27
.
April
2022

Jákvæð afkoma af rekstri Nýsköpunarsjóðs

Rekstur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) gekk með ágætum á árinu 2021 þrátt fyrir annað árið í heimsfaraldri kórónuveiru. Rekstur flestra fyrirtækja í eignasafni sjóðsins gekk vonum framar og hefur sjóðurinn verið vel í stakk búinn til að takast á við þá óvissu sem faraldurinn skapaði. Þetta kom meðal annars fram í skýrslu framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs, Huldar Magnúsdóttur, á aðalfundi sjóðsins sem fram fór árdegis í dag í Grósku hugmyndahúsi.

Í ræðu Huldar kom enn fremur fram að hagnaður síðasta árs nam 43 milljónum króna samanborið við 29 milljónir á árinu 2020. Rekstrargjöld hækkuðu um 11% milli ára og námu 146 m. kr. samanborið við 132 m. kr. á fyrra ári. Þá hækkuðu rekstrartekjur um 59 mkr. milli ára, hvort tveggja vegna umsýslusamnings sem gerður var við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, þar sem Nýsköpunarsjóði var falin umsýsla með rekstri sjóðasjóðsins Kríu sem hófst á árinu. Á upphafsári Kríu var samþykkt að fjárfesta fyrir rúma 2,2 milljarða króna í þremur sérhæfðum fjárfestingarsjóðum.

Nýsköpunarsjóður fjárfesti í tveimur nýjum félögum á árinu, annars vegar menntatæknifyrirtækinu Evolytes, sem hefur þróað heildstætt námskerfi sem kennir stærðfræði, og hins vegar Spectaflow, sem þróar hugbúnaðarlausnir fyrir hótel- og gistimarkaðinn. Þá var fjárfest í eignarhlutum í nýjum félögum og félögum í eignasafni fyrir 407 m. kr. Seldir eignarhlutir námu 115 m. kr. og almennar lánveitingar 231 m. kr. í lok árs 2021. Þá voru seldir hlutir að fullu í fyrirtækjunum AGR og Oxymap. Í lok árs 2021 voru hlutir í 25 fyrirtækjum í eignasafni sjóðsins og eins og áður; eignahlutir í þremur sjóðum. Nýsköpunarsjóður hélt sem fyrr áfram stuðningi sínum við núverandi eignasafn, meðal annars með hlutafjáraukningum og lánveitingum.

Ávarp ráðherra

Í ávarpi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem aðstoðarmaður hennar, Áslaug Hulda Jónsdóttir, flutti sagði að gífurleg aukning hafi orðið í opinberu stuðningskerfi nýsköpunar á síðustu árum og í gegnum samkeppnissjóði sé aukningin nú í sögulegu hámarki. Hið sama eigi við um endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Nú sjáist merki um árangur þessa öfluga stuðnings á alþjóðlegum mælikvörðum. „Nýsköpunarvirkni (eða Global Innovation Index) fyrir Ísland er á öruggri uppleið,  útgjöld til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, mælast hærri en áður og útflutningstekjur byggðar á hugverkaiðnaði hafa aukist um 50% frá árinu 2018,“ sagði meðal annars í ávarpi ráðherra þar sem mikilvægi Nýsköpunarsjóðs var ítrekað enda verið virkur þátttakandi og mikilvægur bakhjarl í þessari miklu uppsveiflu.

Skýr og metnaðarfull markmið stjórnvalda

Í ávarpi sínu sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, mikla grósku ríkja í nýsköpun á Íslandi um þessar mundir, þar sem hugverkaiðnaður sé nú fjórða stoð útflutnings landsmanna og hafi, eins og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi boðað, alla burði til þess að verða stærsta útflutningsstoðin fyrir lok yfirstandandi áratugar. „Það er fagnaðarefni að stjórnvöld með ráðherra í fararbroddi skuli setja svo skýr og metnaðarfull markmið sem um leið eru fyllilega raunhæf. Með drifkrafti og áræðni frumkvöðla og skýrri stefnumörkun stjórnvalda verður þetta að veruleika. Um leið breytist íslenskt hagkerfi til batnaðar þar sem fleiri egg í körfunni leiða til aukins stöðugleika, meiri verðmætasköpunar og fleiri eftirsóttra starfa. Til mikils er að vinna. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gegnir mikilvægu hlutverki við að láta þessa metnaðarfullu sýn verða að veruleika,“ sagði Sigurður Hannesson, sem ásamt fráfarandi framkvæmdastjóra lagði í ræðu sinni einnig áherslu á Nýsköpunarsjóð sem góðan og vel hæfan vettvang til að taka að sér og stýra verkefnum sem tengjast nýsköpun eins og umsýslan með lánveitingum og vörslu sjóðasjóðsins Kríu ber gott vitni um.

Stjórn NSA starfsárið 2022 til 2023

Með vísan til laga um Nýsköpunarsjóð skipaði háskóla-, iðnaðar- og nýsöpunarráðherra eftirtalin í sjórn sjóðsins starfsárið 2022 til 2023: Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, tilnefnda af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sigurð Hannesson, tilnefndan af Samtökum iðnaðarins, Valdimar Halldórsson, tilnefndan af matvælaráðherra, Róbert Eric Farestveit, tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, og án tilnefningar Ragnhildi Jónsdóttur.

Hrönn tekur við keflinu

Eins og áður hefur verið greint frá lætur Huld Magnúsdóttir að eigin ósk af starfi framkvæmdastjóra í lok mánaðarins og tekur Hrönn Greipsdóttir þá formlega við keflinu frá og með 1. maí. Huld Magnúsdóttur voru í lok aðalfundarins þökkuð vel unnin störf fyrir Nýsköpunarsjóð og árangur hans og framþróun á starfstíma hennar hjá sjóðnum.

Deila frétt
No items found.
Með því að smella á „samþykkja“ gefur þú leyfi fyrir því að vefkökur séu vistaðar í tækinu þínu til þess að bæta virkni vefsíðu og greina notkun vefsíðunnar.