21
.
June
2023

Mikill áhugi á fjárfestingarátaki Nýsköpunarsjóðs - Alls bárust 73 umsóknir um fjárfestingu fyrir 1.454 m.kr.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stendur fyrir fjárfestingaátaki sem beint er að sprotafyrirtækjum sem komin eru stutt á veg í sinni þróun.  Hugmyndin að átakinu er ekki úr lausu lofti gripin þar sem ákall hefur verið um einfaldari nálgun og lægri fjárfestingar sem henta ungum félögum. Fjárfestingaátakið var kynnt á fundum og viðburðum og auglýst m.a. á samfélagsmiðlum. Umsóknarfrestur var til 31.maí og sprengdu viðtökurnar alla skala, en alls bárust 73 umsóknir um fjárfestingu þar sem sótt var um samtals 1.454 m.kr.

Móttökurnar eru langt umfram væntingar og sýna svart á hvítu að svo sannarlega er þörf á að styðja betur við sprota snemma á þeirra vegferð. Upplegg Nýsköpunarsjóðs er að koma að fjármögnun 10 - 15 félaga með þessu átaki og fjárfesta fyrir allt að 200 m.kr. á ári með þessum hætti. Fjárfesting sjóðsins í einstökum félögum verður á bilinu 5 – 25 m.kr., en gerð er krafa um samsvarandi upphæð frá einkafjárfestum. Markmið þessa fjárfestingaátaks er að koma snemma að fjármögnun fleiri félaga, flýta mótunarskeiði þeirra, þróa trausta stjórnarhætti og laða samhliða að aðra fjárfesta með sömu upphæð.  

„Við erum einstaklega ánægð með móttökurnar sem við fengum. Fjöldi umsókna sýnir okkur hversu mikilvægt þetta verkefni er,“ segir Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs. „Við, ásamt sérstöku ráðgjafateymi, erum nú að fara yfir umsóknirnar.  Upphaflega ætluðum við að tilkynna um fjárfestingarnar í lok júní en nú liggur fyrir að vegna fjölda umsókna mun það dragast fram í miðjan ágúst,“ bætir hann við.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.