25
.
mars
2025

HorseDay tekur þátt í TINC viðskiptahraðliðnum í Silicon Valley

HorseDay sem þróar smáforrit sem er sérsniðið að þörfum hestafólks hlaut nýverið þátttöku í TINC viðskiptahraðlinum í Silicon Valley. TINC Silicon Valley er fimm vikna hraðall sem er keyrður af Innovation Norway í samstarfi við KLAK - Icelandic Startups, Vinnova og Business Finland.

Hraðallinn veitir sprotafyrirtækjum gríðarlegt tækifæri á að vaxa og dafna erlendis. Fókus er á að hjálpa sprotum að staðfesta vöru sína eða markað, þróa viðskiptamódelið enn frekar og finna möguleika á alþjóðlegum markaði. Hraðallinn er fyrir norræn tæknifyrirtæki sem hyggja á alþjóðlegan vöxt. Leidd eru saman efnileg norræn sprotafyrirtæki og ýmsir leiðbeinendur frá Silicon Valley þ.m.t. sérfræðingar í áhættufjárfestingum og markaðs- og sölumálum. TINC hraðallinn hefur verið haldinn síðan árið 2012 og hafa 22 íslensk fyrirtæki tekið þátt til þessa. Fyrirtæki sækja um að komast í hraðalinn og svo hefst viðtalsferli með Åse Pettersen Bailey hjá Nordic Innovation House í Silicon Valley sem stýrir prógramminu og velur svo fyrirtækin sem þeim lýst best á. Í þetta sinn varð HorseDay ásamt Defend Iceland fyrir valinu.  

„Að taka þátt í alþjóðlegum viðskiptahraðli eins og þessum hefur mikla þýðingu fyrir okkur í HorseDay. HorseDay-appið er nú þegar notað í um 20 löndum víðsvegar um heiminn og við erum í þeim fasa að vöxtur á erlendum mörkuðum er okkar fókus akkúrat núna. Að komast í tengsl við reynslumikið fólk á alþjóðlegum vettvangi sem er með stórt tengslanet í tæknigeiranum er mjög mikilvægt á þessum tímapunkti og hlökkum við mjög til að fara út,“ segir Oddur Ólafsson, einn stofnandi HorseDay.

Þetta er í fyrsta sinn sem þau taka þátt í hraðli sem þessum en hraðallinn hefst með svokölluðu „kick-off“ í Osló í byrjun apríl en hefst svo formlega um miðjan apríl. Fyrstu þrjár vikurnar verður hraðallinn tekinn í fjarvinnustofum en svo heldur hópurinn út til Silicon Valley í kringum 16. maí þar sem síðustu tvær vikurnar verða í Nordic Innovation House í Silicon Valley. Eins og gefur að skilja eru þau í HorseDay spennt fyrir þátttöku sinni í TINC og verður gaman að fylgjast með hvernig framvindan verður.

„ Við búumst við að fá leiðsögn frá framúrskarandi mentorum sem sjá okkar verkefni frá öðrum vínklum en við. Fólk með alþjóðlega reynslu úr tæknigeiranum sem hefur allt aðra sýn á þetta umhverfi, það hefur í för með sér mikil tækifæri. Það vonandi skýrir enn betur fyrir okkur hvernig við tökum næstu skref á þessu alþjóðlega sviði og hver veit nema þetta opni einhverjar dyr sem okkur hefur ekki dottið í hug að banka á,“ bætir Oddur brosandi við.

Um HorseDay

HorseDay hefur verið í eignasafni Nýsköpunarsjóðsins frá árinu 2022 og býður upp á fjölbreytta möguleika sem auðvelda fólki utanumhald og markmiðasetningu um þjálfun, umhirðu og allt sem hestahald varðar. Meðal þess sem HorseDay innleiðir er aukin yfirsýn yfir þjálfun með greiningu gangtegunda með aðstoð tauganets og skynjara símans. HorseDay var stofnað af Oddi Ólafssyni, Mörtu Rut Ólafsdóttir og Ólafi H. Einarssyni en þau hafa reynslu af þróun og uppbyggingu hugbúnaðar og eru hestafólk með tengingar við hestamennsku á breiðum grunni.

Deila frétt
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.