Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Margfeldiskosning í hlutafélögum

Margfeldiskosning í hlutafélögum tryggir rétt minnihlutans. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af þessari réttarbót þar sem engum öðrum Norðurlandaþjóðum hefur auðnast að fylgja okkur svo vitað sé. Áhugaverð grein eftir Friðrik Friðriksson fjármálastjóra Nýsköpunarsjóðs í Fréttablaðinu í dag.

Opið er fyrir umsóknir í Startup Reykjavík

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík fyrir sumarið 2019. Óskað er eftir umsóknum frá öflugum teymum með nýjar lausnir á sviði tækni og skapandi greina, ætlaðar alþjóðamarkaði. Umsóknarfrestur rennur út 27. mars n.k. en Startup Reykjavík hefst þann 10. júní og lýkur með kynningum verkefna fyrir fjárfestum þann 16. ágúst 2019.

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Icelandic Startups sem rekið hefur verið síðan 2012. Síðan þá hafa 68 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn og hafa þau samtals safnað 3,8 milljörðum í formi fjárfestinga og styrkja. Verkefnið var valið besti viðskipahraðall Norðurlandanna árið 2015 og besti viðskiptahraðallinn á Íslandi árin 2015, 2016, 2017 og 2018.

Smelltu hér til að senda inn þína umsókn!

Fræðslufundur Nýsköpunarsjóðs og FKA

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og nýsköpunarnefnd FKA héldu nýlega opin fræðslufund um sölumál erlendis. Á fundinum voru flutt 4 erindi þar sem fyrirlesarar sögðu frá reynslu sinni og deildu ýmis konar fróðleik um sölumál með fundarmönnum. Fyrirlesarar voru þær Helga Árnadóttir hjá Tulipop, Þorbjörg Arórsdóttir hjá Þorbergssetri, Eyrún Eggertsdóttir í Róró og Berglind Johansen hjá Bioeffect / Orf líftækni. Fundarstjóri var Margrét Sanders en Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs setti fundinn og bauð gesti velkomna.

Í máli fyrirlesara kom ýmislegt fróðlegt fram m.a. mikilvægi þess að sprotafyrirtæki, sem hyggja á sölu erlendis, tryggi góða dreifiaðila, verndi ímynd og vörumerki, hugsa vel fyrir útliti, gæðum og frágangi t.d. markaðsefnis og umbúða. Þá töldu þær mikilvægt að ná samningum við aðila sem væru sérhæfðir t.d. í „licensing“ og nýta sér sambönd við „áhrifavalda“. Markaðsstarf og sölustarf á netinu væri jafnframt mikilvægt. Fundargestir sem voru 60 á staðnum og 140 á netinu, vildu spyrja margra spurninga og komust færri að en vildu. Var gerður góður rómur að þessu framtaki FKA og Nýsköpunarsjóðs og ljóst að enn frekari umræða og fræðsla er nauðsynleg sprotafélögum um sölumál erlendis.

Umsóknarfrestur í Nordic Scalers er 3. mars 2019

Umsóknarfrestur í Nordic Scalers er 3. mars 2019.  Markmið verkefnis er að auka fjölda fyrirtækja sem ná þeim árangri að skala upp starfsemi sína.  Fyrirtæki sem valin eru í verkefnið fá aðgang að ráðgjöfum og verkfæri til að vinna að uppskölun fyrirtækisins, án endurgjalds. Góð reynsla hefur verið af verkefninu en fjögur fyrirtæki frá Íslandi hafa þegar tekið þátt í verkefninu. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér: Nordic Scalers by Nordic Innovation 2019.

Jólakveðjur

Nýsköpunarsjóður sendir öllum frumkvöðlum og öðrum velunnurum nýsköpunar okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári.  Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Ankeri Solutions ehf.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest í fyrirtækinu Ankeri Solutions fyrir alls 60 milljónir króna.

Ankeri starfar á alþjóðlegum skipamarkaði, sem er ábyrgur fyrir um 90% af öllum vöruflutningum heimsins. Markmið Ankeri að verða fyrsta fyrirtækið á markaði til að tengja saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig verður búinn til vettvangur, sem viðurkenndur er á alþjóðavísu, þar sem upplýsingum um hagkvæmni skipa er safnað saman og þær tengdar við frammistöðuábyrgðir í þeim samningum sem gilda milli eigenda og leigjenda skipa. Sú tækni sem Ankeri er að þróa miðar að því að eigendur skipa geti markaðsett þau út frá rekstrarhagkvæmni og að leigjendur geti valið skip út frá viðurkenndum upplýsingum um getu, rekstur, umhverfisáhrif og fleiri þætti.

Félagið Ankeri Solutions ehf. var stofnað árið 2016 af Leifi Kristjánssyni og Kristni Aspelund, sem saman hafa áratuga reynslu af markaðssetningu, hönnun og framleiðslu á hugbúnaðartækni í skiparekstri. Ankeri hlaut stuðning frá Átaki til atvinnusköpunar hjá Nýsköpunarmiðstöð og Sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði vorið 2017.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Með fjárfestingu í Ankeri lýsir Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins yfir tiltrú á verkefninu og þeim sem að því standa. Við höfum um árabil fylgst með þeim Leifi og Kristni í störfum sínum og vitum að þeir búa yfir mikilli þekkingu og reynslu af alþjóðlegum skipamarkaði. Með þeim tæknilausnum sem þeir eru nú að vinna að er það von okkar að enn á ný verði íslensk tæknifyrirtæki í farabroddi þegar kemur að alþjóðlegum úrlausnarefnum.“

Kristinn Aspelund, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Ankeri:

„Við í Ankeri erum spennt yfir því að fá Nýsköpunarsjóð til liðs við okkur í því að breyta samskiptum á milli skipaeigenda og leigjenda skipa. Fyrstu viðtökur markaðarins við Ankeri hafa verið framar björtustu vonum. Frá því fyrsta varan okkar fór í loftið fyrr í haust höfum við séð mikinn vöxt í notkun hennar. Því er það mikilvægt að geta tekið næstu skref í þróun Ankeris. Við hlökkum til að fá Nýsköpunarsjóð um borð með okkur að vinna að frekari vexti félagsins.“

Góð verkfærakista fyrir frumkvöðla

Handbók athafnamannsins um gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana eftir Pál Kr. Pálsson verkfræðing, fjallar um einfalda og handhæga „verkfærakistu“ til að nýta við gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana, arðsemisútreikninga, verðmats viðskiptatækifæra og kostnaðargreiningar. Handbók sem hentar frumkvöðlum vel. Hnitmiðaður ritdómur birtur í Fréttablaðinu þann 12. desember sl. eftir Friðrik Friðriksson fjármálastjóra Nýsköpunarsjóðs.

Nordic Innovation auglýsir útboð

Nordic Innovation leitar að aðila til að rannsaka hvað stuðlar að uppskölun fyrirtækja og hvaða hindranir liggja á þessu sviði.

Rannsóknin er hluti verkefninu Nordic Scalers sem Nordic Innovation stendur fyrir. Framtíðarsýn verkefnis er að Norðurlöndin verði leiðandi í heiminum í uppskölun fyrirtækja, ekki eingöngu sprotafyrirtækja. Markmiðið er að auka fjölda fyrirtækja sem nær þeim árangri að skala upp starfsemi sína. Til að ná þessu markmiði, er mikilvægt að skilja hvað liggur að baki þeim árangri sem fyrirtæki hafa náð í uppskölun og hvaða hindranir eru á veginum.

Nánari upplýsingar um útboðið má finna á vefsíðu Nordic Innovation. Útboðsfrestur er til 15. janúar 2019.

Kerecis fær Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018

Fyrirtækið Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem veitt var á Nýsköpunarþingi í dag. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Kerecis var stofnað 2011 og er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði. Kerecis hefur sett á markað afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Nýsköpunarsjóður kom að Kerecis 2010 og seldi 26% hlut sinn í félaginu 2014.

Ráðherra nýsköpunarmála heimsótti COOORI

Það var ánægjulegt fyrir Cooori að fá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferða- og nýsköpunarmála í heimsókn til fyrirtækisins í Tókýó. Þeir Dr. Arnar Þór Jensson og Dr. Eyþór Eyjólfsson tóku vel á móti ráðherranum og kynntu henni starfsemina. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun félagsins árið 2011 og á tæpan 26% hlut í því.

Uppfjöllun um heimsóknina má finna á vef Viðskiptablaðsins, http://www.vb.is/…/heimsotti-starfstod-cooori-i-jap…/149939/

Nýsköpunarsjóður stuðningsaðili STARTUPDOCS

Erik Byrenius, fjárfestir innleiðir STARTUPDOCS hér á landi. Markmið STARTUPDOCS er að hjálpa frumkvöðlum að sinna starfi sínu í stað þess að eyða tíma og peningum í samningsgerð og samningaviðræður.

Á vefsíðunni startupdocs.is geta fyrirtæki fengið aðgang, endurgjaldslaust, að stöðluðum samningsformum, t.d. skilmálum fyrir fjárfestingu, hluthafasamningi, áskriftarsamningi, ráðningarsamningum o.fl.

STARTUPDOCS var upphaflega innleitt í Svíþjóð 2015 og er núna jafnframt aðgengilegt í Danmörku og Noregi til viðbótar við Ísland.

Skjölin í STARTUPDOCS byggja á sænskri fyrirmynd og hafa verið aðlöguð fyrir íslensk sprotafyrirtæki af lögmannsstofunni Lagahvoll.

Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja

Fjáðu fjármagn, ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja og nýskapandi verkefna, verður haldin þann 4. október 2018 kl. 9-12 á Hilton Reykjavík Nordica.

Meðal fyrirlesara verða Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis, Hekla Arnardóttir, Founding Partner hjá Crowberry Capital, Guðmundur Hafsteinsson, vörustjóri hjá Google, Ásdís Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Atvinnumálum kvenna, Ingi Rafn Sigurðsson, stofnandi Karolina Fund og Paula Gould, sérfræðingur í markaðssamskiptum.

Seinni hluta dags, kl. 13-15, verða vinnustofur, þátttakendum að kostnaðarlausu.
Aðeins 20 sæti per vinnustofu. Ein vinnustofa per þátttakanda. Skráningar á vinnustofur fara fram við miðakaup.

Ingi Rafn Sigurðsson hjá Karolina Fund mun leiða vinnustofu í gerð árangursríkra hópfjármögnunarherferða og þær Þórunn Jónsdóttir og Hanna Kristín Skaftadóttir hjá Poppins & Partners munu leiða vinnustofur í styrkumsóknaskrifum og gerð fjárfestakynninga.

Bakhjarlar ráðstefnunnar eru Atvinnumál kvenna, Frumtak, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Svanni lánatryggingarsjóður.

Samstarfsaðilar eru Evris, Icelandic Startups, Karolina Fund og Startup Iceland.

Fundarstjóri verður Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris.

Verð: 15.900 kr

Facebook/LinkedIn:
Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja. Fríar vinnustofur fyrir þau fyrstu sem skrá sig. Einungis 20 sæti í boði á hverja vinnustofu. Fáið miða hér: https://tix.is/is/event/6794/fa-u-fjarmagn-/

Twitter:
Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja. #frumkvöðlar #fjármögnun https://tix.is/is/event/6794/fa-u-fjarmagn-/

Þrenna hjá Nýsköpunarsjóði

Við hjá Nýsköpunarsjóði óskum Kaptio til hamingju með Vaxtarsprotann sem veittur var félaginu í dag. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim eldmóði, krafti og vinnusemi sem einkennir störf þeirra Arnars Laufdal og Ragnars Fjölnissonar. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun Kaptio árið 2014 og á 14,5% hlut í félaginu.

Það var einnig ánægjulegt að Gangverk undir forystu þeirra Helga Hermanssonar og Atla Þorbjörnssonar hlaut við sama tilefni viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Þar er á ferðinni spennandi verkefni sem enn á fullt inni. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun félagsins árið 2014.

Nú svo má nefna að Nýsköpunarsjóður kom að uppbyggingu á Kerecis, sem einnig hlaut viðurkenningu fyrir góðan vöxt í dag, en sjóðurinn seldi sinn hlut í félaginu árið 2014.

Það er mikil viðurkenning fyrir Nýsköpunarsjóð að hafa komið að fjármögnun á þremur af þeim fjórum verkefnum sem hér hlutu viðurkenningu fyrir góðan vöxt.
https://www.mbl.is/…/vaxtarsproti_arsins_jok_veltu_um_211_…/

Nýsköpunarsjóður fer með umsýslu hluta eigna Lindarhvols

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafa gert með sér umsýslusamning um hluta af eignarhlutum ríkissjóðs í óskráðum félögum sem áður voru í umsýslu hjá Lindarhvoli ehf.

Sem hluti af stöðugleikaframlagi slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja í tengslum við undanþágu frá fjármagnshöftum fékk ríkissjóður í hendur ýmsar eignir, þ.m.t. óskráð hlutabréf í einkahlutafélögum. Fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkissjóðs, fer með eignarhald í umræddum félögum, öll óskráð einkahlutfélög sem teljast til íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Um er að ræða eignarhluti í Mentis Cura AS, Dohop og CRI (Carbon Recycling Interntational).

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á fyrir eignarhluti í bæði Mentis Cura A/S og Dohop.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með fjárfestingum í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

Í ljósi þess að framangreind fyrirtæki falla vel að fjárfestingarstefnu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins eru aðilar sammála um að gagnkvæmir hagsmunir liggi í því að Nýsköpunarsjóður taki að sér umsýslu umræddra eignarhluta.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með hlutina sem um eigin hluti væri að ræða en við umsýslu og sölu eignanna mun Nýsköpunarsjóður leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.

Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins segir það þjóna hagsmunum beggja aðila en ekki síst félögunum sem í hluta eiga.

,,Það er mikilvægt að sprotafyrirtæki búi við trausta umgjörð eigenda sinna. Það er sérsvið Nýsköpunarsjóðs að annast slíkt eignarhald og ég fagna þessu samstarfi við ráðuneytið“.

Samstarf Nýsköpunarsjóðs og Nasdaq Iceland

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Nasdaq Iceland hafa gert með sér samkomulag sem miðar að því að undirbúa skráningu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn. Nýsköpunarsjóður er samstarfsaðili Nasdaq í þessu verkefni ásamt Logos, KPMG og Íslandsbanka.

Markmið samstarfsins er að fjölga tækifærum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, ýmist til að afla fjármagns til vaxtar eða selja eignarhluti.

Fyrirtæki sem huga að skráningu fara í gegnum árs langt skráningarferli sem hefst haustið 2018. Þar sækja forsvarsmenn þeirra mánaðarlega fyrirlestra og vinnustofur ásamt öðrum þátttakendum til þess að undirbúa mögulega skráningu á First North.

Þátttaka er ekki háð fyrirætlunum um skráningu á First North, en fyrirtækin þurfa að vera opin fyrir þeim möguleika. Nasdaq Iceland telur að undirbúningurinn  muni reynast fyrirtækjunum dýrmæt fjárfesting í formi reynslu og þekkingar, hvort sem hún leiðir til skráningar eða ekki. Haldnir verða fyrirlestrar og vinnustofur um einstaka þætti í rekstrinum og er ráðgert að Nasdaq, samstarfsaðilar og gestafyrirlesarar sjái um fyrirlestra og vinnustofur.

Um mitt ár 2019 er gert ráð fyrir að fyrirtækin verði búin að gera úttekt á eigin rekstri og framkvæma þær breytingar sem við á fyrir skráningu á First North.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, fagnar samstarfinu við Nasdaq Iceland. ,,Samstarfið við Nasdaq Iceland fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Með skráningu á First North opnast gluggi til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti. First North er tilvalinn markaður fyrir  óskráð félög sem eru komin skemur á veg en þau sem sækja um fulla skráningu í Kauphöll,“ segir Huld.

Nýsköpunarsjóður og Matís ohf. undirrita viljayfirlýsingu um samstarf

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Matís ohf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði nýsköpunartækifæra.

Báðir aðilar hafa hlutverk samkvæmt lögum sem horfir til bætts hags á víðum grundvelli og framþróunar á sviði sprota og nýsköpunar. Samstarfið miðar að því að treysta þetta hlutverk.

Samstarf af þessum toga er nýtt af nálinni þar sem koma saman annars vegar leiðandi rannsóknarfyrirtæki í líftækni- og matvælaiðnaði og hins vegar fjárfestingarsjóður á sviði sprota/nýsköpunarfjárfestinga.

Báðir aðilar binda vonir við að ný fjárfestingarverkefni spretti af samstarfinu og sprotafyrirtækjum fjölgi á því sviði sem Matís ohf. sérhæfir sig sérstaklega,  í sjávarútvegi og í landbúnaði og öðrum hlutum lífhagkerfisins.

Bæði félögin eru í eigu hins opinbera og vinna í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.  Þau hafa einnig mikla tengingu við háskólaumhverfið í landinu með ýmsu móti.

Nánar um félögin:

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá veitir sjóðurinn lán samhliða kaupum á eignarhlutum. Í starfsemi sinni tekur Nýsköpunarsjóður mið af stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þá er sjóðnum heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjármögnunar.

Matís

Hlutverk Matís er að efla verðmætasköpun í lífhagkerfinu, stuðla að bættu matvælaöryggi og bættri lýðheilsu. Matís hefur á liðnum árum lagt áherslu á umbyltandi nýsköpun og rannsóknir og hefur í því augnamiði m.a. komið á fót sprotafyrirtækjum. Alþjóðlegar tengingar Matís eru umfangsmiklar og hefur félagið verið leiðandi í sókn íslensks þekkingarsamfélags í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Upplýsingar um samstarfið veita Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.