Þann 4. maí hélt Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sinn fyrsta kynningarfund um átak sem snýr að fjárfestingum í sprotafyrirtækjum sem komin eru stutt á veg í sinni þróun. Fundurinn var haldinn í Gróðurhúsinu Grósku í samstarfi við Fjártækniklasann en ljóst er að þó nokkur áhugi er til staðar fyrir átakinu hjá hinum ýmsu aðilum í nýsköpun.
GunnlaugurJónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasann bauð fólk velkomið og Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs tók svo við og greindi í stuttu máli frá Nýsköpunarsjóði. Örn Viðar Skúlason, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs, tók svo til máls og fór yfir helstu atriði þessa nýja fjárfestingaátaks en markmið þess er að koma að fjármögnun allt að 15 nýrra félaga á ári hverju. Tilgangurinn er að stuðla að eftirfarandi þáttum: Að flýta mótunarskeiði félaganna og sannreyna betur viðskiptamódel þeirra, laða að samhliða fram nýjar fjárfestingar til sprotafyrirtækja, þróa með félögunum trausta stjórnarhætti og reglulega upplýsingagjöf til hluthafa og að búa félögin undir aðkomu fleiri fjárfesta, bæði einkafjárfesta og vísisjóða. Viðstöddum bauðst svo tækifæri á að spyrja hinna ýmsu spurninga er viðkemur þessu átaki.
Næsti kynningarfundur um átakið verður haldinn miðvikudaginn, 10. maí klukkan 12:00 á Zoom til þess að þeir sem eiga ekki heimangengt eða eru ekki á höfuðborgarsvæðinu gefist einnig kostur á að kynna sér átakið.
Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með fjárfestingum í sprotum, styðja við framgang nýsköpunar í samræmi við áherslur stjórnvalda og er átakið liður í því.