Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafa gert með sér umsýslusamning um hluta af eignarhlutum ríkissjóðs í óskráðum félögum sem áður voru í umsýslu hjá Lindarhvoli ehf.

Sem hluti af stöðugleikaframlagi slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja í tengslum við undanþágu frá fjármagnshöftum fékk ríkissjóður í hendur ýmsar eignir, þ.m.t. óskráð hlutabréf í einkahlutafélögum. Fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkissjóðs, fer með eignarhald í umræddum félögum, öll óskráð einkahlutfélög sem teljast til íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Um er að ræða eignarhluti í Mentis Cura AS, Dohop og CRI (Carbon Recycling Interntational).

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á fyrir eignarhluti í bæði Mentis Cura A/S og Dohop.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með fjárfestingum í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

Í ljósi þess að framangreind fyrirtæki falla vel að fjárfestingarstefnu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins eru aðilar sammála um að gagnkvæmir hagsmunir liggi í því að Nýsköpunarsjóður taki að sér umsýslu umræddra eignarhluta.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með hlutina sem um eigin hluti væri að ræða en við umsýslu og sölu eignanna mun Nýsköpunarsjóður leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.

Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins segir það þjóna hagsmunum beggja aðila en ekki síst félögunum sem í hluta eiga.

,,Það er mikilvægt að sprotafyrirtæki búi við trausta umgjörð eigenda sinna. Það er sérsvið Nýsköpunarsjóðs að annast slíkt eignarhald og ég fagna þessu samstarfi við ráðuneytið“.