Huld sem var ráðin framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs vorið 2017 er reyndur stjórnandi með fjölbreytta starfsreynslu úr einkageiranum og hjá hinu opinbera. Hún starfaði sem forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda og sjónskerta frá 2009 til 2017. Þá var hún settur forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins 2015-2016.
Á árabilinu 1993-2008 starfaði Huld hjá hátæknifyrirtækinu Össuri hér á landi og erlendis við ýmis stjórnunarstörf, meðal annars sem framkvæmdastjóri yfir framleiðslu og dreifingu fyrir Norður-Ameríku, viðskiptastjóri, kynningarstjóri og gæðastjóri. Meðfram störfum sínum hjá Össuri var Huld verkefnastjóri í Bosníu-Herzegóvínu í þróunarverkefni í samvinnu við utanríkisráðuneytið 1995-2003.
Huld lærði ensku við Háskóla Íslands, er með BA gráðu í alþjóðlegum samskiptum frá University of Sussex í Bretlandi, MIB í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og diplóma á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Huld situr í stjórnum Frumtaks, Mentor, Florealis, Kara connect og Icelandic Startups. Auk þess er hún tengiliður sjóðsins við Genís og Stika.