14
.
November
2024

Umsýslu- og samstarfssamningur um sprotafélög í eigum Landspítala

Hrönn Greipsdóttir og Runólfur Pálsson við undirritun samningsins. Ljósmyndari Laimonas Dom Baranauskas

Landspítali hefur falið Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins umsýslu eignarhluta spítalans í sprotafélögum á sviði heilbriðistækni. Um er að ræða 11 sprotafélög en gert er ráð fyrir að eignasafnið stækki í framtíðinni.

Landspítali hefur eignast þessa hluti í sprotafélögum við að leggja frumkvöðlum lið í upphafi einkum í formi aðstöðu, aðgangs að tækjum eða með öðrum hætti en fyrirkomulagið er velþekkt í vísindasamfélaginu. Í samningnum felst að Nýsköpunarsjóður fer með eignarhlutina og nýtist þar sérþekking sjóðsins á rekstri sprotafélaga.

Samningurinn byggir á sambærilegum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem var gerður árið 2018 þar sem Nýsköpunarsjóði var falin umsýsla með eignarhlutum ríkissjóðs í óskráðum félögum. Árið 2021 var einnig gerður sambærilegur samningur við HVIN (háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið) um eignarhluti í eigu Nýsköpunarmiðstöðvar íslands þegar sú stofnun var lögð niður.

„Það er mikilvægt að hlúa vel að sprotafélögum sem spretta upp innan veggja spítalans og er þessi samningur liður í að skapa trausta og hvetjandi umgjöfr fyrir frumkvöðlastarfið,“ sagði Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, við undirritun samningsins.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, fagnar samningnum og telur hann bæði samræmast vel hlutverki og sérþekkingu sjóðsins.

„Um leið og það er mikilvægt að halda utan um þau verðmæti sem skapast í því frumkvöðlastarfi sem á sér stað innan spítalans þá ætti reynsla og stuðningur frá Nýsköpunarsjóði að nýtast frumkvöðlunum“.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.