Örn Viðar Skúlason, fjárfestingarstjóri Nýsköpunarsjóðs, var í viðtali hjá Viðskiptablaðinu nýverið þar sem hann segir m.a. að mikill samhljómur hafi verið innan íslenska nýsköpunargeirans um mikilvægi þess að styðja betur við félög á hugmyndastigi.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fór af stað með fjárfestingarátak í vor þar sem auglýst var eftir umsóknum frá sprotafyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Markmið átaksins er að fjárfesta fyrir um 200 milljónir króna í 10 til 15 nýjum félögum en til samanburðar hefur sjóðurinn komið að 1 til 2 nýjum félögum á ári og eru 25 félög í eignasafni sjóðsins í dag.
Lagt er upp með að Nýsköpunarsjóður fjárfesti í einstökum félögum fyrir 5-25 milljónir króna að því gefnu að félögin safni a.m.k. öðru eins frá einkafjárfestum. Ekki er skilyrði um að sú fjárfesting liggi fyrir heldur fá hin útnefndu félög ákveðinn tíma til að safna fjármagni frá englafjárfestum og þar kann vilyrði um fjármagn frá Nýsköpunarsjóði að hjálpa til.
Umsóknarfresti lauk 31. maí síðastliðinn og alls bárust 73 umsóknir um fjárfestingu þar sem sótt var um samtals 1.454 milljónir króna. Verið er að vinna úr umsóknum og stefnt er að því að kynna niðurstöðurnar um miðjan ágúst. Örn Viðar Skúlason segir að viðtökurnar hafi farið töluvert fram úr væntingum sjóðsins.
Viðtalið í heild sinni má lesa hér á www.vb.is