20
.
April
2022

Hrönn Greipsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs

Hrönn Greipsdóttir

Hrönn Greipsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í stað Huldar Magnúsdóttur, sem lætur af störfum að eigin ósk um næstu mánaðamót. Hrönn Greipsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt með MBA gráðu í fjármálum auk prófs í verðbréfamiðlun. Hún hefur umtalsverða reynslu af rekstri fyrirtækja, stjórnun og fjárfestingum og hefur frá árinu 2015 stýrt fjárfestingafélaginu Eldey, sem fjárfesti í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og var í stýringu hjá Íslandssjóðum. Eignasafn Eldeyjar var selt Kynnisferðum í árslok 2020 og var starfsemin sameinuð um mitt síðasta ár. Áður starfaði Hrönn sem forstöðumaður hjá Arion banka og framkvæmdastjóri hjá SPRON. Þá hefur Hrönn einnig verið framkvæmdastjóri Hótels Sögu ehf., sem rak Hótel Sögu og Hótel Ísland. Hrönn hefur setið í fjölmörgum stjórnum sem spanna allt frá litlum frumkvöðlafyrirtækjum til eftirlisskyldra fjármálafyrirtækja og er Hrönn í stjórnum átta fyrirtækja á vettvangi ferðaþjónustu, ýmist sem stjórnarmaður eða formaður. Þeirra á meðal eru Kynnisferðir hf. og Reykjavík Excursion hf., Basecamp Iceland ehf., Íslenskar heilsulindir ehf. og Norðursigling hf., svo nokkur séu nefnd.

Sigurður Hannesson formaður stjórnar Nýsköpunarssjóðs: „Það er fengur fyrir Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að fá Hrönn Greipsdóttur til starfa. Hún hefur mikla reynslu og þekkingu af fjárfestingum og rekstri fyrirtækja sem mun nýtast sjóðnum sem og nýsköpunarumhverfinu á Íslandi vel. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu og hefur á síðasta aldarfjórðungi stutt við fjölmörg fyrirtæki, skapað störf og verðmæti. Ég býð Hrönn velkomna til starfa og þakka fráfarandi framkvæmdastjóra, Huld Magnúsdóttur, fyrir góð störf í þágu NSA og nýsköpunar á Íslandi undanfarin ár,“ segir Sigurður.

Hrönn Greipsdóttir: „Ég er full tilhlökkunar að takast á við spennandi og krefjandi verkefni í nýsköpunarumhverfinu, þar sem svo mikil gróska ríkir um þessar mundir. Vonandi nýtist reynsla mín og þekking vel til góðra verka á þessum vettvangi hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins,“ Hrönn af þessu tilefni.

Huld Magnúsdóttir: „Tíminn hjá sjóðnum hefur verið bæði áhugaverður og gefandi og ég er mjög þakklát fyrir samstarfið við starfsfólk, stjórn, ráðuneyti og þau öflugu félög sem tilheyra eignasafni Nýsköpunarsjóðs. Ég óska þeim öllum góðs gengis í framtíðinni sem ég tel að sé björt í íslensku nýsköpunarumhverfi,” segir Huld sem tók við starfi framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs vorið 2017.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.