Mótframlagslán

Nýsköpunarsjóði hefur verið falið að annast framkvæmd mótframlagslána sem eru liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Aðgerðin felur í sér veitingu mótframlagslána gegn framlagi fjárfesta sem nýtt verði sem rekstrarfjármögnun viðkomandi fyrirtækja.

Tilgangur

Mótframlagslán eru hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að mæta neikvæðum efnahagslegum afleiðingum COVID-19-faraldursins. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að efla nýsköpun og tryggja rekstrargrundvöll sprota- og nýsköpunarfyrirtækja.

Nánar um tilgang lánanna

Töluverð röskun hefur orðið á starfsemi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja um þessar mundir líkt og víða í atvinnulífinu. Allmörg dæmi eru um að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki standi nú frammi fyrir vanda sem beinlínis má rekja til skertra möguleika þeirra til að afla sér rekstrarfjármögnunar af völdum kórónuveirufaraldursins. Vandi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja er að vissu leyti frábrugðinn öðrum fyrirtækjum en þeim má í grófum dráttum skipta í tvo meginhópa.

Annars vegar er um að ræða félög sem enn eru í hönnunar- og þróunarferli og eru ekki farin að afla sér tekna en standa nú frammi fyrir nýrri óvissu um fjármögnun vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu. Hér er t.d. um að ræða félög sem unnið hafa að því um langt skeið að tryggja fjármögnun til þróunar og stækkunar en fá nú tilkynningar frá fjárfestum um frestun á öllum ákvörðunum um nýjar skuldbindingar á meðan áhrifin af kórónuveirufaraldrinum ganga yfir.

Hins vegar er um að ræða félög sem hafa hafið sölu- og markaðssetningu en eru enn ef til vill með neikvætt fjárflæði. Slík félög reiða sig á hraðan tekjuvöxt til þess að stemma stigu við fjármagnsþörf en forsendur fyrir slíkum vexti eru í mörgum tilvikum brostnar, hið minnsta tímabundið, vegna faraldursins. Viðskiptavinir afþakka söluheimsóknir, fyrirtæki og einstaklingar halda að sér höndum og tekjumyndun seinkar. Truflun á áætluðum vexti tekna kemur hart niður á þeim sprotafyrirtækjum og setur aukna pressu á nýja fjármögnun og getur stofnað framtíð fyrirtækjanna í hættu af ástæðum sem þau geta ekki haft áhrif á.

Stuðningur stjórnvalda við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki er því mikilvægur þáttur í viðspyrnu atvinnulífsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins og aðgerðir stjórnvalda miða að því að styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í gegnum erfiða tíma líkt og nú eru uppi.

Í því skyni hafa stjórnvöld ákveðið að koma til móts við slík fyrirtæki með mótframlagi í samvinnu við fjárfesta, en sú aðgerð veitir einnig mikilvægan stuðning við fjárfestingarumhverfið hér á landi sem stjórnvöld munu styðja við á næstu árum með það að markmiði að hér verði til alþjóðlega samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Kjör lánanna

Mótframlagslán verða í formi skuldabréfa með breytirétt í hlutafé og veitt til skamms tíma. Almennt er gert ráð fyrir að kjör mótframlagslána svo sem vextir, lánstími, breytiréttur og önnur kjör verði þau sömu og fjárfestirinn er tilbúinn að veita fyrirtækinu.

Lánin skulu þó að lágmarki bera eftirfarandi kjör:

 • Vextir séu ekki lægri en 10%
 • Lánstími sé ekki lengri en 36 mánuðir
 • Lánsupphæð á bilinu 25 til 70 m.kr. *)

Hafi fjárfestir veitt félaginu fjármögnun frá 1. mars 2020 í formi hlutafjáraukningar, skulu lágmarkskjör gilda fyrir mótframlagslán til félagsins.

Nánari upplýsingar um kjör lánanna má sjá á flipanum form af breytanlegu skuldabréfi hér á síðunni.

*) Reynist eftirspurn sprota- og nýsköpunarfyrirtækja eftir mótframlagslánum meiri en sú fjárheimild sem er til grundvallar aðgerðinni mun lánsfjárhæð hvers mótframlagsláns lækka hlutfallslega (pro rata).

Skilyrði og kröfur

Meginforsenda mótframlagslána er að fjárfestir sé tilbúinn til að veita fyrirtækinu fjármögnun og gert er ráð fyrir að lánsfjárhæð, lánstími og önnur kjör mótframlagslánsins verði þau sömu og fjárfestirinn er tilbúinn að veita fyrirtækinu. Með þessu er tryggt að mótframlagslánin verði veitt á markaðskjörum en þó verður kveðið á um ákveðin lágmarkskjör sem mótframlagslán verða veitt á, ef einkafjármögnun reynist á sérstaklega góðum kjörum sem endurspegla ekki markaðsforsendur. Mótframlagslánin munu ekki standa þeim fyrirtækjum til boða sem geta ekki aflað sér fjármagns frá fjárfesti til grundvallar mótframlagsláni.

Nánar um skilyrði fyrir lántöku

Mótframlagslán verða aðeins veitt ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

 1. Að fullnægjandi umsókn hafi verið skilað á umsóknareyðublaði, innan auglýsts umsóknarfrests.
 2. Að umsókn sé studd þeim gögnum sem tilgreind eru.
 3. Að umsækjandi sé félag sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ber fulla og ótakmarkaða skattskyldu í skilningi laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hér á landi.
 4. Að umsækjandi sé með innan við 50 stöðugildi þann 1. mars 2020 og ársveltu innan við 500 milljónir króna á árinu 2019.
 5. Að umsækjandi sýni fram á að hafa á árunum 2018, 2019 og/eða 2020 tryggt sér fjármögnun í formi hlutafjár eða lánsfjár sem nemi a.m.k. 40 m.kr.
 6. Að umsækjandi hafi ekki verið skráður á skipulegan verðbréfamarkað, í skilningi laga nr. 110/2007 um kauphallir, eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF), í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
 7. Að umsækjandi hafi
  1. hlotið staðfestingu Rannís skv. 5. gr. laga nr. 152/2009 á árinu 2019, eða
  2. hlotið styrk frá Tæknisþróunarsjóði á árunum 2017 til 2020.
 8. Að umsækjandi hafi frá 1. mars 2020 ekki greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum umsækjanda lán eða aðrar greiðslur sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstri. Með nákomnum aðila er átt við nákominn aðila í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Í umsóknareyðublaði sem umsækjandi undirritar er yfirlýsing um að framangreint skilyrði sé uppfyllt.
 9. Að umsækjandi sé með hreint skuldleysisvottorð frá Skattinum, þ.e. sé ekki í vanskilum á opinberum sköttum og gjöldum og hafi ekki verið í vanskilum við lánastofnun lengur en í 90 daga á umsóknardegi. Í umsóknareyðublaði sem umsækjandi undirritar er yfirlýsing um að framangreint skilyrði sé uppfyllt.
 10. Að umsækjandi hafi frá og með 1. mars 2020 tryggt einkafjármögnun (þ.e. fjármögnun sem kemur ekki frá íslenska ríkinu, sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum) í formi lánsfjár eða hlutafjár að a.m.k. sömu fjárhæð og mótframlagslán sem sótt er um. Sé fjármögnun í formi lánsfjár skal mótframlagslán veitt á sömu kjörum m.t.t. vaxta og lánatímabils. Lánsfjármögnun skal að vera í formi skuldabréfs með breytirétti, sem finna má á heimasíðu sjóðsins (sjá form af fjárfestaskuldabréfi á heimasíðu). Loforð um fjárfestingu skal eigi bundin öðrum fyrirvörum en að umsókn um mótframlagslán sé samþykkt og vera í samræmi við form sem birt er á heimasíðu sjóðsins (sjá form af yfirlýsingu fjárfestis).
 11. Eftir að umsækjanda hefur verið tilkynnt um að umsókn sé samþykkt, en áður en mótframlagslán er veitt, skal umsækjandi sýna sannanlega fram á, með nægjanlegum hætti að mati lánanefndar, að eftirfarandi hafi átt sér stað innan 4 vikna frá móttöku tilkynningar um að umsókn hafi verið samþykkt:
  1. að umsækjandi sýni fram á að hluthafafundur umsækjanda hafi samþykkt að gefa út skuldabréf með breytirétti og breyta samþykktum sínum.
  2. að umsækjandi sýni fram á að viðeigandi breytingar á samþykktum hans hafi verið skráðar hjá fyrirtækjaskrá, og eftir atvikum hlutafjárhækkun vegna hlutafjárframlags fjárfestis,
  3. að umsækjandi sýnir fram á að honum hafi borist fjármögnun frá fjárfesti sem er a.m.k. jafnhá mótframlagsláni.
Með umsókn skulu eftirfarandi gögn fylgja:
 • Fullnægjandi staðfestingu á skráningu félags í hlutafélagaskrá, s.s. með vottorði frá fyrirtækjaskrá.
 • Gildandi samþykktir umsækjanda.
 • Ársreikningur félagsins vegna ársins 2019. Liggi hann ekki fyrir skal leggja fram ársreikning vegna 2018.
 • Staðfestingu á skuldbindingu fjárfestis um að leggja umsækjanda til fjármagn, í formi hlutafjár eða lánsfjár, að a.m.k. sömu fjárhæðar og mótframlagslánið sem sótt er um og ekki fyrir lægri fjárhæð en kr. 25.000.000,- eða staðfestingu á því að slík fjárfesting hafi þegar átt sér stað og miðað við að umsækjandi hafi frá og með 1. mars 2020 tryggt einkafjármögnun. Með umsóknargögnum hér fyrir neðan er form af yfirlýsingu fjárfestis sem skal fylgja með umsókn.
 • Staðfestingu á því að umsækjandi hafi annað hvort hlotið staðfestingu Rannís skv. 5. gr. laga nr. 152/2009 á árinu 2019, eða hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði á árunum 2017 til 2020.
 • Staðfestingu á því að umsækjandi sé með hreint skuldleysisvottorð frá Skattinum, þ.e. sé ekki í vanskilum á opinberum sköttum og gjöldum, og hafi ekki verið í vanskilum við lánastofnun lengur en í 90 daga á umsóknardegi. Vottorð skal ekki vera eldra en frá 1. júní 2020.

Umsóknarferli og tímarammi

Hægt er að sækja um mótframlagslán á tímabilinu
16. júlí 2020 til og með 10. september 2020. 

Umsókn ásamt fylgigögnum skal senda á netfangið motframlagslan@nyskopun.is

Afgreiðsla umsókna um mótframlagslán.

Lánanefnd mótframlagslána hefur ákveðið að umsóknir verða afgreiddar eins og þær berast og munu fyrirtæki sem sækja um verða látin vita um leið og nefndin hefur afgreitt hvort umsókn hafi verið samþykkt eður ei.
Þar sem upphæð mótframlagslána getur breyst vegna fjölda umsókna og/eða upphæða verður ekki hægt að staðfesta upphæð lána fyrr en að umsóknartíma liðnum.

Nýjar samþykktir umsækjanda.

Að gefnu tilefni er rétt að árétta að samþykkt (ákvörðun) hluthafafundar um töku mótframlagsláns og fjárfestaláns (ef við á), eins og hún er ákveðin á hluthafafundi, þarf að taka í heild sinni upp í samþykktir umsækjenda. Leiðir þetta af áskilnaði 31. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 47. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, þar sem gerð er krafa um að tiltekin atriði séu tilgreind í samþykkt hluthafafundar um töku skuldabréfaláns og að sú samþykkt sé tekin upp í samþykktir. Sökum þessa er tiltekið í drögum að fundargerð sem birt er á heimasíðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins að samþykktina skuli taka upp í samþykktir félagsins. Ekki er fullnægjandi í þessu efni ef einungis heimild stjórnar til að auka hlutafé til að mæta skuldbindingum samkvæmt breytanlegum skuldabréfum er tekin upp í samþykktir.

Þess skal getið að samþykkt hluthafafundar má taka hvar sem er upp í samþykktir, þar með talið í viðauka við þær (s.s. í bráðabirgðaákvæði), svo lengi sem tiltekið væri í meginmáli samþykkta að viðaukar og/eða bráðabirgðaákvæði við samþykktirnar teljist hluti þeirra.

Nánari upplýsingar:

Umsóknareyðublað
Form af yfirlýsingu fjárfestis
Form af breytanlegu skuldabréfi

Form af fjárfestaskuldabréfi (PDF)
Form af fjárfestaskuldabréfi (Word)
Form af fundargerð hluthafafundar