Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag í starfi skólans nýverið ásamt þremur öðrum.
Eins og fram kemur á vef Háskóla Íslands þá tóku Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Elsa Eiríksdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu, Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, og Kristbjörg Olsen, verkefnisstjóri á Kennslusviði, við viðurkenningum fyrir lofsvert framlag í starfi við skólann. Viðurkenningarnar, sem eru á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa, voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk.
Ásta Dís hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Ásta Dís lauk doktorsprófi í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2010. Hún starfaði hjá Háskóla Íslands á árunum 1999-2005 og frá 2016.
„Ásta Dís hefur vakið athygli á mikilvægi jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa hér á landi, með rannsóknum, kynningum og þátttöku í fjölda viðburða innan Háskóla Íslands og utan. Ásta Dís tók við formennsku í Jafnvægisvogarráði árið 2022. Auk formennskunnar hefur framlag hennar til Jafnvægisvogarinnar verið fólgið í því að styrkja umræðuna með niðurstöðum rannsókna á íslensku atvinnulífi frá sjónarhóli kynjajafnréttis. Hefur Ásta m.a. fjallað um „Arftakastjórnun” innan fyrirtækja auk þess að benda á að lífeyrissjóðirnir leika stórt hlutverk á markaði þegar kemur að jafnrétti. Í byrjun þessa árs fékk Ásta Dís og samstarfsfólk hennar verkefnastyrk Rannís, en þar leiðir hún rannsóknateymi innlendra og erlendra sérfræðinga þar sem markmiðið er að skoða hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu. Þá hefur hún sett í loftið vefsíðu um rannsóknirnar, www.genderequality.hi.is,“ segir í greinargerð valnefndar.
Enn fremur hefur Ásta Dís skrifað fjölda ritrýndra greina og bókakafla þar sem áherslan er á jöfn tækifæri kynjanna. Einnig hefur hún margsinnis verið fengin sem viðmælandi í fjölmiðlum og verið álitsgjafi þegar fjallað er um jafnréttismál á opinberum vettvangi.
Við hjá Nýsköpunarsjóði erum afar stolt af formanni sjóðsins og óskum henni innilega til hamingju.