16
.
November
2023

Pink Iceland hlýtur Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2023

Frá afhendingu Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF ásamt þeim Birnu Hrönn Guðmundsdóttur, Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og Hannesi Pálssyni stofnendum og eigendum Pink Iceland.

Samtök ferðaþjónustunnar fagnar nú á dögum 25 ára starfsafmæli sínu og var af því tilefni haldin glæsileg afmælisráðstefna Samtakanna þann 15. nóvember. Á ráðstefnunni hlutu tvö ferðaþjónustufyrirtæki verðlaun og viðurkenningu fyrir nýsköpun. 

Það var samhljóma niðurstaða dómnefndar að Pink Iceland skyldi hljóta Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2023. Þá hlaut Skriðuklaustur í Fljótsdal Nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2023. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannsson afhenti Pink Iceland verðlaunin og Skriðuklaustri viðurkenninguna. Dómnefndina skipuðu þau; Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF, Hrönn Greipsdóttir frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Eyþór Ívar Jónsson frá Akademias.   

Þetta er í annað sinn sem Pink Iceland hlýtur þessi verðlaun fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf. Fyrra skiptið var árið 2012. Í rökstuðningi dómnefndarinnar um viðurkenninguna til Pink Iceland segir:

„Þrátt fyrir að Covid 19 hafi kippt undan félaginu rekstrargrundvellinum hefur stjórnendum og starfsmönnum tekist að skapa arðsamt vaxtarfyrirtæki á ný. Frumkvöðlateymið; Eva María, Birna Hrönn og Hannes hafa sagt að þetta tímabil hafi verið líkast því að setja á laggirnar nýtt sprotafyrirtæki. Sérstaða félagsins eru brúðkaup fyrir hinsegin fólk sem kalla á einstakar og óvenjulegar upplifanir. Pink Iceland hefur búið til nýjan markað með nýsköpun í þjónustu og upplifun sem hefur haft margföldunaráhrif út í hagkerfið. Á meðan flest okkar teljum okkur nokkuð góð að hafa skipulagt eitt slysalaust brúðkaup þá hefur Pink Iceland skipulagt fleiri en þúsund brúðkaup á Íslandi. Hvert og eitt þeirra er einstök upplifun. Endurgjöf viðskiptavina er frábær sem gerir það að verkum að Ísland og Pink Iceland eiga stað og stund í hjarta brúðhjóna og gesta frá öllum heimshornum. Pink Iceland hlaut þessi verðlaun einnig árið 2012 en með því að finna sig upp á nýtt og skapa landi og þjóð mikil verðmæti á félagið ekkert minna skilið en að hljóta Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar aftur rétt rúmum tíu árum síðar. Ef næstu tíu ár verða eitthvað líkingu við þá nýsköpun sem hefur orðið til hjá félaginu á síðustu tíu árum horfir íslensk ferðaþjónusta fram á glæsta framtíð..“

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar eru afhent árlega fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan Samtaka ferðaþjónustunnar til nýsköpunar og vöruþróunar.

Frá afhendingu Nýsköpunarviðurkenningar ferðaþjónustunnar 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF ásamt Friðriki Árnasyni, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Skriðuklausturs.
Frá afhendingu Nýsköpunarviðurkenningar ferðaþjónustunnar 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF ásamt Friðriki Árnasyni, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Skriðuklausturs.

Venju samkvæmt tilnefndi dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna fyrirtæki sem hlaut Nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar. Skriðuklaustur í Fljótsdal hlaut viðurkenninguna í ár, en klaustrið hefur um langt árabil verið vinsæll áfangastaður ferðamanna á Austurlandi.

Sjá nánar á vef SAF

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.