20
.
September
2024

Opið fyrir umsóknir í viðskiptahraðal fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu

Eftir fimm ára hlé hafa KLAK – Icelandic Startups og Ferðaklasinn ákveðið að endurvekja Startup Tourism, viðskiptahraðal fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. Með því að endurvekja hraðalinn vonast samstarfsaðilar til að skapa ný tækifæri innan íslenskrar ferðaþjónustu. Opnað var fyrir umsóknir þann 19. september.

KLAK er óhagnaðardrifið félag í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Origo, og Samtaka iðnaðarins. Bakhjarlar hraðalsins komu saman í Grósku til að undirrita samstarfssamning um hraðalinn en styrktaraðilar hraðalsins eru menningar- og viðskiptaráðuneytið, Berjaya Iceland Hotels, Icelandair, N1 og Icelandia, auk þess sem Íslandsstofa kemur að verkefninu sem samstarfsaðili.

„Í nýrri ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er lögð áhersla á öfluga nýsköpun og vöruþróun. Það er mikil gróska og hugmyndaauðgi í íslenskri ferðaþjónustu, allt frá snjöllum tæknilausnum til fjölbreyttrar afþreyingar og nýrrar upplifunar. Með þátttöku í Startup Tourism fá aðilar stuðning og hvatningu til að koma slíkum verkefnum af stað hratt og örugglega,“segir Lilja Alfreðsdóttir menningar-, viðskipta og ferðamálaráðherra.

Hraðallinn, sem var keyrður fjórum sinnum á árunum 2016-2019, skilaði frábærum árangri fyrir íslenska ferðaþjónustu en 15 af þeim 39 sprotafyrirtækjum sem tóku þátt eru enn starfandi í dag.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK, lýsir yfir ánægju með endurkomu hraðalsins:

„Við erum afar stolt af því að sjá Startup Tourism vakna af dvala og árangurinn talar sínu máli. Við erum viss um að með nýsköpun sé hægt að auka samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar enn frekar“.

Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar og tæknivæðingar í greininni, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring, og áhersla er lögð á að auðvelda fyrirtækjum af landsbyggðinni að taka þátt. Verkefnið markar tímamót í nýsköpun innan ferðaþjónustunnar.

Allt að tíu teymum mun bjóðast sæti í fimm vikna hraðli sem hefst þann 28.október og lýkur með fjárfestadegi þann 27. nóvember.  

Við hjá Nýsköpunarsjóði hvetjum fólk til að kynna sér hraðalinn nánar og sækja um.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.