Fimmtudaginn 10. apríl næstkomandi klukkan 12:00 að íslenskum tíma verða Nýsköpunarverðlaun Norðurlandanna afhent í fyrsta sinn. Fimm norræn fyrirtæki eru tilnefnd til verðlaunanna. Þar á meðal er íslenska fyrirtækið Carbfix sem Hugverkastofa í samráði við samstarfsaðila um Nýsköpunarverðlaun Íslands: Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóðinn Kríu tilnefndi fyrir hönd Íslands.
Nýsköpunarverðlaun Norðurlandanna (e. Nordic Innovation Award) eru ný verðlaun sem hugverkastofur Norðurlandanna standa að í sameiningu til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar og hugverkaverndar. Verðlaunin verða afhent á ráðstefnu dönsku hugverkastofunnar í Kaupmannahöfn og hægt verður að fylgjast með afhendingunni í streymi á vef Hugverkastofunnar.
Carbfix hefur þróað byltingarkennda og einkaleyfisvarða aðferð til að binda koltvísýring í bergi til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum
SiteCover hefur hefur þróað einkaleyfisvarðar yfirbyggingar fyrir byggingarstaði til að hægt sé að vinna við þurrar aðstæður óháð veðri. Uppistöður bygginganna virka einnig sem uppistöður fyrir hlaupaketti.
Origin by Ocean hefur þróað einkaleyfisvarðar aðferðir til að vinna ýmis efni úr brúnþörungum, m.a. fyrir snyrti- og matvælaiðnað.
GreenIron hefur þróað nýja og einkaleyfisvarða aðferð til að framleiða járn og aðra málma án þess að losa gróðurhúsalofttegundir.
Cartesian hefur þróað nýja og einkaleyfisvarða aðferð til að geyma og miðla varmaorku í byggingum og þannig spara orku og orkukostnað.
---------
Dómnefnd sem skipuð er forstjórum hugverkastofa Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, auk fulltrúa nýsköpunarsamfélagsins í hverju landi, mun velja eitt fyrirtæki sem hlýtur verðlaunin.
Hægt er að lesa sig nánar til um verðlaunin og kynnast fyrirtækjunum á www.hugverk.is