Fréttir

Nýsköpunarsjóður

Kerecis fær Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018

Fyrirtækið Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem veitt var á Nýsköpunarþingi í dag. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Kerecis var stofnað 2011 og er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði. Kerecis hefur sett á markað afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

Nýsköpunarverðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Nýsköpunarsjóður kom að Kerecis 2010 og seldi 26% hlut sinn í félaginu 2014.

Ráðherra nýsköpunarmála heimsótti COOORI

Það var ánægjulegt fyrir Cooori að fá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferða- og nýsköpunarmála í heimsókn til fyrirtækisins í Tókýó. Þeir Dr. Arnar Þór Jensson og Dr. Eyþór Eyjólfsson tóku vel á móti ráðherranum og kynntu henni starfsemina. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun félagsins árið 2011 og á tæpan 26% hlut í því.

Uppfjöllun um heimsóknina má finna á vef Viðskiptablaðsins, http://www.vb.is/…/heimsotti-starfstod-cooori-i-jap…/149939/

Nýsköpunarsjóður stuðningsaðili STARTUPDOCS

Erik Byrenius, fjárfestir innleiðir STARTUPDOCS hér á landi. Markmið STARTUPDOCS er að hjálpa frumkvöðlum að sinna starfi sínu í stað þess að eyða tíma og peningum í samningsgerð og samningaviðræður.

Á vefsíðunni startupdocs.is geta fyrirtæki fengið aðgang, endurgjaldslaust, að stöðluðum samningsformum, t.d. skilmálum fyrir fjárfestingu, hluthafasamningi, áskriftarsamningi, ráðningarsamningum o.fl.

STARTUPDOCS var upphaflega innleitt í Svíþjóð 2015 og er núna jafnframt aðgengilegt í Danmörku og Noregi til viðbótar við Ísland.

Skjölin í STARTUPDOCS byggja á sænskri fyrirmynd og hafa verið aðlöguð fyrir íslensk sprotafyrirtæki af lögmannsstofunni Lagahvoll.

Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja

Fjáðu fjármagn, ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja og nýskapandi verkefna, verður haldin þann 4. október 2018 kl. 9-12 á Hilton Reykjavík Nordica.

Meðal fyrirlesara verða Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis, Hekla Arnardóttir, Founding Partner hjá Crowberry Capital, Guðmundur Hafsteinsson, vörustjóri hjá Google, Ásdís Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Atvinnumálum kvenna, Ingi Rafn Sigurðsson, stofnandi Karolina Fund og Paula Gould, sérfræðingur í markaðssamskiptum.

Seinni hluta dags, kl. 13-15, verða vinnustofur, þátttakendum að kostnaðarlausu.
Aðeins 20 sæti per vinnustofu. Ein vinnustofa per þátttakanda. Skráningar á vinnustofur fara fram við miðakaup.

Ingi Rafn Sigurðsson hjá Karolina Fund mun leiða vinnustofu í gerð árangursríkra hópfjármögnunarherferða og þær Þórunn Jónsdóttir og Hanna Kristín Skaftadóttir hjá Poppins & Partners munu leiða vinnustofur í styrkumsóknaskrifum og gerð fjárfestakynninga.

Bakhjarlar ráðstefnunnar eru Atvinnumál kvenna, Frumtak, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Svanni lánatryggingarsjóður.

Samstarfsaðilar eru Evris, Icelandic Startups, Karolina Fund og Startup Iceland.

Fundarstjóri verður Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris.

Verð: 15.900 kr

Facebook/LinkedIn:
Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja. Fríar vinnustofur fyrir þau fyrstu sem skrá sig. Einungis 20 sæti í boði á hverja vinnustofu. Fáið miða hér: https://tix.is/is/event/6794/fa-u-fjarmagn-/

Twitter:
Fáðu fjármagn! Ráðstefna um fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja. #frumkvöðlar #fjármögnun https://tix.is/is/event/6794/fa-u-fjarmagn-/

Þrenna hjá Nýsköpunarsjóði

Við hjá Nýsköpunarsjóði óskum Kaptio til hamingju með Vaxtarsprotann sem veittur var félaginu í dag. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim eldmóði, krafti og vinnusemi sem einkennir störf þeirra Arnars Laufdal og Ragnars Fjölnissonar. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun Kaptio árið 2014 og á 14,5% hlut í félaginu.

Það var einnig ánægjulegt að Gangverk undir forystu þeirra Helga Hermanssonar og Atla Þorbjörnssonar hlaut við sama tilefni viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Þar er á ferðinni spennandi verkefni sem enn á fullt inni. Nýsköpunarsjóður kom að fjármögnun félagsins árið 2014.

Nú svo má nefna að Nýsköpunarsjóður kom að uppbyggingu á Kerecis, sem einnig hlaut viðurkenningu fyrir góðan vöxt í dag, en sjóðurinn seldi sinn hlut í félaginu árið 2014.

Það er mikil viðurkenning fyrir Nýsköpunarsjóð að hafa komið að fjármögnun á þremur af þeim fjórum verkefnum sem hér hlutu viðurkenningu fyrir góðan vöxt.
https://www.mbl.is/…/vaxtarsproti_arsins_jok_veltu_um_211_…/

Nýsköpunarsjóður fer með umsýslu hluta eigna Lindarhvols

Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafa gert með sér umsýslusamning um hluta af eignarhlutum ríkissjóðs í óskráðum félögum sem áður voru í umsýslu hjá Lindarhvoli ehf.

Sem hluti af stöðugleikaframlagi slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja í tengslum við undanþágu frá fjármagnshöftum fékk ríkissjóður í hendur ýmsar eignir, þ.m.t. óskráð hlutabréf í einkahlutafélögum. Fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkissjóðs, fer með eignarhald í umræddum félögum, öll óskráð einkahlutfélög sem teljast til íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Um er að ræða eignarhluti í Mentis Cura AS, Dohop og CRI (Carbon Recycling Interntational).

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á fyrir eignarhluti í bæði Mentis Cura A/S og Dohop.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með fjárfestingum í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

Í ljósi þess að framangreind fyrirtæki falla vel að fjárfestingarstefnu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins eru aðilar sammála um að gagnkvæmir hagsmunir liggi í því að Nýsköpunarsjóður taki að sér umsýslu umræddra eignarhluta.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fer með hlutina sem um eigin hluti væri að ræða en við umsýslu og sölu eignanna mun Nýsköpunarsjóður leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.

Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins segir það þjóna hagsmunum beggja aðila en ekki síst félögunum sem í hluta eiga.

,,Það er mikilvægt að sprotafyrirtæki búi við trausta umgjörð eigenda sinna. Það er sérsvið Nýsköpunarsjóðs að annast slíkt eignarhald og ég fagna þessu samstarfi við ráðuneytið“.

Samstarf Nýsköpunarsjóðs og Nasdaq Iceland

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Nasdaq Iceland hafa gert með sér samkomulag sem miðar að því að undirbúa skráningu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á First North markaðinn. Nýsköpunarsjóður er samstarfsaðili Nasdaq í þessu verkefni ásamt Logos, KPMG og Íslandsbanka.

Markmið samstarfsins er að fjölga tækifærum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, ýmist til að afla fjármagns til vaxtar eða selja eignarhluti.

Fyrirtæki sem huga að skráningu fara í gegnum árs langt skráningarferli sem hefst haustið 2018. Þar sækja forsvarsmenn þeirra mánaðarlega fyrirlestra og vinnustofur ásamt öðrum þátttakendum til þess að undirbúa mögulega skráningu á First North.

Þátttaka er ekki háð fyrirætlunum um skráningu á First North, en fyrirtækin þurfa að vera opin fyrir þeim möguleika. Nasdaq Iceland telur að undirbúningurinn  muni reynast fyrirtækjunum dýrmæt fjárfesting í formi reynslu og þekkingar, hvort sem hún leiðir til skráningar eða ekki. Haldnir verða fyrirlestrar og vinnustofur um einstaka þætti í rekstrinum og er ráðgert að Nasdaq, samstarfsaðilar og gestafyrirlesarar sjái um fyrirlestra og vinnustofur.

Um mitt ár 2019 er gert ráð fyrir að fyrirtækin verði búin að gera úttekt á eigin rekstri og framkvæma þær breytingar sem við á fyrir skráningu á First North.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, fagnar samstarfinu við Nasdaq Iceland. ,,Samstarfið við Nasdaq Iceland fjölgar þeim tækifærum sem íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum gefst til að leita fjármögnunar. Með skráningu á First North opnast gluggi til Norðurlandanna með tilheyrandi möguleikum á fjármögnun og framtíðarvexti. First North er tilvalinn markaður fyrir  óskráð félög sem eru komin skemur á veg en þau sem sækja um fulla skráningu í Kauphöll,“ segir Huld.

Nýsköpunarsjóður og Matís ohf. undirrita viljayfirlýsingu um samstarf

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Matís ohf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði nýsköpunartækifæra.

Báðir aðilar hafa hlutverk samkvæmt lögum sem horfir til bætts hags á víðum grundvelli og framþróunar á sviði sprota og nýsköpunar. Samstarfið miðar að því að treysta þetta hlutverk.

Samstarf af þessum toga er nýtt af nálinni þar sem koma saman annars vegar leiðandi rannsóknarfyrirtæki í líftækni- og matvælaiðnaði og hins vegar fjárfestingarsjóður á sviði sprota/nýsköpunarfjárfestinga.

Báðir aðilar binda vonir við að ný fjárfestingarverkefni spretti af samstarfinu og sprotafyrirtækjum fjölgi á því sviði sem Matís ohf. sérhæfir sig sérstaklega,  í sjávarútvegi og í landbúnaði og öðrum hlutum lífhagkerfisins.

Bæði félögin eru í eigu hins opinbera og vinna í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.  Þau hafa einnig mikla tengingu við háskólaumhverfið í landinu með ýmsu móti.

Nánar um félögin:

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá veitir sjóðurinn lán samhliða kaupum á eignarhlutum. Í starfsemi sinni tekur Nýsköpunarsjóður mið af stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þá er sjóðnum heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjármögnunar.

Matís

Hlutverk Matís er að efla verðmætasköpun í lífhagkerfinu, stuðla að bættu matvælaöryggi og bættri lýðheilsu. Matís hefur á liðnum árum lagt áherslu á umbyltandi nýsköpun og rannsóknir og hefur í því augnamiði m.a. komið á fót sprotafyrirtækjum. Alþjóðlegar tengingar Matís eru umfangsmiklar og hefur félagið verið leiðandi í sókn íslensks þekkingarsamfélags í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Upplýsingar um samstarfið veita Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Skemmtileg og fræðandi erindi á ársfundi Nýsköpunarsjóðs

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn 24. maí 2018. Á fundinum flutti Baldur Thorlacius, viðskiptastjóri hjá Nasdaq First North erindi um þau tækifæri sem felast í skráningu smærri fyrirtækja á First North.  Baldur fór yfir hindranir sem oft koma fyrst upp í hugann við hugsanlega skráningu, fór yfir reynslu Svía af þessu og þann mikla ávinning við fjármögnun sprotafyrirtækja sem skráning á markaðinn getur haft í för með sér.  Þá greindi Baldur frá sérstöku verkefni hjá Nasdaq sem kallast “Næsta skref“ og lýtur að því að undirbúa félög undir skráningu á First North markaðinn.  Hann hvatti fyrirtæki til að kynna sér málið og vera í sambandi við sig ef áhugi væri á þátttöku í verkefninu.

Á fundinum spjölluðu Jónsi Stefánsson, aðstoðarforstjóri skýjaþjónustu Netapp og Guðmundur Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Kjölur fjárfestingarfélag við Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Icelandic Startups um vegferð Greenqloud til NetApp. Í viðtalinu komu fram þær áskoranir sem fyrirtækið og Kjölur stóðu frammi fyrir í vegferðinni en verkefnið tók bæði lengri tíma og þurfti meira fjármagn en upphaflega var gert ráð fyrir auk þess sem fyrirtækið breytti um stefnu við ráðningu Jónsa. Með góðu tengslaneti, mikilli vinnu og því að byggja upp samstarf við helstu aðila á þessu sviði var grunnurinn lagður fyrir sölu fyrirtækisins til bandaríska hugbúnaðarrisans NetApp árið 2017.

Skýrsla starfshóps yfir starfsemi Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins

Síðast liðið haust skipaði ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar starfshóp sem fara átti yfir starfsemi Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og koma með tillögur um framtíð sjóðsins.

Í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að mikilvægt sé að styðja við áframhaldandi rekstur NSA sem fjárfestingasjóðs á fyrstu stigum nýsköpunar.  Sérstaða sjóðsins þegar styrkja-umhverfinu sleppir var undirstrikuð. Í samantekt starfshópsins er einnig litið til lengri tíma markmiða og bent á mikilvægi þess að stefnumörkun fjárfestinga á sviði nýsköpunar verði skýrari og stoðkerfi við nýsköpun verði samhæft.  Auka þarf samvinnu milli opinberra aðila sem koma að nýsköpun og skýra betur hvar og hvernig hægt er að fá stuðning til nýsköpunar.  Aukin samvinna skapar meiri slagkraft þegar kemur að kynningum gagnvart erlendum fjárfestum en vöxtur fyrirtækja á erlendum mörkuðum er eitt af lengri tíma markmiðum fjárfestinga í nýsköpun.

Skýrslan var gefin út til undirritunar 1. mars 2018 og afhent ráðherra undirrituð af öllum í starfshópnum í apríl 2018.

Hér má nálgast skýrsluna.

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var haldinn 24. maí 2018. Á fundinum kom fram að sjóðurinn hefði farið í gegnum miklar breytingar á árinu 2017, töluverðar hreyfingar hefðu verið á eignasafni og nýr starfshópur tekið við rekstrinum.

Stærsta sala sjóðsins frá stofnun átti sér stað á árinu 2017, þegar hugbúnaðarfyrirtækið Greenqloud var selt til Netapp í Bandaríkjunum. Á árinu urðu töluverðar hreyfingar á eignasafni sjóðsins en auk sölu á Greenqloud voru félögin Fjölblendir og Gangverð seld. Þá tók sjóðurinn yfir starfsemi Gagnavörslunnar. Þá var fjárfest í viðbótareignarhlutum í Mentis Cura, Oxymap, Mint Solutions, Dohop og Völku.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, sagði í ávarpi sínu á aðalfundi að sjóðurinn hafi verið mikilvægur hlekkur í fjármögnun sprotafyrirtækja á Íslandi í 20 ár.

„Nýsköpunarsjóður hefur á þessum tíma staðið þétt við bakið á nýsköpun á Íslandi og fjárfest í yfir 150 fyrirtækjum með góðum árangri. Sjóðurinn hefur staðið af sér netbóluhrun og bankahrun og er sígrænn sjóður sem hefur nýtt upphaflegt fjármagn í 20 ár,“ sagði Huld.

Árið 2017 voru 31 fyrirtæki í eignarsafni Nýsköpunarsjóðs, þau veltu 5,3 milljörðum króna á árinu 2017 og höfðu 510 starfsmenn. Nýsköpunarsjóður er líka hluthafi í 3 sjóðum og velta fyrirtækja í eignarsafni þeirra sjóða var árið 2017, rúmir 10 milljarðar og hjá þeim störfuðu rúmlega 700 manns.

Á árinu 2017 nam tap af rekstri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 595 milljónum króna. Það skýrist af auknu framlagi í afskriftarreikning fjárfestingarverkefna sem er myndaður til að mæta þeirri áhættu sem fylgir eignarhlutum, útlánum og fjárfestingum og því er um varúðarráðstöfun að ræða af hálfu sjóðsins. Einnig voru þrjú félög endanlega afskrifuð úr bókum sjóðsins á árinu.

Í ársskýrslu sjóðsins kom jafnframt fram að töluverðar breytingar hafi orðið á rekstri Nýsköpunarsjóðs á árinu 2017 og munar þar mest um breytingar á rekstrargjöldum en einnig rekstrartekjum. Rekstrargjöld sjóðsins lækkuðu um 4% milli ára en launakostnaður hækkaði um 13%. Um er að ræða einskiptiskostnað vegna starfsloka fyrrum starfsmanna. Fjárfestingarhreyfingar voru þó nokkrar árið 2017. Seldir eignarhlutir í félögum nam 692 milljónum króna og greitt var úr samlagssjóðum fyrir 79 milljónir króna.

Á fundinum flutti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra erindi og fjallaði meðal annars um mikilvægt hlutverk sjóðsins og aðkomu hans að fyrstu skrefum nýsköpunarfyrirtækja. Almar Guðmundsson, fráfarandi formaður stjórnar ávarpaði einnig fundinn og sagðist ánægður með hvernig tekist hefði til við rekstur sjóðsins og breytingarnar á árinu 2017.

Þá var ný stjórn skipuð í lok fundarins. Hana skipa þau Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins starfsárið 2018-2019

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað stjórn Nýsköpunarsjóðs fyrir starfsárið 2018-2019.

Stjórnina skipa Áslaug Friðriksdóttir, Hákon Stefánsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sigurður Hannesson.

Ársfundur 2018

Ársfundur Nýsköpunarsjóðs verður haldinn fimmtudaginn 24. maí kl. 08.30-10.30 á CenterHótel Plaza, Aðalstræti 6, Reykjavík.

Nýsköpunarsjóður selur hlut sinn í Völku

Nýsköpunarsjóður selur hlut sinn í Gagnavörslunni

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur selt allt hlutafé í félaginu Gagnavörslunni ehf. til félagsins Kjalar fjárfestingarfélags ehf.  Kjölur er í fullri eigu Guðmundar I. Jónssonar og Þorláks Traustasonar.  Kjölur var leiðandi hluthafi í hugbúnaðarfyrirtækinu GreenQloud ehf. sem var selt til bandaríska stórfyritækisins NetApp sl. haust.

Gagnvarslan ehf. var reist á grunni Azazo sl. haust og hefur síðan þá verið í söluferli hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Þó nokkrir aðilar höfðu sýnt áhuga á því að kaupa félagið en niðurstaðan var að selja það til Kjalar. „Mikilvægt er að rekstrargrundvöllur félagsins verði tryggður og að félaginu komi fjársterkir aðilar með þekkingu á vöruframboði Gagnavörslunar“ segir Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins í fréttatilkynningu og bætir því við að hún telji félagið eiga bjarta framtíð með núverandi starfsmönnum og þeim metnaðarfulla hópi sem komi nú að rekstrinum.

Starfsemi Gagnavörslunnar skiptist í tvær meginstoðir; skjalastjórnunarhugbúnaðinn Azazo CoreData og vörslusetur áþreifanlegra gagna.

Lyfjafyrirtækið Florealis eykur hlutafé um tæpar 400 milljónir króna

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir hóp fjárfesta sem leggja Florealis til aukið fjármagn til uppbyggingar á verkefnum félagsins.

Lyfjafyrirtækið Florealis ehf. hefur lokið 390 milljóna króna hlutafjáraukningu með aðkomu nýrra fjárfesta. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir hóp fjárfesta sem leggja félaginu til fjármagn en auk sjóðsins taka einkafjárfestar og núverandi fjárfestahópur, Einvala fjárfesting, þátt í hlutafjáraukningunni.

Florealis þróar og markaðssetur skráð jurtalyf og lækningavörur. Fyrstu vörur félagins komu á markað á Íslandi á liðnu hausti. Félagið hefur gert samning við tvær stærstu apótekskeðjur Svíþjóðar um sölu á vörunum og koma þær á markað á næstu vikum. Fjármagnið verður nýtt til að styðja við markaðssetningu vörulínunnar á erlendum mörkuðum auk þess að bæta við nýjum lyfjum síðar á árinu.

„Það eru spennandi tímar framundan með aðkomu þessara öflugu fjárfesta,“ segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir forstjóri Florealis. „Viðtökurnar við okkar fyrstu lyfjum og lækningavörum hafa verið frábærar hér á Íslandi og við erum í startholunum með tveimur stærstu apótekskeðjum Norðurlandanna að markaðssetja vörulínuna í Svíþjóð á næstu vikum.“

„Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur verið leiðandi um langt árabil í fjármögnun sprotafyrirtækja og horfur eru bjartar fyrir sjóðinn á komandi árum,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. „Florealis fellur vel að fjárfestingarstefnu sjóðsins og við fögnum því að leiða öflugan hóp fjárfesta í þessu verkefni. Félagið er nú að fara í vaxtarferli eftir vel ígrundaða vöruþróun og uppbyggingu.“

Nú fást tvö jurtalyf (Lyngonia við þvagfærasýkingum hjá konum og Harpatinum við vægum gigtarverkjum) auk vörulínu við óþægindum og sýkingum á kynfærasvæði kvenna, frunsukrem og bólukrem í öllum helstu apótekum. Fljótlega er von á tveimur vörum til viðbótar og þrjú lyf til viðbótar eru í skráningarferli hjá lyfjayfirvöldum.

Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir ráðin fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði

Ólöf Vigdís starfaði hjá Lyfjaþróun ehf. í tvö ár þar sem hún hafði umsjón með samningum og einkaleyfum fyrirtækisins. Hún starfaði í átta ár hjá Einkaleyfastofunni þar sem hún gegndi ýmsum störfum m.a. lögfræði- og stjórnunarstörfum. Árið 2012 hóf Ólöf störf hjá Háskóla Íslands sem lögfræðingur á vísinda- og nýsköpunarsviði og sérfræðingur Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala í hugverkarétti auk þess að starfa sem framkvæmdastjóri Tæknigarðs og Tækniþróunar. Hjá Háskóla Íslands vann Ólöf Vigdís að hagnýtingu nýsköpunarverkefna, samningum auk þess að koma að stofnun og vinna með sprotafyrirtækjum skólans.

Ólöf Vigdís útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2001, öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi 2004, lauk námi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum 2006 og er að ljúka MS námi í verkefnisstjórnun frá Háskóla Íslands.

Örn Viðar Skúlason ráðinn fjárfestingastjóri hjá Nýsköpunarsjóði

Örn Viðar hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja.  Hann var framkvæmdastjóri markaðssviðs og aðstoðarforstjóri SÍF samstæðunnar á árunum 2000 – 2004 og leiddi m.a. stefnumótun og skipulagsmál.  Þá sat hann stjórnum nokkurra dótturfyrirtækja SÍF erlendis.  Hann var síðan framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi SÍF, hjá Iceland Seafood frá 2004 – 2005.  Frá árinu 2005 til 2008 var Örn Viðar forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar og fjárfestinga hjá SPRON, en deildin hafði með almenn kaup og sölu fyrirtækja að gera og stýrði stóru fasteignaverkefni í Berlín. Á sama tíma sat Örn í stjórnum nokkurra dótturfyrirtækja SPRON.  Frá 2008 til 2017 var Örn framkvæmdastjóri Proact heildverslunar.

Örn Viðar lauk prófi í Hagverkfræði frá Tækniháskólanum í Berlín og meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.