Sádi-arabíska iðnfyrirtækið Sabic, dótturfyrirtæki Aramco, hefur keypt einkaréttinn á nýrri og umhverfisvænni framleiðsluaðferð á ammoníaki sem íslenska efnafyrirtækið Atmonia hefur fundið upp og þróað á síðustu árum.
Nýsköpunarsjóður kom fyrst að fjármögnun Atmonia árið 2020 en fyrirtækið þróar efnahvata og tæknibúnað sem framleiðir ammóníak úr lofti og vatni án þess að losa gróðurhúsalofttegundir. Aðferð Atmonia býður auk þess upp á minni framleiðslueiningar sem þurfa ekki jafn mikla og stöðuga orku og venjulegar ammoníaksverksmiðjur.
Guðbjörg Rist Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Atmonia segir eftir kaupin: „Þetta eru kaflaskil í okkar starfsemi. Samningurinn við Sádana er stór og kallar á meiri mannskap og fjármögnun.“ Atmonia er afsprengi rannsókna innan Háskóla Íslands og var stofnað 2016. Guðbjörg Rist réðst til fyrirtækisins 2018 og var þá fyrsti starfsmaður þess. Fimm árum seinna eru þeir orðnir átján.
Nánar má lesa um samninginn og Atmonia í grein Fréttablaðsins.