Karl Ægir Karlsson er framkvæmdastjóri 3Z sem í stuttu máli er fyrirtæki sem uppgötvar nýja notkun fyrir gömul lyf. 3Z spratt upp úr öflugu rannsóknarumhverfi innan tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík en Karl er doktor í taugavísindum og prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Við hjá Nýsköpunarsjóði lögðum fyrir hann nokkrar laufléttar spurningar til að kynnast honum betur.
Ef þú værir ekki framkvæmdastjóri 3Z hvað myndirðu vilja gera í lífinu?
„Ef ekki væri fyrir 3Z myndi ég helst vilja vera prófessor og stunda rannsóknir miðtaugakerfinu og þroska þess.“
Hvaða reynslu nýtir þú mest í því starfi sem þú gegnir í dag?
„Ég ætti auðvitað að segja námið mitt, því þar lærði ég það sem þarf til að geta unnið að lyfjauppgötvunum. En ég myndi segja að það eru þrjár forsendur þess að hægt að sé að komast eitthvað áfram. Í fyrsta lagi að geta hlustað á fólk, sett sig í spor þess og skilið það. Þetta getur átt við alla hvort sem það eru nemar, starfsfólk, samstarfsaðilar eða fjárfestar. Í öðru lagi að geta gert skýrt grein fyrir hver vilji þinn er og markmið. Og að endingu, þegar við á, sannfæra viðkomandi um að þið ættuð að taka höndum saman. Þetta þrennt nýtist mér best.“
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
„Að uppgötva eitthvað nýtt.“
En það leiðinlegasta eða mest óþolandi?
„Að eyða tímanum í eitthvað fánýti og fylgja reglum sem ég skil ekki eða er andsnúinn.“
Hvaða áhugamál hefur þú?
„Ég hef fjölmörg áhugamál og þau breytast með tímanum en það sem hefur verið með mér lengst eru: Tónlist, mótorhjól, saga, þjóðmál og veiðar.“
Ertu með Mottó?
„Ég er ekki mikill prinsippmaður og hef þess vegna ekki neitt sérstakt mottó en ef ég hefði mottó þá vildi ég að það væri það að gefast aldrei upp og og horfa ekki um öxl. Benjamin Disraeli var einnig með mottó sem ég var alltaf hrifinn af: "Never complain, never explain".“
Ef þú gætir sagt eitthvað við þig sem barn hvað myndirðu vilja segja því?
„Kauptu kvóta.“
3Z var stofnað árið 2008 og hefur verið í eignasafni Nýsköpunarsjóðs síðan árið 2012. 3Z hefur þróað aðferðir þar sem sebrafiskar eru notaðir til skimunar á sameindum sem hafa áhrif á miðtaugakerfið og stunda þannig skipulega leit að miðtaugakerfislyfjum framtíðarinnar. Aðferðirnar eru mun ódýrari, hraðvirkari og mannúðlegri en þær sem mest eru notaðar í dag. 3Z stefnir á að fyrstu lyf úr skimunum fyrirtækisns farí í klínískar prófanir á næsta ári.