19
.
November
2024

Af hverju geta hlutir ekki bara alltaf virkað? Viðtal við Ingólf hjá Mýsköpun

Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Mýsköpunar

Fyrr á árinu tók Ingólfur Bragi Gunnarsson við stöðu framkvæmdastjóra Mýsköpunar. Ingólfur hefur áralanga reynslu af líftæknitengdri starfsemi sem yfirmaður ræktunar hjá Algalíf og sem forstöðumaður hagnýtrar líftækni hjá Running Tide. Hann hefur mikla reynslu af nýsköpun og rannsóknum, s.s. á endurnýjanlegum orkugjöfum og framleiðslu verðmæta með líftækniaðferðum, ásamt því að hann hefur skrifað fjölda vísindagreina og er eigandi einkaleyfis á því sviði.

Okkur hjá Nýsköpunarsjóði langaði að kynnast Ingólfi betur og settum fyrir hann nokkrar laufléttar spurningar

Hvenær komstu fyrst að nýsköpun og af hverju?

„Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera eftir menntaskóla. Líftækni hljómaði spennandi og ákvað að prófa. Ég vann á rannsóknarstofu á sumrin á meðan ég kláraði B.Sc. námið við Háskólann á Akureyri, og vann þá að verkefni um framleiðslu á lífeldsneyti með hitakærum bakteríum.“

Ef þú værir ekki framkvæmdastjóri Mýsköpunar hvað myndirðu vilja gera í lífinu?

„Ég myndi vilja vinna að einhverju áhugaverðu. Ég hef gaman að því að búa eitthvað til, sérstaklega úr náttúrunni. Kannski bara stofna mitt eigið fyrirtæki.“

Hvaða ofurkrafta myndir þú vilja hafa eða hvaða ofurhetju samsvarar þú þér mest við?

„Held að það gæti komið sér vel að hafa vald á tíma eins og Doctor Strange.“

Hver eru áhugamál þín?

„Snjóbretti hefur verið mitt aðaláhugamál síðan í grunnskóla. Fátt er svo betra en að spila golf í góðu veðri. Í seinni tíð hef ég orðið mikill NFL áhugamaður, GO CHIEFS!“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

„Snjóbretti í nýföllnu púðri, golf með góðu fólki eða fara á NFL leik. Ætli ég setji ekki líka utanlandsferðir með fjölskyldunni á listann.“

En það leiðinlegasta eða mest óþolandi?

„Ég hef mjög litla þolinmæði fyrir hlutum sem bila eða virka ekki. Af hverju geta hlutir ekki bara alltaf virkað? Hvað er vandamálið?“

Ertu með Mottó? – hvað er það og af hverju ef svo ber undir?

„Svo sem ekki, en "Just do it" er nokkuð gott.“

Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sem barn hvað myndirðu vilja segja því?

„Ég myndi ekki breyta neinu, ferðalagið mótar einstaklinginn. Klapp á bakið og hrós væri samt nice.“

Geturðu “sagt mér” í einni setningu/lyfturæðu hvað Mýsköpun gerir þannig að allir geti skilið?  

„Mýsköpun nýtir orkuna og vatnið okkar í að framleiða verðmæti úr örþörungum. Aðstæður á Íslandi eru í raun kjörnar fyrir starfsemina, trikkið er bara að velja réttu örþörungana og afurðirnar. Ef haldið er rétt á spilunum er samkeppnisforskot á erlenda framleiðendur innbyggt í starfsemina.“

Hvaða reynslu nýtir þú mest í því starfi sem þú gegnir í dag?

„Góð mannleg samskipti og jákvæði. Styðja við starfsfólk með ráðum eða tækjabúnaði. Vinna að því að gera vinnuna skemmtilega og áhugaverða. Fagna litlu sigrunum og búa til skýra sýn um hvernig hægt er að komast að takmarkinu. Nota “common sense” óspart.“

-----------------------

Mýsköpun ehf. hefur verið í eignasafni Nýsköpunarsjóðs síðan árið 2023 en fyrirtækið var stofnað árið 2013.  Mýsköpun er sprotafyrirtæki í líftækni sem sérhæfir sig í ræktun örþörunga úr stofni sem fannst í Mývatni og framleiða úr þeim próteinríkar afurðir.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.