Spurt & svarað

 

Spurt og svarað

Hér er að finna algengar spurningar og svör varðandi mótframlagslánin.
1. Hvenær geta umsækjendur sótt um mótframlagslán?
 • Opnað verður fyrir umsóknir 16. júlí 2020 og er umsóknarfrestur 8 vikur eða til 10. september 2020.
 • Þegar umsóknarfrestur er liðin, mun lánanefnd yfirfara umsóknir og verður tilkynnt um samþykktar umsóknir innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests.
2. Hvað þarf umsækjandi að gera til þess að fá úthlutað mótframlagslán?
 • Að skila fullnægjandi umsókn og fylgiskjölum með tölvupósti á netfangið motframlagslan@nyskopun.is, innan umsóknarfrests. Umsóknareyðublað er aðgengilegt á vefsíðu Nýsköpunarsjóðs.
  • Til að umsókn teljist vera fullnægjandi þurfa að fylgja henni þau gögn sem eru tilgreind hér fyrir neðan í svari við spurningu 4.
3. Hvaða skilyrði liggja fyrir úthlutun mótframlagsláns?
 • Að umsækjandi sé félag sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ber fulla og ótakmarkaða skattskyldu í skilningi laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hér á landi.
 • Að umsækjandi hafi verið með innan við 50 stöðugildi 1. mars 2020 og ársveltu innan við kr. 500.000.000,- á árinu 2019. Ef félagið gerir upp í öðrum gjaldmiðli er miðað við gengi þess gjaldmiðils dags 31.12.2019. 
 • Að umsækjandi hafi á árunum 2018, 2019 og/eða 2020 tryggt sér fjármögnun í formi hlutafjár eða lánsfjár sem nemi a.m.k. kr. 40.000.000,- eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum en miðað skal við miðgildi viðmiðunargengis Seðlabanka Íslands á þeim degi eða dögum sem fjármunir voru greiddir til umsækjanda.
 • Að umsækjandi hafi ekki verið skráður á skipulegan verðbréfamarkað, í skilningi laga nr. 110/2007 um kauphallir eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF), í skilningi laga nr. 107/2007 um verðbréfaviðskipti.
 • Að umsækjandi hafi annað hvort hlotið staðfestingu Rannís skv. 5. gr. laga nr. 152/2009 á árinu 2019, eða hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði á árunum 2017 til 2020.
 • Að umsækjandi hafi frá 1. mars 2020 ekki greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum umsækjanda lán eða aðrar greiðslur sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstri. Með nákomnum aðila er átt við nákominn aðila í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. 
 • Að umsækjandi sé með hreint skuldleysisvottorð frá Skattinum, þ.e. sé ekki í vanskilum á opinberum gjöldum, og hafi ekki verið í vanskilum við lánastofnun lengur en í 90 daga á umsóknardegi.
 • Að  umsækjandi hafi frá og með 1. mars 2020 tryggt einkafjármögnun í formi lánsfjár eða hlutafjár að a.m.k. sömu fjárhæð og mótframlagslán sem sótt er um, og ekki fyrir lægri fjárhæð en kr. 25.000.000,-. Með einkafjármögnun er átt við fjármögnun sem kemur ekki frá íslenska ríkinu, sveitarfélögum eða öðrum opinberrum aðilum/stofnunum.
4. Hvaða fylgiskjöl þarf umsækjandi að senda samhliða umsókn sinni?
 • Fullnægjandi staðfestingu á skráningu félags í hlutafélagaskrá, s.s. með vottorði frá fyrirtækjaskrá.
 • Gildandi samþykktir umsækjanda.
 • Ársreikningur félagsins vegna ársins 2019. Liggi hann ekki fyrir skal leggja fram ársreikning vegna 2018.
 • Staðfestingu á skuldbindingu fjárfestis um að leggja umsækjanda til fjármagn, í formi hlutafjár eða lánsfjár, að a.m.k. sömu fjárhæðar og mótframlagslánið sem sótt er um og ekki fyrir lægri fjárhæð en kr. 25.000.000,- eða staðfestingu á því að slík fjárfesting hafi þegar átt sér stað og miðað við að umsækjandi hafi frá og með 1. mars 2020 tryggt einkafjármögnun. Með umsóknargögnum á vef Nýsköpunarsjóðs er form fyrir staðfestingu fjárfestis.
 • Staðfestingu á því að umsækjandi hafi annað hvort hlotið staðfestingu Rannís skv. 5. gr. laga nr. 152/2009 á árinu 2019, eða hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði á árunum 2017 til 2020.
 • Staðfestingu á því að umsækjandi sé með hreint skuldleysisvottorð frá Skattinum, þ.e. sé ekki í vanskilum á opinberum sköttum og gjöldum, og hafi ekki verið í vanskilum við lánastofnun lengur en í 90 daga á umsóknardegi. Vottorð skal ekki vera eldra en frá 1. júní 2020.
5. Hvar skulu umsækjendur skila umsókn og fylgiskjölum?
 • Umsókn skal senda á netfangið motframlagslan@nyskopun.is til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. 
 • Öll fylgiskjöl er fylgja umsókninni skulu berast rafrænt samhliða henni.
6. Helstu skilmálar og kjör mótframlagslána
 • Öll mótframlagslán skulu vera í formi breytanlegra skuldabréfa, sbr. VI kafli laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og VI. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
 • Skuldabréfin eru gefin út í kjölfar þess að umsækjandi sækir um mótframlagslán. Í  því felst að Nýsköpunarsjóður veitir lán til umsækjanda samhliða því að fjárfestir/ar annaðhvort (a) hafi veitt lán til skuldara í samræmi við skilyrði mótframlagslána eða (b) hafi tekið þátt í hlutafjárhækkun skuldara fyrir fjárhæð sem nemur a.m.k. fjárhæð umsóknar mótframlagsláns, í báðum tilvikum eftir 1. mars 2020.
 • Sé fjármögnun frá fjárfesti/um sem veitt er samhliða á móti mótframlagsláni í formi lánsfjár skal mótframlagslán veitt á sömu kjörum m.t.t. vaxta og lánatímabils.
 • Lánsfjárhæð hvers mótframlagsláns skal vera að lágmarki kr. 25.000.000,- en að hámarki kr. 70.000.000,-.
 • Lánstími mótframlagslána skal vera sá sami og lánstími lánsfjármögnunar fjárfestis/a sem veitt er á móti mótframlagsláninu, þó að hámarki 36 mánuðir. Í því felst að sé lánstími lánsfjármögnunar fjárfestis/a 48 mánuðir, mun lánstími mótframlagsláns engu að síður vera 36 mánuðir.
 • Umsækjanda er heimilt að greiða upp lánsfjárhæðina auk vaxta, að hluta eða öllu leyti, í tólf mánuði frá útgáfudegi lánsins. Að þeim tíma liðnum er ekki heimilt að fyrirframgreiða lánsfjárhæðina eða vexti, án samþykkis kröfuhafa.
 • Mótframlagslán skulu bera sömu vexti og fjármögnun fjárfestis, þó að lágmarki 10% vexti á ársgrundvelli. Í því felst að beri fjármögnun fjárfestis 9% vexti á ársgrundvelli, mun mótframlagslán engu að síður bera 10% vexti á ársgrundvelli.
 • Heildarfjárhæð allra mótframlagslána er allt að kr. 770.000.000 (að frádregnum kostnaði allt að kr. 15.000.000).  Reynist fjárhæð samþykktra umsókna hærri en sú fjárheimild sem er til staðar mun lánsfjárhæð hvers mótframlagsláns lækka hlutfallslega (pro rata).
7. Hvað þarf umsækjandi að gera eftir að umsókn hans hefur verið samþykkt?
 • Eftir að umsækjanda hefur verið tilkynnt um að umsókn hans sé samþykkt skal hann sýna  fram á, áður en mótframlagslán er veitt, að eftirfarandi hafi átt sér stað innan 4 vikna frá móttöku tilkynningar um að mótframlagslán hafi verið samþykkt:
  • Að hluthafafundur umsækjanda hafi samþykkt að gefa út breytanlegt skuldabréf og hafi í kjölfarið breytt gildandi samþykktum sínum í samræmi við það.
  • Að viðeigandi breytingar á samþykktum umsækjanda hafi verið skráðar hjá fyrirtækjaskrá, og eftir atvikum hlutafjárhækkun vegna hlutafjárframlags fjárfestis.
  • Að umsækjanda hafi borist fjármögnun frá fjárfesti sem er a.m.k. jafnhá mótframlagsláni og sé fjármögnun í formi lánsfjár og að því gefnu að lánsfjármögnun hafi ekki legið fyrir við umsókn. Afrit af undirrituðu skuldabréfi þarf að fylgja.
8. Meðferð mótframlagslána
 • Að lokinni veitingu mótframlagsláns verður umsýsla lánanna hjá Nýsköpunarsjóði, sem starfar samkvæmt lögum nr. 61/1997, reglugerð nr. 451/2009 og auglýsingu 384/2013. Í því felst m.a. að Nýsköpunarsjóður tekur ákvarðanir um framlengingu láns, nýtingu breytiréttar og gjaldfellingu í samræmi við útgefið skuldabréf til Nýsköpunarsjóðs.
9. Ef umsækjandi er með 51 eða fleiri stöðugildi þann 1. mars 2020, fær umsækjandi þá ekki mótframlagslán?
 • Nei, mótframlagslán verður aðeins veitt ef sýnt þykir að gefin skilyrði eru uppfyllt. Undantekningar verða ekki veittar.
10. Hvenær verða lánin greidd út?
 • Umsóknartími er 8 vikur, að þeim tíma liðnum fer lánanefnd yfir umsóknir og er reiknað með að það taki allt að 3 vikur. Áætlað er að lánin verða greidd út í október og nóvember 2020.
11. Hver er lágmarks og hámarks upphæð?
 • Lágmarks upphæð er 25 m.kr. 
 • Hámarks upphæð er 70 m.kr.
 • Reynist fjárhæð samþykktra umsókna hærri en sú fjárheimild sem er til staðar mun lánsfjárhæð hvers mótframlagsláns lækka hlutfallslega (pro rata).
12. Hvar sækir umsækjandi um skuldleysisvottorð?
 • Á veffanginu https://www.skatturinn.is/vottord-um-skuldleysi má finna leiðbeiningar um það. Umsækjendur geta pantað skuldleysisvottorð í gegnum http://www.island.is og er vottorðið sent í pósthólf umsækjanda.
13. Getur umsækjandi sótt um mótframlagslán án þess að hafa fengið lánveitingu frá fjárfesti?
 • Já, svo lengi sem yfirlýsing frá fjárfesti liggur fyrir, á formi sem aðgengilegt er hjá Nýsköpunarsjóði, þar sem fjárfestir  skuldbundur sig til þess að veita umsækjanda fjármagn í formi lánsfjár eða hlutafjár. Mótframlagslán verður síðan ekki greitt fyrr en að umsækjandi sýnir fram á að honum hafi borist fjármögnun frá fjárfesti sem er a.m.k. jafnhá mótframlagsláni.
14. Hvað gildir ef umsækjandi hefur nú þegar fengið lánveitingu frá fjárfesti og hef áhuga á því að sækja um mótframlagslán?
 • Hafi fjárfesting þegar átt sér stað, þ.e. að umsækjanda hafi nú þegar borist fjármagn frá fjárfesti, skulu upplýsingar um það fylgja með umsókn. Lánveiting skal eigi hafa borist fyrr heldur en frá og með 1. mars 2020 og skal vera í formi lánsfjár eða hlutafjár fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og mótframlagslán sem er sótt um.
15. Hvað gerist ef það kemur í ljós að umsækjandi uppfyllir ekki skilyrðin eftir að hafa fengið úthlutað mótframlagslán?
 • Umsækjandi ábyrgist í umsókn sinni að allar upplýsingar sem veittar eru í umsókn og fylgigögnum séu réttar. Komi í ljós að upplýsingar hafi ekki verið réttar, er kröfuhafa heimilt að gjaldfella skuldabréfið samkvæmt skilmálum þess.
 • Við gjaldfellingu er kröfuhafa heimilt að breyta lánsfjárhæðinni, auk áfallinna vaxta, í hluti í umsækjanda í stað þess að fá lánsfjárhæðina endurgreidda.
 • Umsækjandi gengst undir þá skuldbindingu samkvæmt skilmálum skuldabréfsins að tilkynna kröfuhafa ef upp koma aðstæður er valdið geta gjaldfellingu skuldabréfsins.
16. Þegar mótframlagslán er samþykkt, þarf umsækjandi eitthvað að aðhafast í tengslum við lánveitinguna sem umsækjanda hafði þegar verið veitt.
 • Sé fjármögnun frá fjárfesti í formi lánsfjár skal hún vera í formi breytanlegs skuldabréfs en formið er aðgengilegt hjá Nýsköpunarsjóði. Því þurfa umsækjandi og fjárfestir að skilmálabreyta skilmálum láns en form að skilmálabreytingu er aðgengilegt hjá Nýsköpunarsjóði.
17. Getur framlag fjárfesta komið frá fleirum en einum aðila?
 • Já, framlagið, hvort sem það er í formi hlutafjár eða lánsfjár, getur verið frá fleirum en einum aðila en samtalan þarf að vera að lágmarki kr. 25.000.000,-
18. Hvaða fjárhæð skal umsækjandi leggja til grundvallar þegar heimild hluthafafundar er fengin fyrir útgáfu breytanlegs skuldabréfs og hlutafjáraukningu ef það kemur til pro-rata lækkunar við úthlutun mótframlagslána?
 • Þegar óskað er eftir heimild hluthafafundar skal miða við þá fjárhæð sem tiltekin var í umsókn. Þannig er tryggt að ef breytingar verða á úthlutaðri fjárhæð mótframlagslána, til lækkunar eða hækkunar, svo sem í þeim tilvikum þegar pro-rata lækkun hefur átt sér stað (sem kann að ganga til baka ef aðrir umsækjendur falla síðar meir út úr umsóknarferlinu), þá nái heimildin ávallt að minnsta kosti til þeirrar fjárhæðar sem upphaflega var sótt um.
19. Hvað gerist ef umsækjandi fer í fjármögnun eftir að mótframlagslán er úthlutað?
 • Breytirétturinn í skuldabréfinu virkjast við hverja fjármögnun sem farið í meðan skuldabréfið er í gildi. Umsækjandi hefur þó rétt á því að greiða upp lánið, auk vaxta, innan 12 mánaða frá útgáfu þess, eftir þann tíma þarf samþykki kröfuhafa. Sjá ákvæði 5.1.1 og 3.3 í skuldabréfi.
 • Nýting breytiréttar og uppgreiðsla láns eftir 12 mánuði yrði þá bæði samningsatriði við NSA.
20. Réttur til að breyta skuldinni í hluti skv. 5. kafla skuldabréfsins.
 • Undirmálsgreinar ákvæðis 5.1. í skuldabréfi kveða á um atriði sem virkja breytiréttinn og er þar að grunni til m.v. að rétturinn verði virkur við ákvörðun hluthafa um hækkun hlutafjárs, eða sambærilega skuldbindingu um aukningu hlutafé.
 • Eftir gjalddaga, eða við gjaldfellingu skuldabréfsins skv. 8 kafla þess, er kröfuhafa heimilt skv. ákvæðum 5.1.4. og 5.1.5. að breyta skuldinni í hluti á genginu 1 kr/hlut. Þessi ákvæði eru hugsuð til þrautavara og koma ekki til nema einhver af gjaldfellingarákvæðum 8. kafla skuldabréfsins eigi við, s.s. þegar skuldabréfið er runnið út án samtala, eða án samnings um framlengingu eða umbreytingu skuldar. Tilgangur ákvæðisins er að hvetja skuldara til virks samtals um frágang eða framlengingu skuldar.
21. Hvers vegna þarf að skipta út skuldabréfi frá einkafjárfesti til samræmis við form skuldabréfs á heimasíðu?
 • Við mótun á umgjörð mótframlagslána þurfti að gæta að ríkisstyrkjarreglum EES-samningsins við veitingu slíkra lána fyrir ríkisfé, sérstaklega í þeim tilvikum þegar móttakendur fjármuna standa höllum fæti.
 • Þessu fyrirkomulagi er einnig ætlað að tryggja að fjárfestir (einkafjármögnun) og NSA (ríkisfjármögnun) standi jafnfætis hvað varðar rétt til breytingar í hlutafé. Grundvöllur mótframlagslána út frá lögunum er að jafnræðis sé gætt á milli mótframlagsláns og lánsfjármögnunar frá fjárfesti/fjárfestum.
22. Uppfylla lán frá einkafjárfestum sem eru á lægri vöxtum en 10% skilmála Stuðnings-Kríu?
 • Einkafjárfestir velur vexti og Nýsköpunarsjóður speglar þá almennt, en þó verða vextir Nýsköpunarsjóðs aldrei lægri en 10%
 • Ekki er gerð athugasemd við það að kröfuhafi semji við einkafjárfesta um lægri vexti en 10%