10
.
September
2024

Novo Nordisk stofnun fjármagnar íslenska líftæknifyrirtækið ArcanaBio

Íslenska líftæknifyrirtækið ArcanaBio hlaut nýverið fjármögnun frá BioInnovation Institute (BII) í Danmörku sem er djúptæknihraðall fyrir brautryðjandi nýsköpunarfyrirtæki með áherslu á líftækni og er stutt af Novo Nordisk stofnuninni. AracanaBio er eitt af þeim tíu félögum sem Nýsköpunarsjóður valdi í fjárfestingarátaki sjóðsins á síðasta ári.

Um er að ræða fjármögnun upp á 4 milljónir danskar eða rúmlega 80 milljónir íslenskra króna. Er fjármagninu og stuðningnum í gegnum hraðalinn ætlað að styðja við þróun á nýrri byltingarkenndri tækni sem Arcana hefur unnið að undanfarið fyrir greiningar á próteinum með nýrri ljóstækni. En félagið hefur nú þegar sótt um einkaleyfi á tækninni í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári.

„Við erum afar stolt yfir því að fá þennan öfluga stuðning frá BII og Novo Nordisk stofnuninni, en einnig er við afskaplega þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum núna fyrr á árinu með fjármögnun frá Nýsköpunarsjóði Atvinnulífsins og fjárfestum. Markmið okkar hjá Arcana er í grunninn að endurhugsa heilsufarsgreiningar til lengri tíma. Í því felst að þróa lausnir sem styðja við heilsuforvarnir og stuðla að eflingu á heilsuvitund meðal fólks með hjálp nýrra greiningalausna sem henta dags daglega, t.d til að fylgjast með streitu og styðja við andlega líðan” segir Kristján Már Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arcana.

Tæknin byggir í grunninn á nýrri ljósgreiningatækni sem notast við gervigreind til að greina og mæla mismunandi gagnapunkta út úr próteinum með mikilli nákvæmni. Aðferðin þarfnast ekki dýrra hvarfefna (e.reagents), tekur örfáar mínútur í framkvæmd og er mun hagkvæmari en núverandi lausnir eins og ELISA eða Mass Spec. Þá býður lausnin einnig upp á að skoða mikinn fjölda lífmerkja í hverri keyrslu fyrir sig.

„Þessi tækni felur í sér mikil tækifæri til að greina mikinn fjölda lífmerkja (e. biomarkers), og hentar sérstaklega vel til að fylgjast með mörgum lífmerkjum yfir lengri tímabil á mun hagkvæmari hátt en núverandi aðferðir bjóða upp á. Þá verður einnig hægt að nota tæknina til að greina munnvatnssýni. En munnvatnssýni er mun ákjósanlegri leið til að skoða þróun lífmerkja yfir lengri tíma, er auðvelt í framkvæmd og er miklu ódýrari og þægilegri aðferð en blóðprufur. Þessi tækni er einnig að fara að opna á ýmsa spennandi möguleika á rannsóknarsamvinnu við önnur líftæknifyrirtæki” segir Daníel Óskarsson, tæknistjóri Arcana.

Hluti af starfsemi félagsins mun flytjast til Danmerkur og hafa aðsetur í djúptæknihluta BioInnovation Institute, Deep Tech Lab Quantum í Kaupmannahöfn, og mun starfa innan um önnur fyrirtæki í hátækni- og  skammtafræðiþróun.

Einnig er þar að finna önnur fyrirtæki sem hafa fengið fjármögnun í gegnum DIANA þróunar- og nýsköpunarátak NATO fyrir hátækniverkefni tengd varnarmálum. Þá mun BII einnig aðstoða félagið við að sækja frekari fjármögnun á næstu misserum.

Finna má enska útgáfu af tilkynningunni á Business Wire.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.