Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn, 9. maí 2019. Rekstur ársins 2018 gekk vel, staða sjóðsins góð og góður árangur náðist á árinu í sölu eigna.

Á árinu 2018 tók sjóðurinn þátt í tveimur mikilvægum fjárfestingum, sem voru fyrstu fjárfestingar sjóðsins í nokkur ár. Um er að ræða fjárfestingar í lyfjafyrirtækinu Florealis og í fyrirtækinu Ankeri Solutions sem starfar á alþjóðlegum skipamarkaði. Þá hélt sjóðurinn áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í hlutafjáraukningu fyrirtækjanna Aktheliu, AGR, Dohop og 3Z.

Sjóðurinn náði jafnframt góðum árangri í sölu eigna á árinu. Þannig má nefna sölu á hlutum í hátæknifyrirtækinu Völku og allt hlutafé í Gagnavörslunni ehf., Admit ehf. og Auris ehf. Í lok árs 2018 voru hlutir í 24 fyrirtækjum í eignasafni Nýsköpunarsjóðs og ásamt eignarhlutum í þremur sjóðum.

Hagnaður af rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins nam á árinu tæpum 39 milljónum króna, samanborið við tap upp á 595 milljónir króna árið áður sem skýrðist af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingarverkefna. Rekstrargjöld lækkuðu úr 149 milljónum króna í 107 milljónir, eða um 28% milli ára og munar þar mestu um minnkandi launakostnað vegna færri stöðugilda og minna af aðkeyptri þjónustu við fjárfestingarverkefni. Eigið fé sjóðsins nam í árs lok um 4,1 milljarði króna sem er sambærilegt við fyrra ár. Fjármunatekjur voru jákvæðar að fjárhæð 146 milljóna króna á árinu, samanborið við 447 milljóna króna tap á árinu 2017. Lánveitingar sjóðsins námu 159 milljónum króna og á árinu var fjárfest í eignarhlutum í félögum fyrir samtals 339 milljónir króna. Þá námu seldir eignarhlutir 405 milljónum króna.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, lagði í ávarpi sínu á aðalfundinum áherslu á mikilvægi sjóðsins í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Þannig hefði sjóðurinn á liðnu ári tekið þátt í fjölmörgum verkefnum, bæði hér og eins erlendis í þeim tilgangi að opna aðgang að tækifærum og reynslu fyrir stofnendur sprotafyrirtækja. Auk þess eigi sjóðurinn í samstarfi við aðra í þeim tilgangi að undirbúa skráningu nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn.  

„Þetta fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Skráning í norrænar kauphallir opnar glugga til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti,“ sagði Huld í ávarpi sínu. Þá sagði Huld, að með skýrri áherslu á sölu eigna  væri opnað enn frekar á getu sjóðsins  til að taka þátt í fleiri nýjum verkefnum á komandi misserum.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum. Sigurður Hannesson, formaður stjórnar, ávarpaði einnig fundinn og tók fram að nýsköpun væri ein fjögurra stoða samkeppnishæfni ásamt menntun eða mannauð, efnislegum innviðum og starfsumhverfi fyrirtækja.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs er óbreytt á milli ára. Hana skipa þau Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson , Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.