðstoð frá alþjóðlegu afreksíþróttafólki á heimsmælikvarða. Meðal þeirra eru liðsmenn Team USA í þríþraut, landslið Kanada í frjálsum íþróttum og íslenskt afreksíþróttafólk, svo sem hlaupararnir Aníta Hinriksdóttir og Arnar Pétursson, þríþrautarmaðurinn Sigurður Ragnarsson, meistaraflokkur KR í fótbolta og frjálsíþróttalið ÍR. 

Aukinn fjöldi íþróttamanna miðar þjálfun sína að því að finna leiðir til að stýra álaginu á æfingum til að ná auknum framförum og forðast á sama tíma meiðsli eða ofþjálfun. Um 60% þeirra sem styðjast við lausnir sem byggja á hjartsláttarmælingum ná litlum sem engum framförum. Ástæðan er að viðmiðin eru of almenn þannig að ekki næst að stilla æfingaálagið rétt miðað við raunverulega líkamlega getu. Lausn Tyme Wear snýst um að mæla líkamlegt atgervi til að auðvelda einstaklingsmiðaðar ráðleggingar um æfingar og æfingaálag. Þá veitir kerfið sjálfvirka endurgjöf sem auðveldar notandanum að greina æfingarnar sínar og bera framfarir saman við sett markmið. 

Framundan er að ljúka við þróun vörunnar. Prófanir halda áfram í sumar og hún kynnt nánar í haust. Markaðssetning og sala á áskriftarmarkað í Evrópu hefst á næsta ári og verður stýrt frá Íslandi. 

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs: 

„Tyme Wear er spennandi fyrirtæki sem við höfum trú á. Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit nýtt til að bæta þjálfun og frammistöðu íþróttamanna í heimi þar sem framfarir og tækninýjungar skipta æ meira máli í þeirri þróun. Það er gaman að sjá nýja tækniþekkingu þróast með þessum hætti og ljóst að tæknin býður upp á mörg tækifæri tengd fjarþjálfun sem á klárlega eftir að vaxa mikið.“ 

Arnar Lárusson, stofnandi og framkvæmdastjóri Tyme Wear: 

„Þessi fjárfesting gefur okkur færi á að klára að þróa lausnina, koma henni á markað og hjálpa íþróttafólki við rétta nálgun á æfingar. Helstu hættur við ranga æfingaáætlun eru annað hvort meiðsli vegna of mikils álags eða litlar raunverulegar framfarir vegna of lítils álags og lítils hvata. Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að fá Nýsköpunarsjóð að fjármögnun félagins og aðkoma sjóðsins hefur stuðlað að því að því að við gátum dregið fleiri sterka aðila að félaginu.“ 

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfestir í PayAnalytics

Frá undirritun samninga milli Nýsköpunarsjóðs og PayAnalytics.  Frá vinstri Guðrún Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar PayAnalytics, Sigurjón Pálsson framkvæmdastjóri PayAnalytics, Örn Viðar Skúlason fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs og Margrét Vilborg Bjarnadóttir stjórnarformaður PayAnalytics

Hugbúnaðarlausn PayAnalytics, sem keyrð er í skýi og mælir launamun, hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Lausnin er nú þegar notuð af rúmlega 50 fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem samanlagt eru með yfir 30.000 starfsmenn, eða um 14% af íslenskum vinnumarkaði.

Það sem gerir lausn PayAnalytics frábrugðna öðrum lausnum er að eftir að búið er að mæla launabilið gerir hugbúnaðurinn tillögu að launabreytingum niður á einstaka starfsmenn til þess að loka launabilinu. Sömuleiðis sýnir hugbúnaðurinn áhrif launaákvarðana á launabilið áður en þær eru teknar. Markmið PayAnalytics er að koma öflugu launagreiningartóli í hendurnar á stjórnendum, mannauðsstjórum og ráðgjöfum svo taka megi upplýstar og gagnadrifnar ákvarðanir um laun. Þannig er ekki bara hægt að loka launabilum hvar sem þau finnast heldur einnig halda þeim lokuðum. Hugbúnaðurinn vinnur vel með hvaða launa- og mannauðskerfi sem er.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs:

„Ísland hefur tekið forystu í jafnréttismálum. PayAnalytics sprettur upp úr sterku jafnréttisumhverfi og hefur þróað lausn sem skarar fram úr á heimsvísu. Fyrir utan að vera góð fjárfesting styður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með fjárfestingu sinni við útflutning á íslenskri þekkingu og þau jafnréttisgildi sem hér hafa verið byggð upp og hlotið hafa alþjóðlegar viðurkenningar. Við erum því mjög spennt fyrir samstarfinu við PayAnalytics teymið og teljum að öflugt tengslanet okkar og þekking muni gagnast við áframhaldandi uppbyggingu og vöxt félagsins.“

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics:

„Jafnlaunalausn okkar er notuð af flestum öflugustu fyrirtækjum landsins. Á sama tíma er lagaumhverfið að breytast hratt út um allan heim. Í Bretlandi þurfa fyrirtæki nú að mæla og birta launamun kynjanna á hverju ári, í Frakklandi verður bráðum farið að sekta fyrirtæki sem ekki vinna í að minnka launamuninn, og dæmin eru fleiri. Á sama tíma hefur orðið hröð viðmótsbreyting sem enn hefur ýtt undir þörfina fyrir lausnina okkar. Við höfum notið öflugs stuðnings Tækniþróunarsjóðs sem hefur komið okkur þangað sem við erum í dag og með fjárfestingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins getum við haldið tæknilegu forskoti okkar og hraðað uppbyggingu okkar á markaðssvæðum erlendis.“

PayAnalytics vann árið 2016 Gulleggið, sem er frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups. PayAnalytics var árið 2018 valið Best Social Impact Startup og Best Newcomer á Íslandi í Nordic Startup Awards. Félagið var árið 2019 valið besta sprotafyrirtækið á Wharton People Analytics Conference, sem er ein virtasta ráðstefna sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Margrét V. Bjarnadóttir var valin háskólakona ársins á Íslandi árið 2019, m.a. vegna samfélagslegra áhrifa rannsókna hennar á jafnlaunamálum. Margrét vann sömuleiðis Global Women Inventor and Innovator Network Award fyrir PayAnalytics árið 2019. Ítarlegri upplýsingar má finna á www.payanalytics.is.