Frumkvöðlar frá félögum úr eignasafni Nýsköpunarsjóðs komu saman á morgunfundi þann 19. mars á Hótel Hilton.
Nýsköpunarsjóður heldur reglulega viðburði fyrir félög í eignasafninu þar sem markmiðið er að tengja saman stjórnendur félaganna, læra af hvort öðru og fræðast. Á fundinum fór Dr. Eyþór Ívar Jónsson frá Akademias yfir mikilvægi sögutækni eða Storytelling í markaðssetningu fyrirtækja og gildi þess að segja góða sögu. Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Hefring fór yfir mikilvægi þess að byggja upp góð tengsl og hvað þau skipta miklu máli í fjármögnun og markaðssetningu. Að lokum fór Sigurjón Pálsson, framkvæmdastjóri Pay Analytics, yfir sölu- og markaðsmál hjá þeim og hvernig þau notuðu sögutækni í markaðssetningu sinni og við sölu á fyrirtækinu.
Áhugaverðar umræður spruttu upp á fundinum sem Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, hélt utan um. „Það skiptir sköpum að stjórnendur læri af hvor öðrum. Við höfum öll gott af því að deila reynslu og hvað þá nýsköpunarfyrirtæki. Því höfum við hjá Nýsköpunarsjóði lagt áherslu á að vera með viðburði þar sem félög úr eignasafni okkar koma saman og mynda sterk bönd sín á milli og geti jafnvel aðstoðað hvert annað í sinni vegferð,“ sagði Hrönn að loknum fundi.