Þorbjörg er stofnandi frumkvöðlafyrirtækisins Kara Connect sem ætlað er að bæta andlega líðan notenda. Þorbjörg lærði uppeldisfræði og námssálfræði. Áður en hún stofnaði fyrirtækið sitt var hún í stjórnmálum. Hún var meðal annars borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og sat í borgarstjórn frá árinu 2006 til 2014. Hún hefur verið formaður Umhverfis- og samgönguráðs, formaður menningar- og ferðamálaráðs og formaður leikskólaráðs.
Við hjá Nýsköpunarsjóði lögðum fyrir hana nokkrar laufléttar spurningar til að kynnast henni betur.
Hvenær komstu fyrst að nýsköpun og af hverju?
Ég var svo heppin að vera verkefnastjóri Auðar í krafti kvenna og fylgja þremur hollum af nýsköpunarfyrirtækjum í eigu kvenna í gegnum það verkefni.
Ef þú værir ekki framkvæmdastjóri Köru Connect hvað myndir þú vilja gera í lífinu?
Vinna með andlega líðan barna í einhvers konar hlutverki þar sem ferli eru löguð og tryggt að börnin fái þjónustuna.
Hvaða reynslu nýtir þú mest í starfi framkvæmdastjóra Köru Connect?
Ég hugsa að ég hafi lært mest af reynslu minni í stjórnmálum, til dæmis að vera með einfalda en stóra framtíðarsýn og muna að ágreiningur er ekki alltaf neikvæður. En ég lærði líka að það er uppbyggilegra að vinna með teymi sem er allt að fara í sömu átt eins og í fyrirtækjarekstri heldur en inni í stjórnmálaflokki ;)
Hvaða áhugamál hefurðu?
Ég hef mjög gaman að því að lesa góðar bækur og elska að labba. Bæði hvílir heilann á mér í smá tíma.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
Hlæja með vinum og fjölskyldu
En það leiðinlegasta eða mest óþolandi?
Að setja bensín á bílinn. Var ekki lengi að kaupa mér rafmagnsbíl til að sleppa við það.
Ertu með Mottó? – hvað er það og af hverju ef svo ber undir?
Að dvelja ekki of lengi við mistök - að dvelja við þau tekur oftast of mikinn tíma.
Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sem barn hvað myndirðu vilja segja því?
Hættu að pæla í því hvort þú sért nógu góð. Bara hætta því alveg.
Kara Connect hefur verið í eignasafni Nýsköpunarsjóðs síðan árið 2019. Kara Connect byggir velferðartorg svo framsýn fyrirtæki geti bætt líðan og velferð starfsmanna sinna. Fyrirtækið var stofnað 2014 og hugsað sem leið fyrir fagaðila til að tengjast skjólstæðingum sínum. Í dag býður fyrirtækið upp á sérsmíðuð velferðartorg fyrir vinnustaði þar sem starfsfólki gefst kostur á að bóka tíma hjá sérfræðingum til að bæta líðan sína.