Nýverið innleiddi hollenska sjúkrahúsið Zuyderland lausn íslenska nýsköpunarfyrirtækisins MedEye hjá sér. MedEye hannar lausnir til lyfjaeftirlits á sjúkrastofnunum. Mistök við lyfjagjöf eru alvarlegt vandamál sem allar sjúkrastofnanir glíma við og getur MedEye hjálpað við að koma í veg fyrir það.
MedEye skannar töflur myndrænt og greinir lyfjategundir til að koma í veg fyrir mistök, þannig eykst öryggi við lyfjagjöf verulega og er MedEye einstakt í sinni röð.
„Þetta er stærsta innleiðing á MedEye hingað til, ekki bara í fjölda notenda heldur líka með tilliti til notkunar á öllum möguleikum MedEye. Svona innleiðing er gríðarlega stórt verkefni og tekur marga mánuði en þegar allt verður komið í gang þá mun MedEye sjá um að hjálpa hjúkrunarfræðingum við að sannreyna allar tegundir lyfja eins og t.d. töflur, hylki og sprautulyfja. Ekki nóg með það heldur mun MedEye líka sjá um að stilla lyfjadælur sjálfvirkt sem mun spara hjúkrunarfræðingum tíma og koma í veg fyrir innsláttarvillur,” segir Gauti Reynisson, forstjóri og einn stofnanda MedEye.
Zuyderland er heilbrigðisstofnun og sjúkrahús í Hollandi með starfstöðvar í Limburg héraðinu. Það er stærsti vinnuveitandinn á svæðinu og er heildarfjöldi starfsmanna um 4500 talsins. Fjöldi innlagna á árinu er um 42.000, 86.000 göngudeildarkomur, 170.000 hjúkrunardagar og 845.000 sérfræðitíma. Því er af nóg af taka og MedEye getur svo sannarlega hjálpað við að sannreyna lyf, spara tíma og koma í veg fyrir mistök þessarar stóru sjúkrastofnunar.
MedEye var stofnað árið 2010 og kom Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fyrst að fjármögnun þess árið 2011. Nýverið bættist hollenski fjárfestingasjóðurinn ECFG við sem fjárfestir í MedEye. ECFG býður upp á ráðgjöf, þekkingu og fjármagn sem á að gera félögum klefit að einbeita sér að frekari vexti og verðmætasköpun.
„Við viljum fjárfesta í fyrirtækjum sem bjóða upp á vélbúnaðarlausn til viðbótar við hugbúnað. Þannig höfum við þróað sérfræðiþekkingu okkar og er MedEye því áhugaverð viðbót við eignasafn okkar, þar sem það býður upp á einstaka lausn á mjög brýnu og alþjóðlegu vandamáli," segir Leo van Schijndel, fjárfestingarstjóri hjá ECFG og bætir við „Í Hollandi getur MedEye hallað sér að traustum grunni og vörur þess hafa sannað sig. Þetta skapar traustan grunn fyrir frekari útrás í öðrum löndum Vestur-Evrópu.“