Nýverið samþykktu um 70% eigenda Kaptio sölu á hlut sínum í félaginu. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í Kaptio árið 2014 en aðrir seljendur eru vísisjóðurinn Frumtak 2 og Arnar Laufdal Ólafsson annar stofnandi félagsins.
Framtakssjóðurinn VEX II leiðir fjárfestinguna en meðal annarra fjárfesta eru Birgir Ragnarsson, Björn Karlsson og Jóhann Ólafur Jónsson, stofnendur hugbúnaðarfyrirtækisins Annata.
Kaptio þróar og selur bókunarhugbúnað fyrir ferðaþjónustu og var fyrsta fyrirtækið sem selur lausn með áherslu á ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur innan Salesforce umhverfisins.Viðskiptavinir félagsins eru í flestum tilfellum stór alþjóðleg ferðaþjónustu fyrirtæki sem selja og reka sérferðir og hópferðir, skemmtiferðaskipa- og lestarferðir.
Í tilkynningu Kaptio um söluna kemur fram að félagið hefur notið stuðnings öflugra hluthafa sem nú kveðja félagið og þakkar Viðar Svansson, forstjóri Kaptio þeim fyrir sitt framlag og ánægjulegt samstarf. Um leið segist hann hlakka til að fá til liðs við félagið öfluga samstarfsaðila. Aðkoma þeirra sé góð viðurkenning á því frábæra starfi semstarfsfólk Kaptio hefur unnið á síðustu árum og þeirri sýn sem lögð hefur veriðfram.
Nýsköpunarsjóður hefur margfaldað með þessu sína fjárfestingu og skapar um leið ráðrúm fyrir sjóðinn til þess að fjárfesta í fleiri upprennandi sprotafélögum. Nýsköpunarsjóður starfar sem sígrænn sjóður, sem þýðir að sjóðurinn selur eignarhluti í félögum til að eiga fyrir rekstri og fjárfestingum í nýjum sprotum og styðja þannig sem fyrr við nýsköpun.
Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins óskar starfsfólk i Kaptio og nýjum eigendum til hamingju og segir söluna vera ánægjulega þar sem hér er félaginu komið í hendur öflugs vaxtarsjóðs og fjárfesta sem sjá tækifæri til landvinninga. „Á sama tíma og félagið er selt myndast rými fyrir enn frekari stuðning við nýsköpun og fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. En fyrst og fremst er þessi sala þó til marks um mikilvægi þess að styðja vel við efnilega sprota.“