Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins haldin 24. maí 2017 í húsakynnum sjóðsins í Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um Nýsköpunarsjóð sem veigamikinn þátt í stuðningskerfi atvinnulífsins. Ráðherra sagði í erindi sínu að Nýsköpunarsjóður væri hluti af heildstæðri keðju og hennar huga þyrfti að standa vörð um upprunalegt og núverandi hlutverk sjóðsins þar sem áherslan er á frumstig fjárfestinga í sprotafyrirtækjum.  Þá tilkynnti ráðherra í erindi sínu um nýjan starfshóp sem verið væri að skipa og myndi fara yfir og greina núverandi stöðu og koma með tillögur um framtíðarfyrirkomulag sjóðsins.

Almar Guðmundsson formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs fjallaði um áskoranir ársins 2016 hjá sjóðnum. Árið hefði einkennst af breytingum á starfsmannahaldi, litlum tekjum af sölu eignarhluta og því ekki verið fjármagn til nýfjárfestinga. Einnig benti Almar á að mörg félög hafa verið lengi í eignasafni og sjóðurinn því á stundum komin út fyrir hlutverk sitt að styðja við sprotafyrirtæki á fyrstu stigum. Því þyrfti að endurskoða umgjörð sjóðsins og væri undirbúningur að slíkri vinnu hafin í góðu samstarfi við ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Þá þakkaði Almar starfsmönnum sem látið hafa af störfum hjá sjóðnum fyrir vel unnin störf og bauð nýjan framkvæmdastjóra, Huld Magnúsdóttur, velkomna til starfa.

Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, Huld Magnúsdóttir, fjallaði um afkomu og eignasafn sjóðsins en litlar breytingar voru á rekstri árið 2016 en hins vegar breytist afkoma sjóðsins töluvert. Tekjur sjóðsins lækkuðu um 59 milljónir króna á milli ára eða um 49%.  Sjóðurinn seldi eignarhluti í þremur félögum á árinu og söluhagnaður nam 25 milljónum króna. Árið 2016 var gjaldfært framlag í afskriftarreikning fjárfestingaverkefna 433 milljónir króna og tap ársins nam 529 milljónum króna samanborið við 19 milljón króna tap á fyrra ári. Breytingin á milli ára skýrist að mestu leyti af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingaverkefna sem er myndaður til að mæta þeirri áhættu sem fylgir eignarhlutum, útlánum og fjárfestingum og því er um varúðarráðstöfun að ræða.  Fjárfest var í eignarhlutum í félögum fyrir samtals 203 milljónir króna en þar af var lánum breytt í hlutafé fyrir 160 milljónir króna. Ekki var fjárfest í nýjum fyrirtækjum á árinu 2016.

Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups flutti erindi um þá þjónustu sem Icelandic Startups veita frumkvöðlum og fjallaði meðal annars um Gulleggið og þann frábæra árangur sem verkefnið hefur skilað.

Sigurður Björnsson sviðstjóri hjá Rannís og TÞS flutti erindi um fyrstu skref frumkvöðla og styrkjaumhverfið, hvernig það hefur vaxið undanfarin ár og hvaða árangur hefur náðst. Benti Sigurður á samfellu gagnvart sprotafyrirtækjum sem mörg hver hafa notið góðs af styrkjaumhverfi Rannís og TÞS og stuðnings Nýsköpunarsjóðs.