Hugbúnaðarfélögin Klappir grænar lausnir hf. og Stiki ehf. hafa undirritað samkomulag um samruna félaganna. Félögin hafa átt farsælt samstarf og sjá margvíslegan ávinning af nánara samstarfi. Við samrunann munu Klappir yfirtaka rekstur Stika og fá eigendur Stika afhent hlutabréf í Klöppum. Starfsmenn sameinaðs félags verða um 30 talsins.
Markmiðið er að efla nýsköpun í upplýsingatækni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þá treystir samruninn betur forsendur alþjóðlegrar dreifingar á hugbúnaði fyrirtækjanna en hugbúnaðalausnir þeirra vinna allar að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.

Klappir bjóða hugbúnaðarlausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem eru meðal allra fremstu upplýsingakerfa sinnar tegundar í heiminum. Stiki, sem er öryggisvottað fyrirtæki, hefur um árabil unnið að hugbúnaðargerð á sviði áhættustjórnunnar, upplýsingaöryggis, heilsumats og þjónustu við heilbrigðisgeirann. Hugbúnaðarlausnir Stika munu að loknum samruna bætast við lausnaframboð Klappa. Þannig verða RAI heilsumatskerfi Stika og Risk Management Studio færð yfir í lausnagrunn Klappa.

Stiki hefur verið í eigu Svönu Helenar Björnsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda Stika, Bjarna Þórs Björnssonar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Rekstrartekjur Stika á árinu 2018 voru 75 m.kr. Klappir eru skráðar á First North hlutabréfamarkað Kauphallar Íslands.

Í þessum viðskiptum er Stiki metið á 122,5 milljónir króna og gengi bréfa í Klöppum er 15. Eigendur Stika fá greitt með hlutabréfum í B-flokki í Klöppum sem gefin verða út að loknu samrunaferlinu, samtals 7.891.378 hlutir. Þá er gerð upp skuld Stika við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með útgáfu á hlutafé í sama flokki, samtals 288.622 hlutir. Vegna samrunans munu Klappir gefa út samtals 8.180.000 hluti og verður heildarfjöldi hluta í félaginu þá 133.680.000. Fyrrum eigendur Stika skuldbinda sig til að eiga bréfin í Klöppum í amk. þrjú ár.