Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stóð nýlega fyrir heimsókn fjölda aðila til Stokkhólms. Tilgangur ferðarinnar var að kynna fyrir aðilum nýsköpunarumhverfi Svíþjóðar og skráningu sprotafyrirtækja í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Góð þátttaka var í ferðinni en í hana fóru rúmlega 30 manns. Ferðin tengdist verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs, Nasdaq á Íslandi, KPMG, Íslandsbanka og Logos um undirbúning sprotafyrirtækja að skráningu á First North á Íslandi. Þátttakendur í ferðinni komu víða að og sendu 13 fyrirtæki fulltrúa sína auk aðila frá stuðningsumhverfinu s.s. Nýsköpunarmiðstöð og Icelandic Startups.

Þátttakendur hittu fjölda aðila sem kynntu nýsköpunarumhverfið í Svíþjóð. Þátttakendur sóttu fyrirlestra og fengu kynningar meðal annars hjá Epicenter, Vinnova og Industrifonden auk þess að heimsækja Nasdaq kauphöllina í Stokkhólmi. Það var samdóma álit þátttakenda að mikið væri hægt að læra af Svíum og stuðningsumhverfi nýsköpunar mjög til fyrirmyndar í Svíþjóð. Epicenter og Vinnova fræddu gesti um stuðning við sprotafyrirtæki og skölun og var að heyra á gestum að þjónusta beggja aðila væri mjög áhugaverð og gagnleg. Einnig kom fram mikill áhugi á Nordic Scalers verkefninu sem hefur verið unnið af Epicenter fyrir Nordic Innovation.

Mikilvægur hluti ferðarinnar var heimsókn til Nasdaq í Stokkhólmi en þar fengu gestir kynningar og fyrirlestra um skráningu á First North í Svíþjóð. Fram kom í máli þeirra sem fluttu erindi að mikil hreyfing er á sænska markaðnum og telja menn það megi að hluta rekja til þess að almenningur í Svíþjóð fjárfestir töluvert í skráðum félögum. Það skýrist meðal annars af því að almenningur nýtur skattaafsláttar í formi fyrirkomulags sem sett hefur verið upp meðal annars af bönkum í Svíþjóð til að auðvelda almenningi að fjárfesta.