25
.
February
2025

Carbfix tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna Norðurlandanna

Handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands, Carbfix, er tilnefnt fyrir Íslands hönd til Nýsköpunarverðlauna Norðurlandanna 2025 (Nordic Innovation Award). Um er að ræða ný verðlaun sem hugverkastofur Norðurlandanna standa að í sameiningu til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar og hugverkaverndar. Verðlaunin verða afhent í fyrsta skipti við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn 10. apríl næstkomandi.

Hvert Norðurlandanna tilnefnir eitt nýsköpunarfyrirtæki til verðlaunanna. Dómnefnd sem skipuð er forstjórum hugverkastofa Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, auk fulltrúa nýsköpunarsamfélagsins í hverju landi, mun velja eitt fyrirtæki sem hlýtur verðlaunin. Við mat á tilnefndum fyrirtækjum verður horft til fimm þátta:

  • Nýsköpun - Nýsköpunin verður að fela í sér nýja og frumlega nálgun, vísindi eða tækni, einstakar aðferðir eða skapandi lausnir við úrlausn vandamála.
  • Sjálfbærni - Nýsköpunin þarf að stuðla að aukinni sjálfbærni og framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SDG).
  • Viðskiptalegur lífvænleiki og  vaxtarmöguleikar - Nýsköpunin þarf að skapa grundvöll fyrir raunhæfa og skalanlega viðskiptahugmynd sem líklegt er að skili arði til framtíðar.
  • Mælanlegur árangur – Sýna þarf fram á að nýsköpunin hafi skilað mælanlegum árangri, hvort sem það er í formi sölutekna, markaðssóknar, viðskiptaáætlana eða nýrrar og viðurkenndrar aðferðafræði.
  • Skráð hugverk – Nýsköpunin þarf að vera vernduð með skráðum hugverkaréttindum (einkaleyfi, vörumerki eða hönnun) á viðeigandi mörkuðum.

Markmið verðlaunanna er að hvetja og verðlauna norræn fyrirtæki sem þróað hafa framúrskarandi nýsköpunarhugmyndir og tryggt hugverkarétt sinn. Þeim er ætlað að stuðla að auknum skilningi á mikilvægi hugverkaréttar í nýsköpun og framlagi nýsköpunar til sjálfbærrar þróunar atvinnulífs og samfélags.

Carbfix er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur þróað örugga og þrautreynda tækni til að binda koldíoxíð og brennisteinsvetni varanlega í bergi, hér á landi og erlendis og vinna þannig gegn loftslagsbreytingum. Í yfir áratug hefur verið dælt niður næstum 100.000 tonnum af koldíoxíði með tækninni. Í dag starfa ríflega 60 manns af þrettán þjóðernum hjá fyrirtækinu og það vinnur að samstarfsverkefnum í yfir 20 löndum. Carbfix með skráð hugverkaréttindi í yfir 20 löndum í sex heimsálfum fyrir tækni sinni og þar á meðal Bandaríkjunum, Kanada, Kína og í Evrópu.

Hugverkastofan hefur ákveðið, í samráði við samstarfsaðila um Nýsköpunarverðlaun Íslands: Rannís, Íslandsstofu og NýsköpunarsjóðINN að það fyrirtæki sem hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands hverju sinni verði tilnefnt fyrir Íslands hönd til Nýsköpunarverðlauna Norðurlandanna.

Carbfix varð til innan Orkuveitu Reykjavíkur og er afrakstur samstarfs við vísindamenn við Háskóla Íslands, CNRS Toulouse í Frakklandi og Columbia háskólann í New York í Bandaríkjunum. Niðurstöður sem sýndu að hægt væri að hraða náttúrulegu ferli með steinrenningu koldíoxíðs í hentugu bergi voru birtar í Science, einu virtasta vísindatímariti heims, árið 2016. Síðan hafa fjölmargir háskólar og rannsóknastofnanir tekið þátt í rannsóknum fyrirtækisins og um það hafa verið birtar yfir hundrað ritrýndar vísindagreinar. Carbfix hefur verið rekið sem sjálfstætt fyrirtæki frá árinu 2020. Árið 2022 hlaut það stærsta Evrópustyrk sem íslenskt fyrirtæki hefur hlotið úr Nýsköpunarsjóði ESB sem fellur undir Loftslags- og umhverfisstofnun ESB. Tæknin og árangur hennar til kolefnisbindingar hefur verið tekin út og vottuð af óháðum vottunaraðilum. Þá hefur Carbfix prýtt forsíðu National Geographic og fjallað hefur verið um fyrirtækið í 60 Minutes, Netflix og fleiri áhrifamiklum fjölmiðlum.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.