23
.
October
2024

Carbfix hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2024 á Nýsköpunarþingi 

Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ragna Björk Bragadóttir, verkefnastýra styrkverkefna hjá Carbfix

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2024 voru veitt í gær nýsköpunarfyrirtækinu Carbfix sem þróað hefur og markaðssett tækni til að binda koldíoxíð og brennisteinsvetni varanlega í bergi. 

Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix, og Ragna Björk Bragadóttir, verkefnastýra styrkverkefna, tóku við verðlaununum sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti í lok Nýsköpunarþings í Grósku.

Kári sagði m.a. „Verðlaunin eru kærkomin viðurkenning á framlagi allra þeirra sem hafa komið að þróun Carbfix tækninnar gegnum tíðina. Tækifærin til nýsköpunar í loftslagslausnum eru mikil og við höldum áfram að gera okkar tækni skilvirkari og hagkvæmari, til að mynda með því að skipta út ferskvatni fyrir sjó.“

Verðlaunin voru veitt að loknu vel heppnuðu Nýsköpunarþingi sem í ár einbeitti sér að markaðsmálum. Þar voru erindi frá Furu Ösp Jóhannesdóttur, sjálfstæðum ráðgjafa og stjórnarformanni Brandenburg, Bolla Thoroddsen, meðstofnanda Trip To Japan, Karl Birgi Björnssyni, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Hefring Marine og Maríu Rut Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Tónlistarmiðstöðvar. 

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er einn umsjónaraðila Nýsköpunarþings ásamt Rannís, Íslandsstofu og Hugverkastofu og er sjóðurinn einnig með fulltrúa í dómnefnd sem velur nýsköpunarfyrirtæki ársins. Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.

Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Myndir frá Nýsköpunarþingi má sjá hér að neðan.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.