Í gær, 3. september, var fyrirtækið Abler valið Vaxtarsproti ársins en velta fyrirtækisins ríflega tvöfaldaðist milli ára. Ankeri Solutions hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt.
Ankeri er í eignasafni Nýsköpunarsjóðs og var fyrsta aðkoma sjóðsins árið 2018. Velta fyrirtækisins jókst um 81% á milli ára, fór úr 54 milljónum króna í tæplega 98 milljónir króna. Starfsmenn Ankeri eru 18 en hugbúnaður Ankeri Solutions tengir saman eigendur flutningaskipa og leigjendur þeirra. Markmið Ankeris er að hugbúnaður fyrirtækisins verði til þess að bæta rekstur og skilvirkni í skipaiðnaðinum sem skili sér í hagræðingu í rekstri heimsflutninga. Markaðir félagsins eru fyrst og fremst erlendis og eru því rekstrartekjur að mestu í erlendri mynt.
Sprotafyrirtækið Abler þróar hugbúnað sem einfaldar og eflir íþrótta- og tómstundastarf með því að tengja saman iðkendur, foreldra, þjálfara og skipuleggjendur. Velta fyrirtækisins fór úr 104 milljónum króna í 220 milljónir króna. Starfsmenn Abler eru 30 talsins.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann 2024 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.
Nýsköpunarsjóður óskar Abler og Ankeri innilega til hamingju með viðurkenningarnar.