Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn 24. maí 2018. Á fundinum flutti Baldur Thorlacius, viðskiptastjóri hjá Nasdaq First North erindi um þau tækifæri sem felast í skráningu smærri fyrirtækja á First North.  Baldur fór yfir hindranir sem oft koma fyrst upp í hugann við hugsanlega skráningu, fór yfir reynslu Svía af þessu og þann mikla ávinning við fjármögnun sprotafyrirtækja sem skráning á markaðinn getur haft í för með sér.  Þá greindi Baldur frá sérstöku verkefni hjá Nasdaq sem kallast “Næsta skref“ og lýtur að því að undirbúa félög undir skráningu á First North markaðinn.  Hann hvatti fyrirtæki til að kynna sér málið og vera í sambandi við sig ef áhugi væri á þátttöku í verkefninu.

Á fundinum spjölluðu Jónsi Stefánsson, aðstoðarforstjóri skýjaþjónustu Netapp og Guðmundur Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Kjölur fjárfestingarfélag við Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Icelandic Startups um vegferð Greenqloud til NetApp. Í viðtalinu komu fram þær áskoranir sem fyrirtækið og Kjölur stóðu frammi fyrir í vegferðinni en verkefnið tók bæði lengri tíma og þurfti meira fjármagn en upphaflega var gert ráð fyrir auk þess sem fyrirtækið breytti um stefnu við ráðningu Jónsa. Með góðu tengslaneti, mikilli vinnu og því að byggja upp samstarf við helstu aðila á þessu sviði var grunnurinn lagður fyrir sölu fyrirtækisins til bandaríska hugbúnaðarrisans NetApp árið 2017.