Eignasafn

Fjárfestingar

Frá stofnun sjóðsins hefur sjóðurinn komið að fjárfestingu í 155 fyrirtækjum og fjárfest fyrir samtals um 11 milljarða króna. Meðal þeirra fyrirtækja sem Nýsköpunarsjóður hefur fjárfest í og síðar selt sinn hlut eru Bláa lónið, Decode, Greenqloud, Clara, Betware, Kerecis, Hafmynd, Stjörnu-Oddi, Primex, Videntifier, Nikita, Metan og Taugagreining.

Eignasafn

Í eignasafni sjóðsins í dag eru á þriðja tug fyrirtækja. Heildarvelta þessara fyrirtækja er um 3,3 milljarðar króna og starfa þar um 385 starfsmenn. Útflutningur fyrirtækjanna er um 2,4 milljarðar króna eða rúm 70% af veltu þeirra.  

Fyrirtæki

3Z

3Z sprettur upp úr öflugu rannsóknarumhverfi innan tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og er bakgrunnur stofnenda í taugasálfræði og taugavísindum. Fyrirtækið hefur það að markmiði að markaðssetja aðferð þar sem sebrafiskar eru notaðir til skimunar á sameindum sem hafa áhrif á miðtaugakerfið og stunda þannig skipulega leit að miðtaugakerfislyfjum framtíðarinnar. Aðferðirnar eru mun ódýrari, hraðvirkari og mannúðlegri en þær sem mest eru notaðar í dag. 3Z stefnir á að bjóða skimunarþjónustuna til fyrirtækja í lyfjaþróun.

www.3Z.is

Karl Ægir Karlsson, lektor við tækni og verkfræðideild HR og Haraldur Þorsteinsson stofnuðu 3Z árið 2008 ásamt Háskólanum í Reykjavík. Perla Björk Egilsdóttir er framkvæmdastjóri félagsins. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2012.

 

AGR Dynamics

AGR þróar og selur lausnir til hagræðingar í rekstri aðfangakeðjunnar. Félagið var stofnað árið 1998 í framhaldi af rannsóknarverkefnum við verkfræðideild Háskóla Íslands. Lausnir AGR hafa verið innleiddar hjá yfir 100 fyrirtækjum í 20 löndum, en helstu markaðssvæði eru Ísland, Bretland og Norðurlöndin. Fyrirtækið rekur þrjár skrifstofur undir merkjum AGR, á Íslandi, Bretlandi og Danmörku, en vinnur einnig náið með mörgum þekktum alþjóðlegum endursöluaðilum. Meðal hugbúnaðarlausna eru AGR Innkaup sem reiknar út sjálfvirkar innkaupatillögur út frá söluspám sem leitast við að lágmarka það fé sem bundið er í birgðum á sama tíma og að viðhalda viðunandi þjónustustigi.

www.agr.is

AGR var stofnað árið 1998 af Gísla Reynissyni, Hálfdáni Guðna Gunnarssyni, Páli Jenssyni og Sveini Stefáni Hannessyni. Framkvæmdastjóri félagsins er Haukur Þór Hannesson. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2000

Akthelia

Akthelia Pharmaceuticals þróar sýklalyf sem innihalda vissar smásameindir sem geta örvað meðfæddar varnir líkamans og þannig unnið bug á smitsjúkdómum. Lyfjaþróunin byggist á niðurstöðum rannsókna við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Lyf þessi verka á annan hátt en hefðbundin sýklalyf og er því um að ræða nýja nálgun á meðferð gegn smitsjúkdómum. Lyfin gætu m.a. reynst gagnleg gegn sýklastofnum sem eru ónæmir fyrir hefðbundnum sýklalyfjum. Akthelia hefur nú sótt um tvö einkaleyfi til verndar tækninni sem lyfjaþróunin byggist á. Í gangi eru forklínískar og klínískar rannsóknir sem prófa virkni tækninnar gegn sýkingum í meltingavegi og öndunarfærum. Leitað er að samstarfsaðilum til að fjármagna áframhaldandi lyfjaþróun.

www.akthelia.is

Akthelia Pharmaceuticals var stofnað árið 2002 af íslensku og sænsku vísindamönnunum Eiríki Steingrímssyni, Guðmundi H. Guðmundssyni, Önnu Birgittu Agerberth og Kurt Roger Strömberg. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2008

 

Ankeri

Ankeri starfar á alþjóðlegum skipamarkaði, sem er ábyrgur fyrir um 90% af öllum vöruflutningum heimsins. Markmið Ankeri að verða fyrsta fyrirtækið á markaði til að tengja saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig verður búinn til vettvangur, sem viðurkenndur er á alþjóðavísu, þar sem upplýsingum um hagkvæmni skipa er safnað saman og þær tengdar við frammistöðuábyrgðir í þeim samningum sem gilda milli eigenda og leigjenda skipa. Sú tækni sem Ankeri er að þróa miðar að því að eigendur skipa geti markaðsett þau út frá rekstrarhagkvæmni og að leigjendur geti valið skip út frá viðurkenndum upplýsingum um getu, rekstur, umhverfisáhrif og fleiri þætti.

www.ankeri.is

Félagið Ankeri Solutions ehf. var stofnað árið 2016 af Leifi Kristjánssyni og Kristni Aspelund, sem saman hafa áratuga reynslu af markaðssetningu, hönnun og framleiðslu á hugbúnaðartækni í skiparekstri.

Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2018.

Atmo Select

Atmo eða gogoyoko var stofnað til þess að leiða þýðingarmikla breytingu í tónlistariðnaðinum með viðskiptalíkani sem nefnist „Fair Play in Music“ og setur rétt listamanna í algjöran forgang. Upphaflega bauð gogoyoko upp á gjaldfrjálsa streymisþjónustu til neytenda en hefur nýlega breytt um stefnu og mun eftirleiðis sérhæfa sig í tónlistarlausnum fyrir fyrirtæki undir nafninu Atmo.

www.atmoselect.com

Gogoyoko var stofnað árið 2007 af Hauki Magnússyni og Pétri Úlfi Jónssyni. Aðalsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri félagsins. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2008

BioCule

Lífeind var stofnað árið 2001 og hafa starfsmenn Lífeindar unnið að þróun örgerlarafdráttarbúnaðar til að bjóða væntanlegum viðskiptavinum upp á einfalda og fljótvirka leið til að framkvæma tvívíðar rafdráttargreiningar á kjarnsýrum. Árið 2008 var stofnað systurfyrirtæki Lífeindar í Skotlandi, BioCule (Scotland) Limited. Það fyrirtæki hefur unnið að undirbúningi fyrir framleiðslu tækjabúnaðar, öflunar viòskiptasambanda og markaðssetningu. Félagið vinnur á grundvelli þriggja einkaleyfa. Markaðssetning tækjabúnaðar og rekstrarvara er hafin með kynningu tækninnar til valinna vísindamanna og rannsóknarstofnana.

www.biocule.com

Lífeind var stofnað af Jóni Jóhannesi Jónssyni. Framkvæmdastjóri félagsins er Hans Guttormur Þormar.

Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2001

Cooori

Cooori byggir á áralöngu rannsóknar- og þróunarstarfi við Tokyo Institute of Technology. Cooori býður vef-lausnir til tungumálanáms sem byggjast á nýjustu tækni í gervigreind, talgreiningu og gagnavinnslu. Lausnir sem geta valdið straumhvörfum í skilvirkni tungumálanáms í heiminum og byggja á flókinni tækni sem er í alþjóðlegu einkaleyfisferli og á sér ekki hliðstæðu. Í fyrstu útgáfu kerfisins var enskumælandi fólki hjálpað að læra japönsku en nú hefur enskukennsla fyrir japani einnig verið sett á markað. Formlegur rekstur með áskriftargjöldum hófst í maí 2012. Önnur tungumálapör munu fylgja í kjölfarið. Auk þess hefur Cooori gefið út sérlausn fyrir snjalltæki sem heitir Lingo World.

www.cooori.com

Cooori var stofnað árið 2010 og eru frumkvöðlar félagsins Arnar Þór Jensson og Þorsteinn G. Gunnarsson. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2011.

 

Dohop

Dohop var stofnað 2004 til að þróa og reka vef sem auðveldar neytendum um allan heim að finna ódýrar flugferðir og tengingar milli þeirra, hvort sem flogið er með lágfargjaldaflugfélögum eða ekki. Í dag fær vefurinn heimsóknir frá flestum löndum heims enda til á 26 tungumálum og mánaðarlega koma u.þ.b. 1 milljón gesta inn á vefinn. Dohop hefur gert auglýsingasamninga við hundruð flugfélaga og ferðaskrifstofa en auk þess selur Dohop flugfélögum og flugvöllum flugleitina sem þau nýta á eigin vefjum. Á vef Dohop er einnig að finna hótel- og bílaleiguleit sem unnin er í samstarfi við erlend fyrirtæki. Tæknin á bak við vefinn stendur traustum fótum og getur auðveldlega afkastað margfalt fleiri gestum. Á undanförnu ári var því lögð meiri áhersla á sölu- og markaðsstarf og áfram verður haldið á þeirri braut á komandi misserum.

www.dohop.is

Dohop var stofnað af Frosta Sigurjónssyni. Framkvæmdastjóri félagsins er Davíð Gunnarsson. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2008.

Expeda

Expeda býr til veflausnir sem gera læknum, heilbrigðisstarfsmönnum og einstaklingum mögulegt að nálgast og nýta læknisfræðilega sérfræðiþekkingu á sviði beinþynningar og sjálfsofnæmissjúkdóma. Þjónusta fyrirtækisins er gerð aðgengileg í gegnum hefðbundnar PC-tölvur sem og önnur veflæg jaðartæki s.s. snjallsíma og töflur (öpp). Fyrirtækið veitir viðskiptavinum sínum læknisfræðilega sérfræðiráðgjöf á þremur meginsviðum, þ.e. á sviði forvarna, greiningar og meðferðar þeirra sjúkdóma sem um ræðir. Megináherslur fyrirtækisins eru að svara þörfum þriggja markaða, lyfjaiðnaðar, tryggingastarfsemi og einstaklingsmarkaðar sem eru sjálfstætt starfandi læknar og einstaklingar. Fyrirtækið vinnur með heimsþekktum innlendum og erlendum vísindamönnum að vöruþróun og markaðssetningu á þjónustu sinni og hafa Evrópa og Bandaríkin verið skilgreind sem helstu markaðssvæði fyrirtækisins.

www.expeda.is

Félagið var stofnað árið 2008. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2011

eTactica

eTtactica, áður ReMake Electric hefur þróað rafskynjara sem kemur í stað hefðbundinna rafmagnsöryggja. Búnaðurinn nýtist vel sem greiningartæki og gefur notendum, bæði á heimilum og í fyrirtækjum, tækifæri á að vera upplýstir um rafmagnsnotkunina og stuðla þannig að orkusparnaði og auknu öryggi. Hilmir Ingi Jónsson frumkvöðull uppgötvaði í starfi sínu sem rafvirki að skortur var á upplýsingum til bilanaleitar og kviknaði hugmyndin í framhaldinu. ReMake Electric vann Gulleggið árið 2010 og í framhaldinu komu fjárfestar að fyrirtækinu. Markaðssetning vörunnar hófst að fullum krafti árið 2013 bæði hérlendis og erlendis og meðal viðskiptavina á Íslandi eru Bláa lónið, Ikea og Arion banki.

www.etactica.com

ReMake Electric var stofnað árið 2010 af Hilmi Inga Jónssyni.  Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2010.

Florealis

Florealis sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum jurtalyfjum við vægum algengum sjúkdómum. Florealis var valið sem annar af tveimur vinningshöfum Iceland’s Rising Star 2016 og eru því á alþjóðlegum lista Rising Star fyrirtækja sem eru talin líkleg til að vaxa hratt á næstu árum.  Munurinn á vörum Florealis og hefðbundnum lyfjum er fyrst og fremst sá að vörurnar eru allar gerðar úr virkum efnum frá náttúrunnar hendi. Florealis býður upp á viðurkennd jurtalyf og lækningavörur fyrir fólk sem krefst gæða og virkni á leið að bættri heilsu. Markaður fyrir jurtalyf er mjög stór víða erlendis. Í Þýskalandi og annars staðar í Mið-Evrópu er hann nánast á stalli með hefðbundnum lyfjum. Markaðurinn er kominn styttra á veg á Norðurlöndunum, en hefur verið að stækka hratt undanfarið. Florealis stefnir á að markaðssetja vörur félagsins á öllum Norðurlöndunum, en áhersla verður lögð á Svíþjóð í fyrstu atrennu.

 www.florealis.is

Félagið var stofnað árið 2013. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2018.

GENIS

Genís þróar nýjar aðferðir til að meðhöndla bólgu- og hrörnunarsjúkdóma einkum í bein- og brjóskvef en einnig í öðrum vefjum líkamans. Áherslur eru þríþættar: Unnið er að þróun aðferða til að nota amínósykrur til að efla græðingarmátt skaddaðs beinvefs með ígræðsluefnum við skurðaðgerðir. Verið er að þróa sykruform sem hægt er að gefa um munn til að sporna gegn vefjaskemmdum af völdum bólgu. Unnið er að rannsóknum sem lúta að því að varpa ljósi á þá ferla sem liggja til grundvallar líffræðilegri virkni amínósykranna. Genís vinnur mikið með innlendum og erlendum vísindamönnum og hefur rekið samstarfsverkefni með fjölmörgum háskólastofnunum og fyrirtækjum.

Kaptio

Kaptio gerir ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum kleift að halda utan um viðskiptavini, endursöluaðila og birgja á skilvirkari hátt en nú er unnt.  Hugbúnaðarlausnin er hönnuð sem viðbót við Salesforce CRM kerfið. Kaptio er fyrsta fyrirtækið sem selur lausn með áherslu á ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur innan Salesforce umhverfisins.

www.kaptio.is

Kaptio var stofnað 2009 af Arnari Laufdal Ólafssyni og Ragnari Ægi Fjölnissyni. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu 2014

Lauf forks

Lauf Forks var stofnað árið 2011 af þeim Benedikt Skúlasyni og Guðberg Björnssyni. Lauf Forks var upphaflega stofnað utan um uppfinningu léttasta demparagaffals í heimi, sem býr yfir svokallaðri blaðfjöðrun, og nýtur nú einkaleyfis á öllum helstu framleiðslu- og sölumörkuðum. Gaffallinn hefur rutt brautina fyrir reiðhjól undir vörumerki Lauf, sem nú eru til sölu af tveimur tegundum sem hvora um sig má fá í mismunandi útfærslum. Annars vegar malarhjólið Lauf True Grit, sem helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa undanfarið ausið lofi. Hins vegar Lauf Anywhere, sem er alhliða reiðhjól, sem var nýlega kynnt til sögunnar og hefur þegar hlotið mjög jákvæðar viðtökur. Það skartar nýju stýri sem gefur létta fjöðrun og er önnur tveggja uppfinninga félagsins sem eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli.

Reiðhjól Lauf Forks eru nú þegar seld í ríflega 70 verslunum vestanhafs en einnig með milligöngu dreifingaraðila um heim allan. Þá bjóða aðrir hjólaframleiðendur upp á demparagaffla frá Lauf Forks á reiðhjólum sínum. Umboðsaðili Lauf forks á Íslandi er hjólaverslunin Kría.

www.laufcycling.com

Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2019.

Men and Mice

Menn og mýs ehf. þróar og selur hugbúnaðarlausnir til stjórnunar á DNS-, DHCP- og IP-innviðum (DDI) fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki undir nafninu Men & Mice Suite. Undir kjörorðunum „First Choice in IP Address Managent leggur fyrirtækið áherslu á vandaða vöru, þekkingu og þjónustu. Menn og mýs var stofnað árið 1990 og árið 1995 var hafin vinna við gerð fyrsta QuickDNS sem var fyrsti DNS-þjónninn fyrir Apple umhverfi. 99% tekna koma frá erlendum stórfyrirtækjum og markaður fyrir DDI er í hröðum vexti. Í dag starfa 29 starfsmenn hjá félaginu.

www.menandmice.com

Menn og mýs var stofnað af Pétri Péturssyni og Jóni Georgi Aðalsteinssyni. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2001

Mentis Cura

Mentis Cura þróar lífvísa fyrir heilasjúkdóma.  Aðferðir félagsins byggja á heilalínuritum og gera kleift að greina sjúkdóma fyrr en áður og af meira öryggi, fyrir minna fé. Greiningin eykur möguleika á árangursríkari meðferðum og getur komið að mikilvægum notum við þróun á lyfjum. Fyrirtækið selur tvær vörur, annarsvegar fyrir greiningu Alzheimer  og hins vegar fyrir greiningu ofvirkni og athyglisbrests í börnum.  Félagið rekur greiningarstöð á Íslandi og markaðssetning er hafin í Evrópu.

www.mentiscura.is

Mentis Cura var stofnað árið 2004 af Kristni Johnsen og Lyfjaþróun ehf. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2009

Mentor

Mentor var stofnað árið 2000. Frá upphafi hefur fyrirtækið unnið með skólum og byggir á rúmlega 20 ára reynslu af rekstri og þróun upplýsingakerfa. Á þessum árum hefur orðið mikil þróun og kerfið er notað af skólum, sveitarfélögum og íþróttafélögum í nokkrum löndum. Í dag selur Infomentor háþróað vefkerfi sem kennarar nota í sínu daglega starfi. Þeir útbúa áætlanir, merkja ástundun, skrá heimavinnu og einkunnir og meta frammistöðu nemenda miðað við námskrá. Mentor spilar stórt hlutverk í samskiptum heimilis og skóla. Mentor er með starfsstöðvar í fimm löndum. Auk höfuðstöðvanna á Íslandi er fyrirtækið með stöðvar í Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss og Bretlandi.

www.mentor.is

Infomentor var stofnað árið 2000 af Jón Aðalsteinssyni og hjónunum Pétri Péturssyni og Vilborgu Einarsdóttur. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2007.

MedEye

Fyrirtækið MedEye sem áður hét Mint Solutions hefur hannað lausn sem auðveldar sjúkrastofnunum að hafa eftirlit með lyfjagjöfum. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi í gerð lausna til lyfjaeftirlits á sjúkrastofnunum. Mistök við lyfjagjöf eru alvarlegt vandamál sem allar sjúkrastofnanir glíma við og kostar fjölda mannslífa á ári hverju. MedEye skannar töflur myndrænt og greinir lyfjategundir til að koma í veg fyrir mistök. MedEye eykur öryggi við lyfjagjöf verulega og er einstakt í sinni röð. Sótt hefur verið um einkaleyfi á lausninni. MedEye er með viðskiptavini og samstarfsaðila í fjórum löndum.

www.mint.is

MedEye var stofnað árið 2010 af Gauta Reynissyni, Ívari Helgasyni og Maríu Rúnarsdóttur. Framkvæmdastjóri félagsins er Gauti Reynisson. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2011.

Nordic Visual

NordicPhotos sérhæfir sig í sölu ljósmynda eftir ljósmyndara á Norðurlöndunum í gegnum netið um allan heim ásamt því að selja ljósmyndir úr þekktum erlendum myndabönkum á Norðurlöndum. NordicPhotos er með samninga við yfir 500 ljósmyndara frá öllum Norðurlandaþjóðunum ásamt umboðum fyrir um 100 erlend myndasöfn og hefur skapað sér sess sem eitt stærsta myndasafn á Norðurlöndunum.

www.nordicphotos.com

NordicPhotos ehf. var stofnað árið 2000 af Arnaldi Gauti Johnsen sem einnig er framkvæmdastjóri félagsins. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2002.

 

OZ

OZ þróar hugbúnað og vélbúnað fyrir gagnvirka dreifiveitu sjónvarpsefnis. Þjónustan streymir sjónvarpsefni gegnum netið og gerir notendum kleift að stýra sinni dagskrá sjálfir, taka upp sitt uppáhaldsefni til einkanota sem geymt er á tölvuskýi, horfa á beina útsendingu, gera hlé á afspilun og spóla til baka óháð staðsetningu. Auk þess að vera starfandi á Íslandi hefur félagið í samstarfi við Sony og pólska ríkissjónvarpið hleypt þjónustunni af stokkunum í Póllandi.

www.oz.com

Framkvæmdastjóri félagsins er Guðjón Már Guðjónsson. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2013

Oxymap

Oxymap var stofnað til að þróa og markaðssetja rannsóknartæki til mælinga á súrefnismettun í sjónhimnu augans. Brenglun á súrefnisbúskap í sjónhimnu er talin koma við sögu í mörgum algengum og alvarlegum augnsjúkdómum, t.d. sjónhimnusjúkdómi í sykursýki og gláku. Oxymap framleiðir Retinal oximeter sem mælir súrefnismetttun og þvermál æða í sjónhimnu. Unnið er að þróun á hugbúnaði súrefnismælisins, að því að tryggja hugverkaréttindi með einkaleyfum, að gæðavottun og almennu markaðsleyfi. Oxymap vinnur með helstu rannsóknastofnunum á sviði augnlækninga í heiminum til að sýna fram á notagildi vörunnar. Hugbúnaður Oxymap og súrefnismælirinn passa vel inn í vörulínu hjá helstu tækjaframleiðendum á sviði augnlækninga.

www.oxymap.com

Oxymap var stofnað árið 2002 af Bryndísi Þórðardóttur og Einari Stefánssyni. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2008.

 

Sling

Gangverk hefur þróað hugbúnaðarlausnina Sling fyrir fyrirtæki í þjónustugeiranum sem er með fólk í vaktavinnu. Sling er samskipta- og stjórnunartæki fyrir fyrirtæki þar sem starfsmenn standa í vinnunni og hafa takmarkaðan aðgang að borðtölvum. Fyrst og fremst er horft til veitingastaða og verslana.

Á vefsíðu Sling stofnar fyrirtækið reikning og fær aðgang að bakenda sem stjórnar kerfinu.  Þaðan er sent boð á tölvupóst starfsmanns,  sem niðurhalar smáforriti eða „appi“ og skráir sig inn.  Þannig er komið á öruggu sambandi á milli fyrirtækis og starfsmanna.

www.sling.com

Gangverk var stofnað 2012 af Atla Þorbjörnssyni og Helga Hermannssyni. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu 2014 með lánsfé með breytirétti í hlutafé.

Sólfar studios

Sólfar er tölvuleikjastúdío sem vinnur að þróun og útgáfu leikja og upplifana fyrir búnað á borð við Oculus Rift frá Facebook og Morpheus frá Sony, en þessi tól eru væntanleg á markað á komandi ári.

Framboð á búnaði fyrir sýndarveruleika (VR, e. „virtual reality“) tekur miklum breytingum þessi misserin og reiknað er með sprengingu í framboði á ýmiskonar hugbúnaði fyrir þessi tæki.

www.solfar.com

Sólfar var stofnað 2014 af Sigurði Reyni Harðarsyni, Þorsteini Gunnarssyni og Kjartani Pierre Emilssyni.

Nýsköpunarsjóður kom að félaginu 2015.

Stiki

Stiki ehf. var stofnað árið 1992. Fyrirtækið þróar tvenns konar hugbúnaðarlausnir. Risk Management Studio er hugbúnaður hannaður fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem vilja tryggja öryggi og gæði í allri starfsemi sinni. Útflutningur á RM Studio hófst í árslok 2008 og er Stiki nú með viðskiptavini og samstarfsaðila í 16 löndum. RAI-hugbúnaður Stika er þróaður í samstarfi við íslenskar heilbrigðisstofnanir til gæðamats í heilbrigðisþjónustu. Gæði þjónustu eru metin fyrir marga þætti heilbrigðisþjónustu og gæðavísar reiknaðir út. RAI-hugbúnaðurinn er ætlaður opinberum og einkaaðilum í heilbrigðisþjónustu. Allur rekstur Stika er vottaður skv. ISO 9001 og ISO/IEC 27001. Stiki er gullvottaður Microsoft samstarfsaðili.

www.stiki.com

Stiki var stofnaður af Svönu Helen Björnsdóttur og er hún framkvæmdastjóri. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2007.

Sjóðir

Auður 1

AUÐUR I er framtakssjóður, sem í dag er í rekstri Kviku banka. Sjóðurinn fjárfesti í fyrirtækjum í rekstri með mikla vaxtarmöguleika, gjarnan í meirihlutaeigu eða undir stjórn kvenna, eða þar sem aðkoma Auðar getur leyst úr læðingi aukin verðmæti. Sjóðurinn hefur runnið sitt skeið og hafa margar eignanna verði seldar.

https://www.kvika.is/eignastyring/framtakssjodir/

 

Frumtak 1

Frumtak slhf. er sjóður sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og eru vænleg til vaxtar og útflutnings.

Sjóðurinn hefur það markmið að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði þannig að þau skili ekki aðeins góðri ávöxtun til fjárfesta heldur leggi einnig sitt af mörkum til þess að bæta það samfélag sem þau búa í. Frumtak slhf. fjárfestir á Íslandi en er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt er vegna markaðssóknar fyrirtækja í eigu Frumtaks á erlenda markaði. Sjóðurinn leggur áherslu á fjárfestingar þar sem líkur eru á miklum vexti og útflutningi. Sjóðurinn sérhæfir sig ekki í einstökum greinum. Nýsköpunarsjóður er hluthafi í Frumtaki I.

www.frumtak.is