Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn 24. maí 2018. Á fundinum kom fram að sjóðurinn hefði farið í gegnum miklar breytingar á árinu 2017, töluverðar hreyfingar hefðu verið á eignasafni og nýr starfshópur tekið við rekstrinum.

Stærsta sala sjóðsins frá stofnun átti sér stað á árinu 2017, þegar hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud var selt til Netapp í Bandaríkjunum. Á árinu urðu töluverðar hreyfingar á eignasafni sjóðsins en auk sölu á Greenqloud voru félögin Fjölblendir og Gangverð seld. Þá tók sjóðurinn yfir starfsemi Gagnavörslunnar. Þá var fjárfest í viðbótareignarhlutum í Mentis Cura, Oxymap, Mint Solutions, Dohop og Völku.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, sagði í ávarpi sínu á aðalfundi að sjóðurinn hafi verið mikilvægur hlekkur í fjármögnun sprotafyrirtækja á Íslandi í 20 ár.

„Nýsköpunarsjóður hefur á þessum tíma staðið þétt við bakið á nýsköpun á Íslandi og fjárfest í yfir 150 fyrirtækjum með góðum árangri. Sjóðurinn hefur staðið af sér netbóluhrun og bankahrun og er sígrænn sjóður sem hefur nýtt upphaflegt fjármagn í 20 ár,“ sagði Huld.

Árið 2017 voru 31 fyrirtæki í eignarsafni Nýsköpunarsjóðs, þau veltu 5,3 milljörðum króna á árinu 2017 og höfðu 510 starfsmenn. Nýsköpunarsjóður er líka hluthafi í 3 sjóðum og velta fyrirtækja í eignarsafni þeirra sjóða var árið 2017, rúmir 10 milljarðar og hjá þeim störfuðu rúmlega 700 manns.

Á árinu 2017 nam tap af rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 595 milljónum króna. Það skýrist af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingarverkefna sem er myndaður til að mæta þeirri áhættu sem fylgir eignarhlutum, útlánum og fjárfestingum og því er um varúðarráðstöfun að ræða af hálfu sjóðsins. Einnig voru þrjú félög endanlega afskrifuð úr bókum sjóðsins á árinu.

Í ársskýrslu sjóðsins kom jafnframt fram að töluverðar breytingar hafi orðið á rekstri Nýsköpunarsjóðs á árinu 2017 og munar þar mest um breytingar á rekstrargjöldum en einnig rekstrartekjum. Rekstrargjöld sjóðsins lækkuðu um 4% milli ára en launakostnaður hækkaði um 13%. Um er að ræða einskiptiskostnað vegna starfsloka fyrrum starfsmanna. Fjárfestingarhreyfingar voru þó nokkrar árið 2017. Seldir eignarhlutir í félögum nam 692 milljónum króna og greitt var úr samlagssjóðum fyrir 79 milljónir króna.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um mikilvægt hlutverk sjóðsins og aðkomu hans að fyrstu skrefum nýsköpunarfyrirtækja. Almar Guðmundsson, fráfarandi formaður stjórnar ávarpaði einnig fundinn og sagðist ánægður með hvernig tekist hefði til við rekstur sjóðsins og breytingarnar á árinu 2017.

Þá var ný stjórn skipuð í lok fundarins. Hana skipa þau Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.