Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tók þátt í evrópsku viðskiptaráðstefnunni hub.berlin dagana 10. og 11. apríl síðastliðinn. Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, var þáttakandi í pallborðsumræðum að beiðni Bitkom sem er skipulagsaðili hub.berlin.

Umræðuefnið var aðkoma hins opinbera að nýsköpun. Aðrir þátttakendur voru Pål T. Næss, framkvæmdastjóri hjá Innovation Norway, Charles Ng, aðstoðar framkvæmdastjóri Invest Hong Kong og Nikki Dean sem stjórnaði umræðum.

Skemmtilegar og fjörugar umræður urðu um nýsköpunarumhverfið almennt, skipulagningu þess, möguleika í fjármögnun nýrra fyrirtækja, hvernig megi laða hæft fólk til starfa hjá sprotafyrirtækjum og hvaða leiðir hið opinbera getur farið til að styrkja sprotaumhverfið og nýsköpun. Einnig var rætt um samstarfi milli landa. Samstarf norðurlandana var sérstaklega nefnt í því samhengi og þá með tilvísun til Hong Kong en Nordic Innovation opnaði nýlega nýsköpunarmiðstöð (e. Innovation House) í Hong Kong.

Aðkoma Nýsköpunarsjóðs á hub.berlin var fyrir milligöngu íslenska sendiráðsins í Berlín. Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, og Ruth Bobrich viðskiptafulltrúi voru meðal gesta á ráðstefnunni.

Hér er hægt að sjá stutt myndband um hub.berlin :

A Look Back at #hubberlin 2019

Nánar um hub.berlin:

hub.berlin er gagnvirk evrópsk viðskiptaráðstefna fyrir þá sem starfa við hönnun og framleiðslu í stafrænum iðnaði. Ráðstefnan samanstendur af fyrirlestrum og umræðu, gagnvirkum námskeiðum og lifandi tækni. hub.berlin 2019 var haldin af þýsku samtökunum Bitkom, sem er samstarfsvettvangur stafrænna fyrirtækja í Þýskalandi. Yfir 2.500 fyrirtæki eiga aðild að Bitkom. Yfir 5.000 gestir víðs vegar að úr heiminum tóku þátt í ráðstefnunni í ár.