20
.
March
2025

KLAK ratar inn á lista Financial Times

Ljósmynd: Eygló Gísladóttir

KLAK – Icelandic Startups komst nýlega inn á lista Financial Times og Statista fyrir leiðandi fyrirtæki innan evrópska frumkvöðlageirans. Listinn ber heitið Europe‘s Leading Start-up Hubs 2025 og er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki ratar inn á þann lista.

Félagið segir þetta einstaka viðurkenningu og undirstriki mikilvægi KLAK í íslensku frumkvöðlaumhverfi ásamt því að viðurkenna áhrifamátt þess í alþjóðlegu samhengi.

Á hverju ári framkvæmir Financial Times, í samstarfi við Statista, ítarlega greiningu á yfir 3.000 nýsköpunarmiðstöðvum í Evrópu. Af þeim sem sækja um komast aðeins 150 inn á hinn umrædda lista.

„Þetta er stór áfangi fyrir KLAK og íslenskt nýsköpunarumhverfi. Við höfum lagt okkur fram við að byggja upp sterkan vettvang fyrir frumkvöðla og þessi viðurkenning er sönnun þess að við höfum náð góðum árangri. Það er ómetanlegt að fá slíka viðurkenningu frá jafn virtum alþjóðlegum aðila og Financial Times, og það hvetur okkur til að halda ótrauð áfram og efla starfið enn frekar,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups.

KLAK segist hafa frá upphafi unnið að því að efla sprotaumhverfið á Íslandi með ýmsum verkefnum. Þátttaka í verkefnum á borð við Gulleggið, Startup Supernova, Startup Tourism, Hringiðu og Dafna hefur þá hjálpað ótal frumkvöðlum við að taka næstu skref í sínum rekstri og jafnvel stefna út fyrir landsteinana.

Um KLAK

KLAK er óhagnaðardrifið félag í eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Origo, Nýsköpunarsjóðsins Kríu og Samtaka iðnaðarins. Hlutverk KLAK er að stækka og styðja við samfélag frumkvöðla á Íslandi með það að markmiði að fjölga sprotafyrirtækjum.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.