Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Góð staða hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn, 9. maí 2019. Rekstur ársins 2018 gekk vel, staða sjóðsins góð og góður árangur náðist á árinu í sölu eigna.

Á árinu 2018 tók sjóðurinn þátt í tveimur mikilvægum fjárfestingum, sem voru fyrstu fjárfestingar sjóðsins í nokkur ár. Um er að ræða fjárfestingar í lyfjafyrirtækinu Florealis og í fyrirtækinu Ankeri Solutions sem starfar á alþjóðlegum skipamarkaði. Þá hélt sjóðurinn áfram að styðja við núverandi eignasafn á árinu og tók þátt í hlutafjáraukningu fyrirtækjanna Aktheliu, AGR, Dohop og 3Z.

Sjóðurinn náði jafnframt góðum árangri í sölu eigna á árinu. Þannig má nefna sölu á hlutum í hátæknifyrirtækinu Völku og allt hlutafé í Gagnavörslunni ehf., Admit ehf. og Auris ehf. Í lok árs 2018 voru hlutir í 24 fyrirtækjum í eignasafni Nýsköpunarsjóðs og ásamt eignarhlutum í þremur sjóðum.

Hagnaður af rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins nam á árinu tæpum 39 milljónum króna, samanborið við tap upp á 595 milljónir króna árið áður sem skýrðist af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingarverkefna. Rekstrargjöld lækkuðu úr 149 milljónum króna í 107 milljónir, eða um 28% milli ára og munar þar mestu um minnkandi launakostnað vegna færri stöðugilda og minna af aðkeyptri þjónustu við fjárfestingarverkefni. Eigið fé sjóðsins nam í árs lok um 4,1 milljarði króna sem er sambærilegt við fyrra ár. Fjármunatekjur voru jákvæðar að fjárhæð 146 milljóna króna á árinu, samanborið við 447 milljóna króna tap á árinu 2017. Lánveitingar sjóðsins námu 159 milljónum króna og á árinu var fjárfest í eignarhlutum í félögum fyrir samtals 339 milljónir króna. Þá námu seldir eignarhlutir 405 milljónum króna.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, lagði í ávarpi sínu á aðalfundinum áherslu á mikilvægi sjóðsins í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Þannig hefði sjóðurinn á liðnu ári tekið þátt í fjölmörgum verkefnum, bæði hér og eins erlendis í þeim tilgangi að opna aðgang að tækifærum og reynslu fyrir stofnendur sprotafyrirtækja. Auk þess eigi sjóðurinn í samstarfi við aðra í þeim tilgangi að undirbúa skráningu nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn.  

„Þetta fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Skráning í norrænar kauphallir opnar glugga til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti,“ sagði Huld í ávarpi sínu. Þá sagði Huld, að með skýrri áherslu á sölu eigna  væri opnað enn frekar á getu sjóðsins  til að taka þátt í fleiri nýjum verkefnum á komandi misserum.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum. Sigurður Hannesson, formaður stjórnar, ávarpaði einnig fundinn og tók fram að nýsköpun væri ein fjögurra stoða samkeppnishæfni ásamt menntun eða mannauð, efnislegum innviðum og starfsumhverfi fyrirtækja.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs er óbreytt á milli ára. Hana skipa þau Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson , Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.

Nýsköpunarsjóður tók þátt í hub.berlin

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tók þátt í evrópsku viðskiptaráðstefnunni hub.berlin dagana 10. og 11. apríl síðastliðinn. Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, var þáttakandi í pallborðsumræðum að beiðni Bitkom sem er skipulagsaðili hub.berlin.

Umræðuefnið var aðkoma hins opinbera að nýsköpun. Aðrir þátttakendur voru Pål T. Næss, framkvæmdastjóri hjá Innovation Norway, Charles Ng, aðstoðar framkvæmdastjóri Invest Hong Kong og Nikki Dean sem stjórnaði umræðum.

Skemmtilegar og fjörugar umræður urðu um nýsköpunarumhverfið almennt, skipulagningu þess, möguleika í fjármögnun nýrra fyrirtækja, hvernig megi laða hæft fólk til starfa hjá sprotafyrirtækjum og hvaða leiðir hið opinbera getur farið til að styrkja sprotaumhverfið og nýsköpun. Einnig var rætt um samstarfi milli landa. Samstarf norðurlandana var sérstaklega nefnt í því samhengi og þá með tilvísun til Hong Kong en Nordic Innovation opnaði nýlega nýsköpunarmiðstöð (e. Innovation House) í Hong Kong.

Aðkoma Nýsköpunarsjóðs á hub.berlin var fyrir milligöngu íslenska sendiráðsins í Berlín. Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín, og Ruth Bobrich viðskiptafulltrúi voru meðal gesta á ráðstefnunni.

Hér er hægt að sjá stutt myndband um hub.berlin :

https://www.hub.berlin/news/look-back-hubberlin-2019

Nánar um hub.berlin:

hub.berlin er gagnvirk evrópsk viðskiptaráðstefna fyrir þá sem starfa við hönnun og framleiðslu í stafrænum iðnaði. Ráðstefnan samanstendur af fyrirlestrum og umræðu, gagnvirkum námskeiðum og lifandi tækni. hub.berlin 2019 var haldin af þýsku samtökunum Bitkom, sem er samstarfsvettvangur stafrænna fyrirtækja í Þýskalandi. Yfir 2.500 fyrirtæki eiga aðild að Bitkom. Yfir 5.000 gestir víðs vegar að úr heiminum tóku þátt í ráðstefnunni í ár.

Lauf Forks eykur hlutafé um 300 milljónir

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf Forks hf. hefur tryggt sér ríflega 300 milljónir króna í nýtt hlutafé. Hlutafjáraukningin er leidd af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og er ætlað að standa undir áframhaldandi uppbyggingu félagsins á Bandaríkjamarkaði.

Lauf Forks var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Reiðhjól Lauf Forks eru nú þegar seld í ríflega 70 verslunum vestanhafs en einnig með milligöngu dreifingaraðila um heim allan. Þá bjóða aðrir hjólaframleiðendur upp á demparagaffla frá Lauf Forks á reiðhjólum sínum.

Lauf Forks var upphaflega stofnað utan um uppfinningu léttasta demparagaffals í heimi, sem býr yfir svokallaðri blaðfjöðrun, og nýtur nú einkaleyfis á öllum helstu framleiðslu- og sölumörkuðum. Gaffallinn hefur rutt brautina fyrir reiðhjól undir vörumerki Lauf, sem nú eru til sölu af tveimur tegundum sem hvora um sig má fá í mismunandi útfærslum. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit, sem helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa undanfarið ausið lofi. Hins vegar Lauf Anywhere, sem er alhliða reiðhjól, sem var nýlega kynnt til sögunnar og hefur þegar hlotið mjög jákvæðar viðtökur. Það skartar nýju stýri sem gefur létta fjöðrun og er önnur tveggja uppfinninga félagsins sem eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. Umboðsaðili Lauf forks á Íslandi er hjólaverslunin Kría.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:
„Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróun og vexti Lauf Forks á undanförnum árum og við höfum trú á því að fyrirtækið eigi eftir að vaxa enn frekar. Reiðhjól þeirra seljast vel í út um allan heim og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Starfsemi Lauf Forks er dæmi um vel heppnaða nýsköpun og með auknu hlutafé fær félagið tækifæri til að sækja fram á nýjum mörkuðum.“

Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Forks:
„Reiðhjól Lauf Forks hafa fengið góðar viðtökur í Bandaríkjunum og því ákjósanlegt að leggja áherslu á frekar vöxt þar að sinni. Markaðurinn vestanhafs er risavaxinn og malarhjólreiðar njóta þar sívaxandi vinsælda á kostnað hefðbundinna götuhjólreiða. Þróunin á Evrópumarkaði er skemmra á veg komin en félagið vinnur að samstarfssamningi við öflugan dreifingaraðila um markaðssetningu og sölu reiðhjólanna þar á næstu misserum.“

Kynntu sér skráningu sprotafyrirtækja í Svíþjóð

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stóð nýlega fyrir heimsókn fjölda aðila til Stokkhólms. Tilgangur ferðarinnar var að kynna fyrir aðilum nýsköpunarumhverfi Svíþjóðar og skráningu sprotafyrirtækja í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Góð þátttaka var í ferðinni en í hana fóru rúmlega 30 manns. Ferðin tengdist verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs, Nasdaq á Íslandi, KPMG, Íslandsbanka og Logos um undirbúning sprotafyrirtækja að skráningu á First North á Íslandi. Þátttakendur í ferðinni komu víða að og sendu 13 fyrirtæki fulltrúa sína auk aðila frá stuðningsumhverfinu s.s. Nýsköpunarmiðstöð og Icelandic Startups.

Þátttakendur hittu fjölda aðila sem kynntu nýsköpunarumhverfið í Svíþjóð. Þátttakendur sóttu fyrirlestra og fengu kynningar meðal annars hjá Epicenter, Vinnova og Industrifonden auk þess að heimsækja Nasdaq kauphöllina í Stokkhólmi. Það var samdóma álit þátttakenda að mikið væri hægt að læra af Svíum og stuðningsumhverfi nýsköpunar mjög til fyrirmyndar í Svíþjóð. Epicenter og Vinnova fræddu gesti um stuðning við sprotafyrirtæki og skölun og var að heyra á gestum að þjónusta beggja aðila væri mjög áhugaverð og gagnleg. Einnig kom fram mikill áhugi á Nordic Scalers verkefninu sem hefur verið unnið af Epicenter fyrir Nordic Innovation.

Mikilvægur hluti ferðarinnar var heimsókn til Nasdaq í Stokkhólmi en þar fengu gestir kynningar og fyrirlestra um skráningu á First North í Svíþjóð. Fram kom í máli þeirra sem fluttu erindi að mikil hreyfing er á sænska markaðnum og telja menn það megi að hluta rekja til þess að almenningur í Svíþjóð fjárfestir töluvert í skráðum félögum. Það skýrist meðal annars af því að almenningur nýtur skattaafsláttar í formi fyrirkomulags sem sett hefur verið upp meðal annars af bönkum í Svíþjóð til að auðvelda almenningi að fjárfesta.

Margfeldiskosning í hlutafélögum

Margfeldiskosning í hlutafélögum tryggir rétt minnihlutans. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af þessari réttarbót þar sem engum öðrum Norðurlandaþjóðum hefur auðnast að fylgja okkur svo vitað sé. Áhugaverð grein eftir Friðrik Friðriksson fjármálastjóra Nýsköpunarsjóðs í Fréttablaðinu í dag.

Opið er fyrir umsóknir í Startup Reykjavík

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík fyrir sumarið 2019. Óskað er eftir umsóknum frá öflugum teymum með nýjar lausnir á sviði tækni og skapandi greina, ætlaðar alþjóðamarkaði. Umsóknarfrestur rennur út 27. mars n.k. en Startup Reykjavík hefst þann 10. júní og lýkur með kynningum verkefna fyrir fjárfestum þann 16. ágúst 2019.

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Icelandic Startups sem rekið hefur verið síðan 2012. Síðan þá hafa 68 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn og hafa þau samtals safnað 3,8 milljörðum í formi fjárfestinga og styrkja. Verkefnið var valið besti viðskipahraðall Norðurlandanna árið 2015 og besti viðskiptahraðallinn á Íslandi árin 2015, 2016, 2017 og 2018.

Smelltu hér til að senda inn þína umsókn!

Fræðslufundur Nýsköpunarsjóðs og FKA

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og nýsköpunarnefnd FKA héldu nýlega opin fræðslufund um sölumál erlendis. Á fundinum voru flutt 4 erindi þar sem fyrirlesarar sögðu frá reynslu sinni og deildu ýmis konar fróðleik um sölumál með fundarmönnum. Fyrirlesarar voru þær Helga Árnadóttir hjá Tulipop, Þorbjörg Arórsdóttir hjá Þorbergssetri, Eyrún Eggertsdóttir í Róró og Berglind Johansen hjá Bioeffect / Orf líftækni. Fundarstjóri var Margrét Sanders en Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs setti fundinn og bauð gesti velkomna.

Í máli fyrirlesara kom ýmislegt fróðlegt fram m.a. mikilvægi þess að sprotafyrirtæki, sem hyggja á sölu erlendis, tryggi góða dreifiaðila, verndi ímynd og vörumerki, hugsa vel fyrir útliti, gæðum og frágangi t.d. markaðsefnis og umbúða. Þá töldu þær mikilvægt að ná samningum við aðila sem væru sérhæfðir t.d. í „licensing“ og nýta sér sambönd við „áhrifavalda“. Markaðsstarf og sölustarf á netinu væri jafnframt mikilvægt. Fundargestir sem voru 60 á staðnum og 140 á netinu, vildu spyrja margra spurninga og komust færri að en vildu. Var gerður góður rómur að þessu framtaki FKA og Nýsköpunarsjóðs og ljóst að enn frekari umræða og fræðsla er nauðsynleg sprotafélögum um sölumál erlendis.

Umsóknarfrestur í Nordic Scalers er 3. mars 2019

Umsóknarfrestur í Nordic Scalers er 3. mars 2019.  Markmið verkefnis er að auka fjölda fyrirtækja sem ná þeim árangri að skala upp starfsemi sína.  Fyrirtæki sem valin eru í verkefnið fá aðgang að ráðgjöfum og verkfæri til að vinna að uppskölun fyrirtækisins, án endurgjalds. Góð reynsla hefur verið af verkefninu en fjögur fyrirtæki frá Íslandi hafa þegar tekið þátt í verkefninu. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér: Nordic Scalers by Nordic Innovation 2019.

Jólakveðjur

Nýsköpunarsjóður sendir öllum frumkvöðlum og öðrum velunnurum nýsköpunar okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári.  Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Ankeri Solutions ehf.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest í fyrirtækinu Ankeri Solutions fyrir alls 60 milljónir króna.

Ankeri starfar á alþjóðlegum skipamarkaði, sem er ábyrgur fyrir um 90% af öllum vöruflutningum heimsins. Markmið Ankeri að verða fyrsta fyrirtækið á markaði til að tengja saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig verður búinn til vettvangur, sem viðurkenndur er á alþjóðavísu, þar sem upplýsingum um hagkvæmni skipa er safnað saman og þær tengdar við frammistöðuábyrgðir í þeim samningum sem gilda milli eigenda og leigjenda skipa. Sú tækni sem Ankeri er að þróa miðar að því að eigendur skipa geti markaðsett þau út frá rekstrarhagkvæmni og að leigjendur geti valið skip út frá viðurkenndum upplýsingum um getu, rekstur, umhverfisáhrif og fleiri þætti.

Félagið Ankeri Solutions ehf. var stofnað árið 2016 af Leifi Kristjánssyni og Kristni Aspelund, sem saman hafa áratuga reynslu af markaðssetningu, hönnun og framleiðslu á hugbúnaðartækni í skiparekstri. Ankeri hlaut stuðning frá Átaki til atvinnusköpunar hjá Nýsköpunarmiðstöð og Sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði vorið 2017.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Með fjárfestingu í Ankeri lýsir Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins yfir tiltrú á verkefninu og þeim sem að því standa. Við höfum um árabil fylgst með þeim Leifi og Kristni í störfum sínum og vitum að þeir búa yfir mikilli þekkingu og reynslu af alþjóðlegum skipamarkaði. Með þeim tæknilausnum sem þeir eru nú að vinna að er það von okkar að enn á ný verði íslensk tæknifyrirtæki í farabroddi þegar kemur að alþjóðlegum úrlausnarefnum.“

Kristinn Aspelund, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Ankeri:

„Við í Ankeri erum spennt yfir því að fá Nýsköpunarsjóð til liðs við okkur í því að breyta samskiptum á milli skipaeigenda og leigjenda skipa. Fyrstu viðtökur markaðarins við Ankeri hafa verið framar björtustu vonum. Frá því fyrsta varan okkar fór í loftið fyrr í haust höfum við séð mikinn vöxt í notkun hennar. Því er það mikilvægt að geta tekið næstu skref í þróun Ankeris. Við hlökkum til að fá Nýsköpunarsjóð um borð með okkur að vinna að frekari vexti félagsins.“

Góð verkfærakista fyrir frumkvöðla

Handbók athafnamannsins um gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana eftir Pál Kr. Pálsson verkfræðing, fjallar um einfalda og handhæga „verkfærakistu“ til að nýta við gerð rekstrar- og viðskiptaáætlana, arðsemisútreikninga, verðmats viðskiptatækifæra og kostnaðargreiningar. Handbók sem hentar frumkvöðlum vel. Hnitmiðaður ritdómur birtur í Fréttablaðinu þann 12. desember sl. eftir Friðrik Friðriksson fjármálastjóra Nýsköpunarsjóðs.

Nordic Innovation auglýsir útboð

Nordic Innovation leitar að aðila til að rannsaka hvað stuðlar að uppskölun fyrirtækja og hvaða hindranir liggja á þessu sviði.

Rannsóknin er hluti verkefninu Nordic Scalers sem Nordic Innovation stendur fyrir. Framtíðarsýn verkefnis er að Norðurlöndin verði leiðandi í heiminum í uppskölun fyrirtækja, ekki eingöngu sprotafyrirtækja. Markmiðið er að auka fjölda fyrirtækja sem nær þeim árangri að skala upp starfsemi sína. Til að ná þessu markmiði, er mikilvægt að skilja hvað liggur að baki þeim árangri sem fyrirtæki hafa náð í uppskölun og hvaða hindranir eru á veginum.

Nánari upplýsingar um útboðið má finna á vefsíðu Nordic Innovation. Útboðsfrestur er til 15. janúar 2019.

Kerecis fær Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018

Fyrirtækið Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem veitt var á Nýsköpunarþingi í dag. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Kerecis var stofnað 2011 og er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði. Kerecis hefur sett á markað afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Nýsköpunarsjóður kom að Kerecis 2010 og seldi 26% hlut sinn í félaginu 2014.

Ráðherra nýsköpunarmála heimsótti COOORI

Það var ánægjulegt fyrir Cooori að fá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferða- og nýsköpunarmála í heimsókn til fyrirtækisins í Tókýó. Þeir Dr. Arnar Þór Jensson og Dr. Eyþór Eyjólfsson tóku vel á móti ráðherranum og kynntu henni starfsemina. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun félagsins árið 2011 og á tæpan 26% hlut í því.

Uppfjöllun um heimsóknina má finna á vef Viðskiptablaðsins, http://www.vb.is/…/heimsotti-starfstod-cooori-i-jap…/149939/